Sumarið 2004 varð okkur hjónum óvenjugott til hjólreiða enda veðursæld með þvílíkum ólíkindum að menn minnast þessa sumars fyrir hlýindi og þeir sem muna langt aftur bera það saman við sumarið 1939. Þá var Árni Jónsson, tengdafaðir minn, 14 ára og hjólaði ásamt vini sínum frá Reykjavík norður til Akureyrar. Lögðu þeir af stað snemma morguns og héldu sem leið lá upp í Hvalfjörð. Þótti þeim fjörðurinn ærið langur og vegurinn vondur.

Ekki segir síðan nánar af ferðum þeirra fyrr en þeir komu upp á Holtavörðuheiði. Þar var vegurinn rennisléttur eða "eins og hefluð fjöl" og fóru þeir félagar á ofsahraða niður heiðina. Þeir námu staðar skammt frá Grænumýrartungu og ákváðu að hvílast enda liðið að kvöldi. Kveiktu þeir á prímus sem þeir höfðu meðferðis og settu á hann dós með niðursoðnum fiskibollum. Utan á dósinni stóð að hita mætti bollurnar í dósinni. Lögðust þeir síðan til hvíldar og sofnuðu samstundis.

Ekki höfðu þeir lengi dvalið í draumheimum þegar þeir vöknuðu við ægilega sprengingu. Prímusinn var ónýtur og ekkert sást af fiskibollunum. Annað lokið af dósinni fundu þeir uppi á hrútakofa þar skammt frá.

Þeir héldu ferð sinni áfram og náðu á Hvammstanga um 4-leytið um nóttina. Þeir voru þá orðnir svo þreyttir að þeir köstuðu yfir sig tjaldinu og steinsofnuðu.

Það sem eftir var ferðarinnar fóru þeir hægt yfir og námu víða staðar á leiðinni til þess að falast eftir vatnssopa á bæjunum. Var þeim yfirleitt tekið með kostum og kynjum og veittur hinn besti beini.

En áfram um síðasta sumar.

Í júnímánuði og framan af júlí hjóluðum við hjónin saman til vinnu. Við búum á Seltjarnarnesi. Elín vinnur í Öskjuhlíðarskóla en ég hjá Öryrkjabandalagi Íslands. Stundum hjóluðum við upp í Öskjuhlíðarskóla og þaðan hélt ég svo til vinnu minnar. Eftir að skóla lauk hjólaði hún með mér austur í Hátún og síðan heim aftur ein á Orminum bláa. Vorum við u.þ.b. 20 mínútur (einstaka sinnum 17-18 mín.) á leiðinni eftir því hvernig viðraði.

 

Þingvalladraumurinn rætist

Fyrstu helgina í júlí var spáð prýðilegu veðri. Ákváðum við þá að láta gamlan draum rætast og hjóla austur á Þingvelli. Föstudagsmorguninn 2. júlí var heldur þungbúinn í Reykjavík. En eftir hádegi stytti upp og létum við þá slag standa. Tekinn var til farangur, einkum fatnaður til tveggja daga og kl. 15:00 var lagt af stað. Bob-vagninn reyndist léttur í drætti og fylgdi hjólinu eftir án nokkurra óþæginda. Veður var léttskýjað og hæglætis suðvestanátt.

Leið okkar lá um Grafarvoginn upp í Mosfellssveit. Þræddum við ekki strandlengjuna að öllu leyti heldur fórum neðan við Grafarvogskirkju, framhjá sundlauginni, gegnum kirkjugarðinn og neðan við Korpúlfsstaði, enda er reiðhjólastígurinn afar hlykkjóttur meðfram sjónum í Grafarvogi og ýmsar óþarfar brekkur. Sárlega þyrfti að gefa út kort sem sýnir reiðhjólaleiðir á höfuðborgarsvæðinu og merkja leiðir á stígamótum.

Það var skemmtilegt að hjóla upp úr Mosfellsdalnum. Fuglasöngur kvað við og ilmur af gróðri margs konar fyllti vitin. Framundan var Mosfellsheiðin. Okkur til mikillar furðu reyndist brattinn minni en við bjuggumst við.

Við höfðum gert ráð fyrir að vera um fjórar og hálfa klukkustund á leiðinni með áningum, en við sáum fljótt að sú áætlun stóðst engan veginn. Ferðin upp heiðina gekk undarlega vel og þegar tók að halla undan fæti stigum við Orminn bláa á 47 km hraða. Þingvallavatn birtist þegar hjólaðir höfðu verið 46 km og herti nú hjólið enn á sér. Framhjá upplýsingamiðstöðinni við Almannagjá hjóluðum við kl. 18:10. Héldum við niður gjána og var það skemmtileg tilbreyting að fara þessa leið hjólandi í stað þess að ganga hana eins og vant er. Þó nokkur fjöldi ferðamanna varð á vegi okkar enda Þingvellir einhver fjölsóttasti staður landsins. Við komum að Hótel Valhöll kl. tæplega hálfsjö og vorum því klukkustund á undan áætlun. Höfðum við þá hjólað 58,6 km á þremur klst. og einni mínútu og áð í 28 mínútur. Meðalhraði var 19,5 km.

Um kvöldið nutum við dýrlegra veitinga á hótelinu og nutum síðan hvíldar í uppbúnum rúmum. Deginum eftir eyddum við á Þingvöllum, hjóluðum þennan 17km hring í þjóðgarðinum og dálítið um nágrennið. Kvöldið var lygnt og undurfagurt. Nutum við þar næðis og Elín tók myndir af leikjum ljóss og skugga á spegilsléttum vatnsfletinum ásamt ýmsu sem fyrir augu bar.

Spegill, spegill herm þú mér, frá Þingvöllum

Spegill, spegill herm þú mér, frá Þingvöllum

 

Stafalogn á Þingvöllum
Stafalogn á Þingvöllum

 

Daginn eftir, sunnudaginn 4. júlí, gekk á með rigningarhryðjum. Lögðum við af stað til Reykjavíkur um kl. 10:45 og héldum áleiðis upp á Mosfellsheiði. Skiptust á skin og skúrir á leiðinni. Þegar var komið niður að Vesturlandsvegi fór að hellirigna og var þá ekki um annað að ræða en sveipa um sig regnkápum og hjóla á móti suðvestanrigningunni. Að vísu stytti upp síðasta hluta leiðarinnar. Heim komum við kl. 14.30 eins og hundar af sundi dregnir, meira að segja nærfötin var hægt að vinda.

Við mælum eindregið með því að fólk láti eftir sér að hjóla til Þingvalla. Það er auðveldara en margur hyggur. Vilji menn njóta góðrar gistingar og veitinga verður mönnum mun betra af matnum vegna þess að samviskan segir þeim að þeir hafi svo sannarlega unnið fyrir þægindunum.

 

Hjólið stillt

Í þingvallaferðinni fannst okkur gírakerfið á Orminum haga sér þannig að ástæða væri til að stilla það. Hafði ég því samband við Kristin Hjaltalín og bað hann aðstoðar. Hann boðaði komu sína til okkar sunnudaginn 11. júlí.

Hringur nýtur hvíldar í Elliðaárhólma
Hringur nýtur hvíldar í Elliðaárhólma

 

Sá dagur var fyrir margra hluta sakir eftirminnilegur. Sonarsonur Elínar, Hringur Árnason, var þá hjá okkur í fóstri og hjóluðum við með honum vestan af Seltjarnarnesi austur í Elliðaárhólma. Var það lengsta hjólreið snáðans til þessa, sem var tæpra 10 ára og stóð hann sig með prýði. Voru afi og amma afar ánægð með piltinn.

Hringur og afi í flæðarmálinu við Seltjörn

Hringur og afi í flæðarmálinu við Seltjörn


Hjólað heim eftir sjóbað

Hjólað heim eftir sjóbað

 

Síðdegis þennan sama dag hringdi til mín svissneskur hjólreiðamaður, Richard Schwaap að nafni. Sá hafði komið hingað fyrir fjórum árum ásamt blindri stúlku og hjóluðu þau á tveggja manna hjóli um landið. Þau höfðu samband við okkur hjónin og buðum við þeim í heimsókn. Richard þessi hefur gert við reiðhjól og stillt þau fyrir fólk. Hafði hann orð á því að honum léki hugur á að taka mál af okkur hjónum og láta sérsmíða handa okkur stell. En ekkert varð af því. Í símtalinu sagði ég honum frá fyrirhugaðri heimsókn Kristins og varð hann fjöðrum fenginn; nýlegt hjól og laghentur Íslendingur! "Má ég ekki koma í kvöld?" Og við sóttum hann.

Hann leit á Orminn bláa og spurði Elínu hvort hann ætti ekki að stilla stellið fyrir hana. Elín féllst á það og hófst hann þegar handa. Í sömu mund bar að Kristin og saman slátruðu þeir Orminum. Stýrið varð ekki hækkað meira en orðið var. En sæti stýrimannsins lækkuðu þeir örlítið og færðu hnakkinn fram. Tók þessi aðgerð ásamt yfirferð yfir gíra og hjólbarðaskiptum um þrjár og hálfa klukkustund. Verður að segjast eins og er að stillingin skipti sköpum vegna ferðanna sem framundan voru. Ekki reyndi eins mikið á hendur Elínar og orka hennar til hjólreiða nýttist mun betur en áður. Eiga þeir Kristinn og Richard miklar þakkir skyldar. Í þessu sambandi er rétt að taka fram að ætíð reynir meira á hendur stýrimanns á tveggja manna hjóli og skiptir því stilling höfuðmáli.

Richard og Kristinn gera að Orminum bláa

Richard og Kristinn gera að Orminum bláa

 

Enn af hjólreiðum á Norðurlandi

Sumarið 2002 tókum við Orminn með okkur norður í land og hugðumst hjóla þar. Minna varð um hjólreiðar en við ætluðum vegna veðurs.

Þann 21. júlí á því herrans ári 2004 héldum við norður í Skagafjörð. Með okkur í för var vinkona okkar hjóna, Unnur Stefanía Alfreðsdóttir. Hún hafði keypt sér Trek hjól fyrir nokkru og hugðist hjóla með okkur fyrir norðan. Elín keypti því aðra festingu á bílinn, sérsniðna fyrir einmenningshjól og sagði sem satt var að sú festing myndi nýtast barnabarninu og fleirum sem vildu slást í för með okkur. Var því rennireiðin vel tvíhjólum búin, einu Trek-einmenningshjóli og Thorn tveggja manna hjóli. Þannig búin héldum við norður á Hofsós en við fengum þar inni í sumarhúsi sonar og tengdadóttur Elínar, Hvassafelli.

Húsbóndinn í Hvassafelli með eggið góða

Húsbóndinn í Hvassafelli með eggið góða


Sérkennilegar klappir í fjörunni við Hofsós

Sérkennilegar klappir í fjörunni við Hofsós


Fákarnir bryðja mélin við Hvassafell

Fákarnir bryðja mélin við Hvassafell

 

Fimmtudaginn 22. júlí var farið í dálitla skoðunarferð í nágrenni Hofsóss og síðan út að Höfða á Höfðaströnd. Þangað er um 10 km leið og var á móti norðan golu að sækja. Var þetta í fyrsta sinn sem Unnur hjólaði utan bæjar og stóð hún sig vel. Eftir að hafa notið dýrlegra veitinga hjá þeim sæmdarhjónum, Guðrúnu Þórðardóttur og Friðriki Antonssyni, var haldið aftur að Hofsósi. Nú var logn og þeystum við þessa 10 km á um 20 mínútum.

Unnur og Arnþór á Hólum
Unnur og Arnþór á Hólum

 

Nú var kviknaður mikill eldmóður í okkur og var ákveðið að fara heim að Hólum daginn eftir. Við Elín höfðum farið þessa leið tveimur árum áður og minntumst enn heimferðarinnar gegn ískaldri norðanáttinni. Þennan dag, föstudaginn 23. júlí, var hins vegar yndislegt veður, 20 stiga hiti, sólskin annað veifið en skúraleiðingar öðru hverju. Var lagt af stað upp úr kl. 10:30 og haldið áfram með hléum. Þegar komið var inn í mynni Hjaltadals ákváðu konurnar að nú væri tími til kominn að snæða og halda síðan heim að Hólum. Var numið staðar, ábreiður dregnar upp úr töskum og hið forkunnargóða nesti sem þær höfðu smurt. Skipti þá engum togum að ský nokkurt bar yfir okkur og rigndi úr því eldi og brennisteini. Urðum við öll holdvot. Varð því áningin styttri en ella og haldið af stað á nýjan leik. Brátt hjóluðum við út úr rigningunni og var auðséð það sem eftir var leiðarinnar að Hólum að ekki hafði komið dropi úr lofti annars staðar í Hjaltadalnum. Skýið elti okkur en var þó ekki jafnfljótt í förum og við. Sluppum við undan því inn í hús áður en það náði til okkar að nýju.

Kvöldverður í Hólaskóla

Kvöldverður í Hólaskóla

 

Við nutum þess að spranga um á Hólum og skoða staðinn. Þar er prýðileg sundlaug sem við nýttum okkur. Eftir sundið og dvöl í heita pottinum skoðuðum við staðinn og snæddum síðan dýrindis kvöldverð í veitingastaðnum Undir Hólabyrðu. Ferðin að Hofsósi gekk býsna vel um kvöldið enda var stillilogn. Um tíma var þokan hættulega þykk en það kom sem betur fer ekki að sök. Þá sýndi það sig hversu mikilvægt er að hafa góð ljós á hjólum.

 

Ljósin kveikt áður en haldið er inn í Strákagöng

Ljósin kveikt áður en haldið er inn í Strákagöng

 


Haldið lengra norður á bóginn

Mánudaginn 26 júlí ókum við Unni og hjólhesti hennar í Varmahlíð þar sem hún tók sér far með áætlunarbifreið til Reykjavíkur. Við Elín höfðum hins vegar í huga að hjóla norður á Siglufjörð með viðkomu að Bjarnargili í Fljótum, en að Bjarnargili eru um 39 km frá Hofsósi. Veður þennan dag var hvasst af suðvestri og þóttumst við því mundum fá góðan byr norður.

Fagurt er í Fljótum

Fagurt er í Fljótum

 

Þegar norður á Hofsós kom var tekið til óspilltra málanna við að búa okkur til ferðarinnar. Því nauðsynlegasta var troðið í töskurnar sem hengdar voru á bögglaberann enda skyldi útivistin ekki verða löng. Um kl. 14:30 héldum við út úr þorpinu og þeyttumst norður eftir þjóðveginum að Höfða á Höfðaströnd, en þar hugðumst við láta vita um ferðir okkar.

Eftir að hafa þegið góðgerðir var haldið áleiðis norður í Fljót.

Sannast sagna gekk ferðin ákaflega vel. Við höfðum hvassa og hlýja suðvestanáttina í bakið og miðaði því hratt áleiðis. Bar ekkert til tíðinda fyrr en við komum í Fljótin. Þá þurftum við að sveigja til suðausturs og varð því vindurinn í fangið. Áðum við dálitla stund að Ketilási áður en tekinn var lokaspretturinn að Bjarnargili. Þangað komum við rétt fyrir kl. 18:30 og höfðum þá hjólað þann dag um 39 km. Meðalhraðinn var eitthvað rúmir 25 km á klukkustund.

Að Bjarnargili búa ferðabændur, Trausti Sveinsson og Sigurbjörg Bjarnadóttir. Höfðum við ætlað að gista hjá þeim tveimur árum áður þegar við hugðumst hjóla frá Hofsósi um Lágheiði til Ólafsfjarðar, þaðan yfir í Eyjafjörð og suður til Akureyrar. En veðrið var svo hraksmánarlegt eins og getið var hér að framan að ekkert varð úr framkvæmdum. En hingað vorum við nú komin og var tekið með kostum og kynjum. Þau hjónin hafa tekið á móti fjölmörgu hjólreiðafólki og kunna góð skil á ýmsu sem snertir hjólreiðar. Var setið lengi fram eftir að spjalli um landsins gagn og nauðsynjar. Trausti er mikill áhugamaður um samgöngubætur á þessum slóðum og hefur reynt að vinna málum sínum fylgi með ýmsum hætti. Hann tollir enn í Framsóknarflokknum þótt lítið fari fyrir lýðræðinu þar á bæ og ávítaði undirritaðan fyrir að hafa sagt sig úr flokknum, taldi ekki veita af framsæknu fólki þar.

Daginn eftir var enn sama, hvassa suðvestanáttin og gerðum við ráð fyrir að ferðin norður á Siglufjörð tæki okkur um tvær klukkustundir þar sem nokkuð er á brattann að sækja, en leiðin er tæpir 28 km. Lögðum við af stað frá Bjarnargili klukkan tæplega 10:30 um morguninn.

Vart get ég haldið því fram að leiðin norður á Siglufjörð hafi reynst okkur erfið. Ekki voru margar, mjög brattar brekkur á leiðinni og mikið klifur var okkur launað með hraðri ofanferð. Sýndi hraðamælirinn eitt sinn 72 km hraða. En við tók brött brekka upp á við og svona gekk þetta. Nokkuð tafði fyrir okkur að vegaframkvæmdir stóðu yfir. En í Strákagöngin komum við um kl. 11:30 og vorum komin niður í kaupstaðinn um hádegisbil. Því fylgir allsérstæð tilfinning að hjóla um jarðgöng. Nálægð bergsins og myrkrið er yfirþyrmandi fyrst eftir að inn er komið. Við vorum klædd í áberandi föt og gættum þess að hafa hjólið ljósum prýtt. Gekk enda allt slysalaust.

Ekki segir mikið af dvöl okkar á Siglufirði. Dvöldum við þar um daginn í björtu veðri, hjóluðum um, fórum í sund og skoðuðum Síldarminjasafnið. Um kvöldið var haldið kyrru fyrir.

Elín og Ormurinn við Síldarminnjasafnið, myndasmiður Arnþór

Elín og Ormurinn við Síldarminnjasafnið, myndasmiður Arnþór

 

Veðurspáin fyrir miðvikudaginn 28. júlí var nokkuð óljós. Sýndist okkur jafnvel að svo gæti farið að við þyrftum að taka áætlunarbifreið að Hofsósi, sækja bifreið okkar þangað, halda akandi norður á Siglufjörð og sækja hjólið, því að nær óvinnandi vegur er að hjóla á móti hvassri suðvestan áttinni, enda um 60 km frá Siglufirði að Hofsósi.

En viti menn. Þegar við vöknuðum um morguninn skein sól í heiði og einungis var skráður 1 vindmetri á sekúndu í Siglufjarðarskarði og var hann sagður anda úr norðaustri. Veðrið gat því vart talist ákjósanlegra.

Við lögðum af stað upp úr kaupstaðnum um kl. 10:10. Nokkuð bratt er upp að Strákagöngum og vorum við komin þangað um kl. 11:00. Við flýttum okkur hægt, röltum upp bröttustu brekkurnar og notuðum tækifærið til þess að njóta veðurs og útsýnis. Elín tók talsvert af myndum. Í Almenningunum brá Elín sér útfyrir veg og týndi handa okkur ber sem voru orðin furðu þroskuð enda hafði sumarið verið venju fremur hlýtt og sólríkt. Að Ketilási komum við um hádegisbil og áðum þar.

Þaðan var svo haldið upp úr kl. 1 áleiðis að Hofsósi. Okkur skilaði vel áfram. Norðaustanáttin varð öllu skilvirkari þegar hafrænuna lagði inn Skagafjörðinn og skilaði okkur því drjúgum áfram.    

Haldið frá Siglufirði í blíðskaparveðri

Haldið frá Siglufirði í blíðskaparveðri

 

Við áðum fyrir ofan Lónskot og héldum því næst sem leið lá að Hofsósi. Þangað komum við um kl. 15:30 og höfðum þá hjólað um 62 km þann dag.

Ekki varð meira úr hjólreiðum á Norðurlandi í þetta skipti. Daginn eftir héldum við akandi til Akureyrar og þaðan austur á Stöðvarfjörð. Þar var staðnæmst í tvo daga en síðan haldið upp á hérað. Hjólið var að vísu tekið ofan á Egilsstöðum og örlítið hjólað. Hið sama var um Stöðvarfjörð. Þar hjóluðum við dálítið laugardagsmorguninn 31. júlí og lentum í miklu slagveðri. Hressti það bæði líkama og sál.

Segir svo ekki meira af hjólreiðum þetta sumarið að öðru leyti en því að hvert tækifæri var notað til þess að hjóla um allt höfuðborgarsvæðið. Í hlýviðrinu kom áþreifanlega í ljós hvernig hlýindin auðveldar mönnum hjólreiðar. Þá fer minni orka í að hita upp líkamann og menn hjóla því hraðar gegn vindi en í köldu veðri.

Sumarið 2004 verður vafalítið lengi í minnum haft sem hjólreiðasumarið mikla enda léku veðurguðirnir við mannfólkið sem aldrei fyrr.

© Arnþór Helgason
 
© ÍFHK 2005