Það var sumarið 1996 sem ég ákvað að hjóla hluta af vestfjörðunum og ákvað ég að byrja að hjóla við Brjánslæk og tók ég ferjuna Baldur yfir Breiðarfjörð sem er gríðarlega fallegt svæði og ætti fólk að setja slíka ferð á planið hjá sér þó það væri ekki nema bara fram og til baka. En hvað um það. Ferðin byrjaði í Stykkishólmi þar sem ferjan var tekin og hjóleríið byrjaði í Brjánslæk.

GISLI-RAKARI.gifÞetta gekk vel og veðrið var ekki til að kvarta yfir, sól og blíða og bara á stuttbuxum og bol. Heiði eftir heiði en komum að því á eftir. Þetta eru mestu brekkur sem ég hef kynnst og myndi ég segja að fólk ætti ekki að byrja á að fara vestfirði ef það er að plana ferð um landið.

Fyrsti viðkomustaður var Patreksfjörður og kom ég þar í sól og fór þaðan í rigningu en logni. En Patró er sérstakur staður þar sem fólki er boðið kaffi eða djús í heita pottinum og er það helv. huggulegt. Svo má ekki gleyma bakaríinu þar en það er príma. Jæja, Tálknafjörður var næstur en stutt stopp þar og haldið yfir heiðina á Bíldudal og farið þar í hádegismat að sjoppunni Vegamótum og var þar kjúlli og franskar á boðstólum og það var eins og strákurinn hefði aldrei séð hænu fyrr eða fyrrverandi hænu því að það var eins og hænan hefði flogið ofan í kallinn. En ekki var hægt að vera þarna til eilífðar og kominn var tími til að halda áfram. Strákurinn tjaldaði svo loks innst í Arnarfirði og fann ég þar lítinn læk og fallegt svæði þar við.

Um kvöldið var ég að fá mér kaffi og sá ég þar tvo hjólreiðarmenn koma og flýtti ég mér upp á veg og þóttist ég vera að taka myndir og kom í ljós við smá umræður að þetta voru hjón frá Bretlandi og urðu þau ferðafélagar mínir það sem eftir var ferðarinnar. Dynjandi var næsta skref og var hún endalaus upp upp upp og hélt ég að þetta ætlaði aldrei að taka enda en svo gleymist það fljótt þegar upp er komið, þvílík dýrð útsýni yfir allt. Fossinn Dynjandi er frábært fyrirbæri og ættu allir að stara á hann eins lengi og þolinmæðin leyfir. Því næst er að halda áfram ferð og skoða meira. Eftir smá ferðalag í viðbót tók við enn önnur heiðin og var hún tekin með trompi enda strákurinn kominn í svaka form eftir allar hinar brekkurnar. En Þingeyri var næsti viðkomustaður og fórum við þar í sund og höfðum við það huggulegt.

Eftir þetta tók við nýr dagur og notuðum við hann til að hjóla á Ísafjörð og þannig klára ferðina. Að sjálfsögðu fékk maður sér pizzu og ís á eftir eins og venjulega. En talandi um brekkurnar sem kallast háheiði á íslensku þær eru hrikalegar og fór ég yfir níu stykki heiðar á fjórum dögum og þá skildi ég orðatiltækið "þolinmæði er dyggð".

Haldið áfram að hjóla
Kveðja Gísli Guðmundsson, Rakari.

© ÍFHK
Hjólhesturinn 2. tbl 2001.