Hjólað í Skotlandi Undirbúningur
Síðastliðið vor fór Elín, eiginkona mín og stýrimaður á Orminum langa, að skoða skóla í Newcastle á Norðimbralandi. Fannst okkur hjónum þá tilvalið að nota tækifærið til þess að hjóla um Skotland og kynnast því hvernig þar væri umhorfs.
Að sið góðra manna hófum við undirbúning ferðarinnar strax í febrúar. Ég sendi út fyrirspurn á Alnetinu um það hvernig væri hægt að fá leigt tveggja manna hjól í Bretlandi. Þá bað ég einnig um upplýsingar um hjólreiðaleiðir.

Ekki stóð á svörum fólks. Var okkur bent á hjólreiðakort frá samtökunum Sustrans, en þau hafa lagt um 500 km af hjólreiðastígum vítt og breitt um Bretland. Var því aflað frá þeim korta og auk þess náðist samband við verslun í Glasgow sem var tilbúinn að leigja okkur tveggja manna hjól. Heitir verslunarstjórinn Peter Burt (framborið Búrt) og var hann hinn áhugasamasti. Tókum við á leigu hjá honum tveggja manna hjól af Dawes-gerð, svo kallað ferðahjól og hlökkuðum til ferðarinnar.   

Af greiðvikni Skota
Ég hélt til móts við Elínu í Skotlandi fimmtudaginn 5. júní síðastliðið sumar. Úti var norðan garri og blómin, sem hlaðfreyjan, fylginautur minn út í vél, hafði sett niður daginn áður, voru öll önduð. Tók ég þátt í harmi hennar og vottaði henni einlæga samúð. Ekki er að orðlengja um flugið til Glasgow. Það var allt eins og yfirleitt er.

Daginn eftir fórum við að hitta Peter Burt og leist honum ekki á blikuna þegar hann sá þessa þéttvöxnu Íslendinga sem ætluðu að taka nýja hjólið hans á leigu. Verðið var 20 Pund á dag og leigutíminn 6 dagar. Þetta hjól var heldur minna en Ormurinn langi. Það hentaði því Elínu vel en þröngt var um mig að aftan. Við létum okkur nú samt hafa það og hjóluðum heim á hótel.

Daginn eftir reyndum við hjólið og gafst það allvel. Hjóluðum við í áttina út úr borginni í austur. Ekki var hjólið alls kostar í lagi en við létum samt kyrrt liggja eftir að eigandinn hafði fullvissað okkur um að hann myndi hirða okkur upp hvar sem væri ef eitthvað bæri útaf. Þennan sama dag skoðuðum við samgöngusafnið í Glasgow sem allir hjólreiðamenn ættu að líta á. Þar er saga reiðhjólsins rakin og sýnd nokkur forn hjól sem unun er að skoða. Allt er safnið hið myndarlegasta og vel að því staðið.

Sunnudaginn 8. júní var lagt af stað í suðvestur meðfram Clyde-firði í áttina að Irving sem er um 50 km fjarlægð frá Glasgow. Okkur var tjáð að þangað lægi hjólreiðastígur sem við skyldum fylgja. Kortið var hins vegar ekki nákvæmara en svo eða merkingarnar öllu heldur að við fundum ekki stíg sem átti að liggja til nágrannabæjar Glasgow. Efitr að einn hafði vísað í austur, annar í vestur, sá þriðji sagt að stígurinn fyrirfyndist hvergi og sá fjórði að vissulega væri stígurinn til en hann vissi ekki hvar hann væri, ákváðum við að fylgja akbrautinni til þessa úthverfis. Gekk það snurðulaust og þar rákumst við á hinn margrómaða stíg.

Sustrans-stígarnir
Samtökin Sustrans, sem áður var getið, hafa lagt net göngu- og hjólreiðastíga um allar Bretlandseyjar og stöðugt bætast fleiri stígar við. Víða eru stígarnir á aflögðum brautarsporum og er því halli sáralítill og auðvelt að hjóla eftir þeim. Sums staðar er sá galli á gjöf Njarðar að hlið loka stígunum.

Eru þau svo þröng að með engu móti verður komist um þau með tveggja manna hjól. Ekki er hægt að opna þau og er sagt að þetta sé gert til þess að hindra umferð bifhjóla. Hins vegar er ekkert hugsað um fólk í hjólastólum eða með barnavagna. Sums staðar urðum við því að lyfta fullhlöðnu hjólinu yfir hliðgrindurnar sem voru allt að hálfum öðrum metra á hæð. Olli þetta okkur nokkrum pirringi og tafði ferðina nokkuð.   

Sustrans-stígurinn til Irving liggur víða um grösug engi og búsældarleg héruð. Farið er framhjá nokkrum þorpum á leiðinni. Margt gleður augu, eyru og nasir. Þar sem skógur birgir ekki sýn er víðsýnt; fuglar kvaka, kýr baula og að vitum berst ilmur gróðurs og mykju. Nokkur suðvestanvindur var og því andbyr. Vindurinn var svo hlýr að það kom ekki að sök og þótti okkur það nokkur tilbreyting frá því sem vant er hér á landi.

Þennan dag gekk hann á með skúrum og var það eins og á Íslandi að rigningin var lárétt. Við vorum ekkert að flýta okkur og komum til Irving um kl. 18 síðdegis eftir að hafa áð á ýmsum stöðum.
Víða þurftum við að spyrja til vegar því að merkingar voru óljósar. Voru allir reiðubúnir að hjálpa okkur og leysa úr vanda okkar í hvívetna. Skotar eru hjálpsamt fólk og kurteist. Þeir segja frekar ósatt en viðurkenna að þeir viti ekki hvert leiðin liggur.


Svæðið umhverfis Irving
Í þessum hluta Skotlands var mikil velsæld sem hófst um miðja síðustu öld og stóð fram yfir seinna stríð. Iðnaður var mikill, alls kyns vélsmíði og skipasmíðar. Notuðum við tækifærið á mánudeginum og hjóluðum vítt og breitt um borgina og nágrenni til þess að líta á minjar hins liðna.

Ferðamennska skiptir nú æ meira máli fyirr þetta landsvæði og gera heimamenn sitthvað til þess að laða að ferðafólk.Golfvöllur er þar víðfrægur, alls konar söfn og fagrir garðar sem gott er að dvelja í.

Gistihús eru mörg og ýmsir heimamenn hýsa gesti fyrir hóflega borgun.
Í Irving sjálfri er ekki mikið um hjólreiðastíga, en hægt er að hjóla á milli borga og bæja eftir fáförnum leiðum. Notfæra sér þetta margir og var talsverð umferð eftir þeim stígum sem við fórum eftir.

Yfirleitt voru hjólreiðamenn glaðir í bragði, buðu góðan dag og tækju menn tal saman urðu þeir glaðir að hitta Íslendinga sem virtust vel séðir á þessu svæði. Eitt vissu allir: Íslendingar væru hinar mestu eyðsluklær og lífsgæði á landinu mikil.

Aftur til Glasgow
Þriðjudaginn 10. júní var breyskju hiti. Við lögðum af stað frá Irving klukkan rúmlega 9 um morgun og héldum sem leið lá eftir stígunum til Glasgow. Miðaði okkur heldur hægt í fyrstu enda var hjólið þungt, heitt í veðri og við ekki að flýta okkur. Þegar nálgaðist hádegi áðum við og keyptum okkur vatn að drekka, en það er álíka dýrt í Skotlandi og gosdrykkir.

Til útborgar Glasgow komum við um eitt-leytið og sáum þá hvar göngustígurinn lá inn í borgina. Hugðum við nú gott til glóðarinnar. Eftir að hafa setið góða stund fyrir utan krá nokkra og sötrað ávaxtasafa var lagt í lokaáfangann. Stígur þessi liggur um ýmsa skemmtigarða og er hann víða rofinn af umferðargötum. Þar sem stígurinn liggur um friðsæl íbúðahverfi er umferð afar lítil. Hitt var verra að flestir þessir garðar voru lokaðir með þessum þröngu hliðum og töldum við ein 8 slík hlið sem við þurftum að rogast með hjólið yfir. Merkingarnar voru ekki betri en svo að í einum garðinum villtumst við og þóttumst góð þegar við sluppum út úr honum aftur.

Komumst við þá að því að okkur hafði lítið miðað áleiðis inn í borgina og tókum þann kost að hjóla eftir umferðaræðinni. Nú var farið að nálgast síðdegi og umferð og mengun því mikil. Sums staðar var hrópað á eftir okkur á götuhornum "Lifi Frakkland" og eitthvað því um líkt. Létum við okkur það vel líka og brostum á móti. Hjólinu skiluðum við síðan daginn eftir og vona ég að það hafi ekki beðið skaða af þessari þungu, íslensku áhöfn. Óhætt er að mæla með því að hjólreiðamenn reyni sig við stíga Skotlands. Að vísu fara menn ekki eins víða og á vélknúmum ökutækjum. Þeir skoða þeim mun betur það sem fyirr augu ber og kynnast um leið náttúru þessa fagra lands.

Arnþór Helgason háseti á Orminum langa. Myndir © Elín Árnadóttir stýrimaður á Orminum langa.
©Hjólhesturinn 2. tlb. 7. árg. 1998

Skoðið myndir úr ferðinni með því að smella hér eða á myndina fyrir neðan.