Svona getur nú verið gaman!

Opinská lýsing ungrar konu af sinni fyrstu ferð með ÍFHK.

Helgina 8. - 10. september 1995 fór ég í mína fyrstu ferð með ÍFHK. Ferðinni var heitið um svokallaða Krakatindaleið, sem liggur að hluta til á Fjallabaksleið Syðri, hjólað skildi frá Landmannalaugum niður á Hellu í tveimur áföngum. Á laugardagsnótt var ætlunin að gista í svokölluðum Dalakofa sem er í einkaeign og klúbburinn hefur fengið að láni gegn vægu gjaldi.

 

landm1.gif

Fyrri dagleiðin er u.þ.b. 45-50 km, dálítið um brekkur en sú seinni um 75-80 km, þægilega aflíðandi niður í móti. Ég hafði lengi látið mig dreyma um að skella mér í svona "alvöru" ferð með allt mitt hafurtask á hjólinu en vegna skorts á rétta búnaðinum dróst það þar til nú í haust. Mér áskotnuðust reyndar mjög fínar töskur í sumar og fór svona aðeins um nágrannasveitafélögin, rétt til að þefa af stemningunni og fann hvernig sóttin heltók mig meira og meira í hverri ferð. Nema hvað, fyrrnefnda helgi eftir að hafa farið á fund hjá klúbbnum nokkrum dögum áður, til að kanna málin lét ég slag standa og sé ekki eftir því. Eftir að ég tók endanlega ákvörðun gat ég varla sofið fyrir spenningi og þær hugsanir að ég hefði ekkert í þessa "jaxla" að gera, yrði skilin eftir á reginfjöllum eða eitthvað þaðan af verra sóttu stíft á mig.

Loks rann föstudagurinn upp bjartur og fagur og átti að leggja í hann um kl. 18:00 frá Sprengisandi, Freyr nokkur Franksson ætlaði að keyra mannskapinn uppí Landmannalaugar á sínum fjallabíl. Eitthvað seinkaði þó drengnum þar sem verið var að smíða hjólagrindur á bílinn, en loks var þó lagt af stað seint um kvöldið. Ferðalangarnir sem tóku sér far með bílnum voru að ég held 12 talsins, á aldrinum 15-68 ára. Ferðin gekk vel, og var langt liðið á nótt þegar við nálguðumst Landmannalaugar. Áttum við skammt eftir þegar verður uppi fótur og fit í bílnum og einhverjir hrópa, hjólreiðamaður, hjólreiðamaður! Verður okkur nú litið út um framrúðu bílsins og sjáum þá grilla í manneskju með hjól skammt undan. Uss, þetta hlítur að vera útlendingur segir einhver kotroskinn í bílnum og hinir taka vel undir og fussa og sveija hver um annan þveran. 

En viti menn allt í einu hrópa drengirnir allir í kór, María, María, þetta er María. Ég hafði verið hálf dottandi þegar þetta uppþot varð og hugsaði með sjálfri mér "hver fjandinn, þeir eru að verða vitlausir mennirnir, ákallandi Maríu hér um miðja nótt". Í kjölfarið á þessu uppistandi snarstöðvar Freyr bifreiðina og út geysast þeir nokkrir og koma aftur að vörmu spori með Maríu og hjólhestinn hennar. Þetta var þá sem sagt stúlka að nafni María, vinkona þeirra, ein úr klúbbnum, kjarnakona mikil, búin að hjóla alla leið frá Reykjavík á 12 tímum og slá að mér skildist öll met með þessari uppákomu. Áfram héldum við með Maríu innanborðs og komumst í koju í Laugum um kl. 04:00 um nóttina. Í skálanum voru fyrir Magnús, tvíburarnir, Kalli Scott og einhverjir fleiri sem höfðu hjólað dagana á undan þannig að hópurinn sem ætlaði áfram næsta dag var þá komin í töluna 18.

landm4.gif


Eftir stuttann svefn, alltof stuttan að margra mati, fór fólk að týnast uppúr pokum sínum og huga að næringu. Upphófst nú mikið og almennt bjúgnaát, sem mörgum þykir alveg ómissandi orkubomba fyrir átök dagsins, menn taka sér misjafnan tíma í þessar helgistundir og hafði ég gaman af því að fylgjast með því sem fram fór. Eftir að hafa tekið hjólin af bílnum og gert klárt var ákveðið að Freyr tæki sem mest af farangrinum, og myndi hitta okkur í Dalakofanum. Héldum við nú af stað í alveg yndislegu veðri, það var hlýtt og gott og bærðist ekki hár á höfði. Mér til mikillar ánægju var hjólað í rólegheitum, enginn asi, og naut ég náttúrunnar út í ystu æsar, spjallaði við ferðafélagana sem ég þekkti hvorki haus né sporð á áður en ég lagði í þessa ferð, og líkaði mér lífið vel. Ég upplifði þarna alveg nýja tilfinningu, það að ferðast í óbyggðum á mínum hjólhesti í hópi góðra félaga sem svöruðu öllum mínum sakleysislegu viðvanings spurningum um allt það sem mér datt í hug.

Það kom mér reyndar á óvart hvað "jaxlarnir" voru mjúkir og þægilegir náungar þegar til kom, enda varla von á öðru í því stórkostlega umhverfi sem umvefur mann á þessum slóðum. Sóttist okkur ferðin vel og lék veðrið við okkur alveg þar til rétt síðasta spottann þegar fór að rigna og blása aðeins. Mér fannst það nú bara til að auka á stemminguna, enda margsannað að engin verður verri þó hann vökni. Tilhugsunin að komast í kofann og fá sér eitthvað gott í gogginn og láta þreytuna líða úr sér var aðeins farin að skjóta sér bak við eyrun.

landm2.gif

Í Dalakofann komum við svo svöng og sæl rétt undir kvöldmat. Eftir að allir höfðu komið sér inn og svona rétt snusað af kofanum hófst svo biðin eftir herra Frey. Voru menn spakir framan af en þegar sífellt leið lengra á kvöldið tók nú hópurinn að ókyrrast, enda fæstir með nokkurn skapaðan hlut, hvorki mat, þurr föt eða hvað þá heldur svefnpoka. Kvöldið leið þó hratt við spjall og spaug, þó svolítið væri farið að þykkna í sumum. Um miðnættið dúkkaði loks maðurinn á fjallabílnum uppi, hafði hann þá villst, enda aldrei komið í kofann áður og ekki mikið af vegvísum á þessum slóðum, kann hann söguna af sínum vegvillum betur en ég svo ég fer ekki nánar útí það. Þegar þarna var komið við sögu voru margir sofnaðir og héldu áfram að líða um dramalöndin þó vistirnar væru loks komnar. Aðrir renndu sér eins og gammar ofan í matartöskurnar sínar og rifu í sig næringu áður en lagst var í langþráða pokann til svefns. Af bílstjóra vorum er það að segja að hann stoppaði stutt en fór til Reykjavíkur þar sem hann þurfti að sinna einhverjum erindum og ætlaði svo að hitta okkur daginn eftir á Hellu. Með bílnum tóku sér far hún María sem var orðin hálf þreytt og aldursforsetinn í hópnum, 68 ára gamall maður sem ég man nú ekki nafnið á. Hafði þessi maður eins og margir fastlega reiknað með að bílinn myndi fylgja okkur úr Laugum og í Dalakofann þannig að hægt yrði að komast í vistirnar á leiðinni og njóta þannig næringar og skipta um föt ef með þyrfti. Var karlkvölin bæði kaldur og þreyttur eftir daginn svo hann gerði það eina rétta, að skella sér bara í bæinn fyrst sýnt var að bíllinn fylgdi ekki heldur daginn eftir. Jæja nóg um það, mannskapurinn róaðist eftir að hafa nærst og datt fljótlega allt í dúnalogn og nóttin vafði sig um litla kofann og innviði hans. Morguninn eftir var nú heldur hráslagalegt um að litast, hífandi rok og ausandi rigning, leist mér nú ekkert á blikuna en reif í mig kjarkinn í hljóði og lét á engu bera.

landm4.gif


Mér til mikillar gleði var þó þessi vindur í bakið stóran hluta leiðarinnar sem við áttum fyrir höndum og ferðinni heitið niður í móti í ofanálag, svo þetta leit bara nokkuð vel út allt saman. Eftir að hafa byrgt sig upp af orkuforða fyrir daginn og gengið frá að mestu, var matarafgöngum hent fyrir Magnús, hann étur víst alla afganga. Þá var þeim bræðrum Magnúsi og Jóni Erni falið það verk að sjá um lokafrágang, skúringar o.þ.h. Það er víst orðin hefð að "foringinn" verði eftir í kofum, éti afganga í rólegheitum og leggi svo blessun sína yfir fráganginn áður en hann þýtur á eftir hópnum á hraða ljóssins. Áður en lagt var í hann þurfti að yfirfara fákana lítillega og fannst mér mikið til koma þegar hann Kalli færði bögglaberann minn aftar á hjólinu bara rétt "si sona", og er það bara eitt lítið dæmi af því sem kom mér þægilega á óvart í þessari ferð, hvað allir voru hjálpsamir og tilbúnir að leggja nýgræðingum lið. T.d. hafði ungur norðanpiltur Eiríkur að nafni tekið hjólið mitt daginn áður og fiktað eitthvað í sæti, gírum og bremsum svo það var eins og allt annað hjól á eftir, svona smámunir skipta svo miklu máli þegar hjólreiðar eru annarsvegar að ég hefði aldrei trúað því að óreyndu. Nóg um það, tímabært þótti að leggja af stað og sóttist ferðin vel. Vindurinn í bakið og blússuðum við niður á Hellu á nokkrum klukkutímum. Þetta var alveg rosalega gaman, þessi leið er alveg frábær, þó veðrið hefði mátt vera betra þá hafði þetta sinn sjarma. Þegar við vorum kannski svona hálfnuð vega þá stytti upp og útsýnið var alveg frábært. Ég var svo uppmunin af þessu öllu saman að ég á ekki til orð til að lýsa öllum þeim tilfinningum sem flæddu um mig þennan dag og ætla ekki að reyna það.

Ég skora á þá sem ekki hafa farið þessa leið að gera það sem allra fyrst, því þetta er leið sem flestir ættu að geta ráðið við ef farið er á þeim hraða sem hentar hverjum og einum. Niður á Hellu komum við svo á tilsettum tíma og viti menn bílstjórinn okkar var mættur á staðinn. Í bæinn komum við svo á skikkanlegum tíma, rétt eftir kvöldmat, svo ég gat í rólegheitum gengið frá föggum mínum og náð mér niður fyrir svefninn. Sveif ég svo í draumalandið með bros á vör og var með brosið frosið á andlitinu í margra daga á eftir. Ætla ég nú ekki að hafa þetta mikið lengra, öllum ætti að vera ljóst að þrátt fyrir smá hnökra þá var þetta vel heppnuð ferð sem ég mun alltaf líta á sem mína fyrstu. Opnaðist mér þarna nýr heimur sem ég eftirvæntingafull bíð eftir að geta kannað nánar. Skora ég á alla þá sem ala með sér draum um að fara í ferðalag á hjólhesti sínum að láta þann draum rætast, eftir það er ekki aftur snúið.

Guðbjörg Halldórsdóttir



Þetta var jómfrúarferð Freys sem bílstjóra í ferðum klúbbsins. Aðrar ferðir hafa gengið vandræðalaust fyrir sig. Ýmist látum við bílinn fylgja hópnum eða bara ferja hópinn í og úr bænum. Páll Guðjónsson.

Skoðið nokkrar ljósmyndir úr ferðinni og lesið hvað Gísli skrifaði um sömu ferð.

©Hjólhesturinn 5.tlb. 4.árg. 1995.

Teikningar Jón Örn Bergsson