Formáli

Nokkru eftir að við Elín kynntumst gerðum við tilraunir með hjólreiðar. Elín var þaulvön en ég lítt. Ég hafði ekkert hjólað að ráði síðan ég var barn og varð að hætta vegna sjóndepru. Fyrst var fengið að láni gamalt DBS tveggja manna hjól í eigu Blindrafélagsins. Reynslan af því varð heldur slæm svo að við urðum næstum því afhuga frekari hjólreiðum um nokkurra ára skeið. Hugmyndin blundaði þó ætíð innra með okkur og ég lét kanna verð á DBS-hjólum en þau reyndust heldur dýr. En árið 1993 keyptum við Trek T-100 tveggja manna hjól sem hlaut nafnið Ormurinn langi eftir langskipi Ólafs konungs Tryggvasonar. Hjólið var að vísu mun dýrara en við áttum von á en við létum slag standa. Ormurinn langi er götuhjól á 28 þumlunga dekkjum. Stellið var að vísu í það stærsta fyrir Elínu stýrimann en með nokkrum tilfæringum tókst að gera það nothæft. Er skemmst frá því að segja að á því hjóli fórum við nokkrar ferðir austur í Grímsnes, árið 1995 til Akureyrar og árið eftir austur á Stöðvarfjörð. Síðast reyndum við að fara austur í Grímsnes árið 2000 en þá brotnuðu teinar í afturgjörðinni og varð því ekki að frekari hjólreiðum þann daginn.

Yfirleitt gengu þessar hjólreiðar vel. Einu sinni lentum við þó í því að Elín féllum koll og hjólið á hana ofan. Í sömu svifum bar þar að eldhúsbíl frá Guðmundi Jónassyni og mátti litlu muna að hún yrði undir bílnum. Í annað skipti sprakk hjá okkur í suðvestan ruddaveðri. Hjóluðum við þá að Selfossi og fengum okkur og Orminn langa flutt suður til Reykjavíkur með áætlunarbifreið. Var það eins gott því að haglhryðjur og suðvestanstormur voru á Hellisheiðinni.

Ormurinn langi var í okkar eigu fram í ársbyrjun 2003 en þá keypti Kristinn Hjaltalín hann og þeysir nú um á honum ásamt Soffíu dóttur sinni. Ormurinn langi hafði þá borið okkur hjónin rúmlega 12.500 km vítt og breitt um landið og veitt okkur mikla ánægju. Enn fer hann víða og sumarið 2003 fréttum við að þau feðginin hefðu stefnt honum austur á Þingvöll, þaðan um Lyngdalsheiði að Laugavatni og síðan að Selfossi þar sem þau fengu sig flutt til Reykjavíkur.

 

Ormurinn blái

Árið 2002 var hálf öld liðin frá fæðingu hásetans á Orminum langa. Í tilefni þess ákvað Elín stýrimaður að gefa bónda sínum nýtt tveggja manna hjól. Sá fimmtugi hafði lesið sér til um bresk tveggja manna hjól af tegundinni Thorn. Leist honum vel á þau og hreifst einkum af frásögn af sigri þeirra í frönskum kappreiðum sem stóðu yfir í nokkra daga. Þátttakendur hjóluðu eins og þeir orkuðu 1200 km leið og hvíldust öðru hverju. Eitt sinn sá stýrimaðurinn á hjólinu ekki betur en að maður sæti á miðjum þjóðveginum um kolsvarta nótt og léki á flygil. Þar sem Thorn-hjólið var á miklum hraða neyddist hann til þess að sveigja fram hjá flyglinum og hemla um leið. Lenti hjólið með áhöfninni niðri í skurði og var víst reyndin sú að stýrimaður hafði sofnað og birtist honum hljóðfæraleikarinn í draumi.

En sem sagt: Í desember 2001 hófust samningar við Robin Thorn um smíði hjólsins. Var ákveðið að kaupa Thorn Discovery 2000 með góðum búnaði. Lögðu ýmsir sérfræðingar mat sitt á smíðalýsinguna og jafnvel sjálfur Magnús Bergsson gerði fáar en góðar athugasemdir. Skyldi hjólið vera að miðstærð að framanverðu en lengra að aftan. Var þetta gert til þess að auðvelda stýrimanni að stjórna hjólinu en hann (hún) er lægri en hásetinn. Hjólið kom til landsins 12. mars 2002 og gekk Björn Ingólfsson í versluninni Hjólinu frá því. Í ljós kom að engin fótstig fylgdu og þótti okkur það undarlegt. Var leitað til Magnúsar Bergssonar um val á fótstigum. Þá kom í ljós að um 58 gerðir var að ræða og taldi Magnús einungis eina þeirra henta okkur. Keyptum við þessi eðalfótstig og hafa þau reynst prýðilega. Ég hafði gleymt að gera ráð fyrir þessu þegar ég pantaði hjólið.

Hringur Árnason, barnabarn Elínar, hefur yfirleitt verið með í ráðum þegar farartækjum okkar hjóna hefur verið gefið nafn. Hann vissi að Ormurinn langi var skip og vissi líka að afa þótti vænt um skipið Skaftfelling. Fannst honum því tilvalið að nýja hjólið héti Skaftfellingur. Ekki felldi afi sig við það og stakk upp á að hjólið héti Stígandi; það hefði verið gott skip og verið í eigu Ingimundar gamla. Nei, sagði Hringur. Fyrst það fékk ekki að heita Skaftfellingur var eins gott að það héti Ormurinn blái.

Ormurinn blái fór í sína fyrstu reynsluferð 16. mars og þótti okkur hjónum unaðslegt að sitja hann. Smávægilegir gallar komu fram í upphafi en þeir voru lagfærðir. Einnig voru um haustið gerðar breytingar á stýrinu. Var það hækkað umtalsvert til þess að létta á höndum stýrimanns.

Árið 1998 höfðum við keypt sérstaka festingu fyrir tveggja manna hjól sem sett var á skutbíl okkar hjóna. Er búnaður þessi þannig úr garði gerður að hjólinu er komið fyrir á þaki bifreiðarinnar. Er gaffallinn festur og heldur hann því hjólinu í raun föstu. Rís það svo upp af bifreiðinni eins og hvert annað listaverk. Á hverju sumri höfum við farið með hjólið hringinn kringum landið og hjólað þar sem okkur hefur lyst. Sumarið 2002 hjóluðum við til að mynda um norður í Skagafirði, á Akureyri og austur á fjörðum. Eykur það óneitanlega ánægjuna af þessum ferðum að geta haft hjólið með hvert á land sem er.

 

Hjólað um Snæfellsnes

Við hjónin höfðum oftsinnis rætt um að gaman væri að fara hringferð um Snæfellsnesið og stansa þar sem hugurinn girntist til þess að skoða athyglisverðar náttúruminjar og annað sem fyrir augu og eyru bæri. Var loks ákveðið að láta af þessu verða sumarið 2003.

Ákveðið var að fara nokkrar fremur stuttar dagleiðir og var sú lengsta á milli 50 - 60 km. Skyldi lagt upp mánudaginn 7. júlí og haldið sem leið lá frá Dalsmynni í Eyja- og Miklaholtshreppi, vestur fyrir Jökul, um Stykkishólm og aftur að Dalsmynni. Var gert ráð fyrir að ljúka ferðinni sunnudaginn 13. júlí.

Áður en lagt var af stað var skipt um keðju enda virtist tími til þess kominn. Eins og ráðlegt er var hjólið prófað og farið í um 30 km leiðangur um Reykjavíkursvæðið.     

Lagt af stað frá Brekkubæ

Lagt af stað frá Brekkubæ

 

Þá kom í ljós að eitthvað var að afturhjólinu. Virtist vera einhver skekkja á því og héldum við fyrst að gjörðin hefði skekkst. Björn Ingólfsson, reiðhjólaviðgerðamaður, sá litla sem enga skekkju. Höggin fóru vaxandi og föstudagskvöldið 4. júlí var haft samband við Kristin Hjaltalín sem kom til móts við okkur og kvað upp þann úrskurð að afturdekkið væri að byrja að rifna og tvisturinn að gægjast út. Var því ákveðið að skipta um dekk. Ekki tókst betur til en svo að annað dekkið sem við keyptum var gallað og var því framdekkið fært aftur en nýtt dekk sett undir að framan. Eftir að Kristinn hafði skipt um dekk fyrir okkur og við höfðum yfirfarið fatnað og annan ferðabúnað vorum við tilbúin til brottfarar.

 

Glæsisigling í góðum byr

Síðdegis sunnudaginn 6. júlí var skutbíllinn fermdur. Bob-vagninum var komið fyrir aftur í, hjólinu lyft upp með dyggri aðstoð nágranna og ráðist síðan til atlögu við farangurinn sem Elín bjó um af sinni alkunnu list. Héldum við síðan úr hlaði skömmu eftir kl. 9 morguninn eftir. Nokkur erindi þurftum við að reka áður en haldið var úr bænum og var því ekki komið að Dalsmynni fyrr en um hádegið. Þar var bíllinn skilinn eftir.

Á leið frá Dalsmynni, Hafursfell í baksýn.

Á leið frá Dalsmynni, Hafursfell í baksýn.

 

Hjólið var tekið ofan, Bobbinn tengdur, farangri hlaðið á hann og á hjólið og við bjuggumst hjálmum og griplum. Húsfreyjunni í Dalsmynni þótti við kuldalega klædd, í flíspeysum og þunnum vindjökkum, en vindur var norðaustanstæður og allhvass. Töldum við þennan búnað duga enda yrði um undanhald að ræða og veður sæmilega hlýtt.

Við héldum því næst úr hlaði. Vindurinn var okkur afar hagstæður og undanhald nokkurt í fyrstu og náði hjólið því brátt tæplega 40 km hraða. Síðan skiptust á aflíðandi hálsar og sléttlendi og hélst því hraðinn allmikill. Fram hjá Vegamótum fórum við um kl. 13:30 og héldum nokkru lengra þar til við komum að trjálundi nokkrum. Ákváðum við að nema þar staðar, hvíla skut og hendur og fá
okkur nestisbita. Elín notaði einnig tækifærið og tók nokkrar myndir, en við höfðum að vísu stansað tvisvar eða þrisvar á leiðinni til þess að taka myndir af ýmsu sem fyrir augu bar. Nutum við næðis í Lundi þessum um klukkustund. Sól skein í heiði og vindsins gætti ekki. Var þetta því eins og um alvörusumar væri að ræða. Þótt ótrúlegt var þarna slæðingur af krækiberjum sem höfðu fengið sinn rétta lit og voru góð á bragðið. Sýndist okkur sem þau væru þremur til fjórum vikum á undan í þroska.    

Áð í unaðsreit.

Áð í unaðsreit.

 

Síðan var haldið áfram áleiðis að Görðum, en við áttum pantaða gistingu í gistihúsinu Langholti sem þar er starfrækt. Komum við þangað upp úr kl. 15:30 og reyndist meðalhraðinn hafa verið um 20 km. Vorum við ánægð með það. Við þóttumst ekki hafa keppst við heldur hefðum við látið berast undan veðri og vindi. Landslag á þessum slóðum er fremur slétt og auðvelt að komast leiðar sinnar hjólríðandi. Því sem eftir lifði dagsins eyddum við niðri við sjó, nutum náttúrunnar og góðrar máltíðar um kvöldið. Gestgjafar sýndu okkur einstaka alúð og gestrisni. Veðrið hélst hið besta.

 

Hjólað að Arnarstapa og Hellnum

Þegar við vöknuðum morguninn eftir var úrhellisrigning. Það stytti þó upp um það leyti sem við gengum til morgunverðar. Veðurspáin var hins vegar óhagstæð dagana fram undan og ræddum við hjónin að nauðsynlegt yrði að endurskoða dagleiðir okkar.

Af stað var haldið um kl. 10:00 áleiðis vestur með suðurströnd Snæfellsness. Vegurinn var eins og daginn áður ágætur og skiptust á aflíðandi, mjúkir ásar og sléttlendi. Ferðin sóttist því vel enda var vindurinn hagstæður. Veður var lágskýjað. Var því útsýn takmörkuð.

Skammt frá Dagverðará áðum við. Ég rifjaði upp ævintýri mitt og félaga haustið 1972 þegar við spiluðum á balli vestur á Hellissandi. Þegar við héldum suður um nóttina var Fróðárheiði ófær og fórum við því fyrir Jökul. Við Dagverðará festum við bílinn í skafli og urðum að ýta honum í gegn. Kynntist ég þá fyrst því hvernig er að vera staddur úti í óbyggðum í íslensku fárviðri.

Klettar í fjöru á Hellnum

Klettar í fjöru á Hellnum

 

Nú var sveigt í áttina að Arnarstapa og Hellnum. Breyttist landslagið nokkuð. Á þessum slóðum er það e.t.v. meira mótað af jöklinum og eru því ásarnir nokkru hærri og brattari. En ferðin sóttist vel. Veðrið fór nú batnandi og gerði sumarblíðu með sólarglennum. Komum við að Arnarstapa upp úr kl. 12:30 og höfðum þá lagt að baki um 37 km. Við höfðum numið staðar nokkrum sinnum á leiðinni til þess að njóta útsýnis og kasta mæðinni.

Í þjónustumiðstöðinni að Arnarstapa heyrðum við langtímaspána. Var hún enn söm við sig. Daginn eftir átti hann að skella á með norðaustanstormi, allt að 18 - 23 m á sek og upp úr hádeginu átti að byrja að rigna. Var því ákveðið að stytta dagleiðirnar sem framundan voru enda átti norðaustanáttin að haldast næstu daga.    

Arnþór sækir frið og orku á Hellnum.

Arnþór sækir frið og orku á Hellnum.

 

Dvölin á Arnarstapa var stórkostleg. Við gengum niður að sjó og skoðuðum það sem fyrir augu og eyru bar. Náttúran er þarna stórbrotin og sérstök. Björgin iða af fugli og í eyrum hljómar garg kríunnar, væl ritunnar, söngur lóu og maríuerlu, kvak stelksins, tjaldurinn tístir og spóinn vellur hverjum þeim graut sem þiggja vill. Þarna eru ýmis skemmtileg örnefni eins og Músarholan, en hún er í raun gat á hellisþaki. Í botni holunnar ólgar og kraumar sjórinn. Neðan úr djúpunum heyrist í ritum og öðrum sjófugli sem þar hefst við. Eitthvað óhugnanlegt en hrífandi er við þetta fyrirbæri.    

Músarholan á Arnarstapa.

Músarholan á Arnarstapa.

 

Eftir að hafa notið náttúrunnar við Arnarstapa héldum við áleiðis að Hellnum. Þangað komum við um kl. 16:00 og stefndum að Brekkubæ, gistihúsi þeirra Guðrúnar og Guðlaugs Bergmanns. Það er náttúruvænt og allt lífrænt ræktað sem hægt er. Nutum við þar frábærrar þjónustu og gæða í mat og drykk auk alúðlegs viðmóts þeirra hjóna. Eins og góðra kokka er siður var Guðlaugur hinn ánægðasti með matseld sína og hvatti gesti óspart til að njóta þess sem á borð væri borið og hann hefði eldað.

Þennan dag höfðum við samband við þá sem við höfðum pantað gistingu hjá og breyttum dagleiðum okkar. Við höfðum ætlað til Grundarfjarðar daginn eftir en ákváðum að nema staðar í Ólafsvík og halda þaðan á fimmtudeginum til Grundarfjarðar. Þaðan skyldi síðan haldið föstudaginn 12. júlí til Stykkishólms og dvalist þar tvær nætur.

 

Rigning, rok og veikindi

Við vorum snemma á fótum um morguninn. Veðurspáin var vond. Spáð var versnandi veðri eftir því sem á daginn liði og vildum við ná til áfangastaðar áður en hann brysti á fyrir alvöru. Héldum við því úr hlaði skömmu fyrir kl. 9.

Landslagið var sem fyrr mótað af jöklinum, brattir hálsar og hæðir. Vegurinn var ómalbikaður og sums staðar allgrófur yfirferðar. Þar sem vindurinn var enn í bakið og á hlið skilaði okkur sæmilega áfram um hríð. Niður brekkurnar fórum við á þvílíkum hraða að stýrimaður sagði hásetanum að hægja á hjólinu með skálahemlunum sem er eina stjórntæki Ormsins bláa sem hásetinn hefur til umráða en hlítir þó ætíð forsögn stýrimanns. Niður eina brekkuna fórum við á 57 km hraða og ætlaði bókstaflega allt sundur að hristast. Þegar dró úr hallanum hugðumst við setja hjólið í efsta drif en þá stóð allt fast. Var því numið staðar og hugað að gírskiptingunni. Reyndist ókleift að koma hjólinu í drifið en sem betur fer virkuðu mið- og lægsta drifið enda veitti ekki af, því að brattar brekkur, vondur vegur og andviðri voru framundan. Í þessum sviptingum losnaði einnig um aurhlífina á Bobbinum og fór hann því skröltandi á eftir okkur.

Þegar við sveigðum norður með Snæfellsjökli fengum við storminn og regnið í fangið. Gerðum við ráð fyrir að vindhraðinn væri um 13 - 18 m á sek og dró hann verulega úr ferð okkar. Vegurinn versnaði því lengra sem leið enda stóðu yfir vegaframkvæmdir og vonandi verður lagt þarna bundið slitlag innan skamms. Hugsuðum við því gott til glóðarinnar vegna næstu ferðar okkar um þetta svæði.

Skammt frá Gufuskálum komum við á bundið slitlag. Vindinn herti heldur og það rigndi sleitulítið fram að því. Við ákváðum að nema staðar á Hellissandi og fá okkur súpu og brauð okkur til hressingar.

Á Hellissandi höfðum við um hálfrar annarrar stundar viðdvöl og ég skipti að nokkru um föt því að fatnaður minn var rennblautur.

Þegar við lögðum af stað með veðrið í fangið í áttina til Ólafsvíkur hafði stytt upp en skollinn var á norðaustanstormur. Sóttist ferðin því heldur hægt þessa 8 km sem eru á milli staðanna. Þrátt fyrir storminn gáfum við okkur þó tíma til þess að nema staðar undir Ólafsvíkurenni og verða vitni að því að vatnsflaumurinn bunaði niður bergið í mörgum smásytrum. Var það áheyrnar eins og fjöldi fólks væri í steypibaði.

Til Ólafsvíkur komum við um kl. 14:40. Við höfðum beðið fólk, sem einnig átti næturstað að Hellnum, að taka fyrir okkur ferðatöskuna af bobbanum en hún var rúmlega 20 kg þung og töldum við þurfa að létta henni af okkur vegna veðursins. Þetta góða fólk bar að garði á Hótelinu í Ólafsvík um svipað leyti og okkur.

Eftir að við höfðum bókað okkur inn á hótelið var haft upp á hárgreiðslukonu því að Elínu þótti bóndi sinn orðinn heldur úfinn. Réð konan bót á því og höfðu þær Elín orð á að nú væri þó hásetinn hárinu léttari.

Að því búnu var farið að skoða Pakkhúsið í Ólafsvík. Þar hefur verið komið fyrir skemmtilegum sýningum sem minna á sögu verslunar og búsetu á staðnum. Gefinn hefur verið út góður bæklingur með ágripi af verslunar- og atvinnusögu. Þar greinir m.a. frá Ólafsvíkursvaninum, skipi sem danska konungsverslunin lét smíða árið 1777. Skipið var 126 smálestir að stærð og sigldi millum Ólafsvíkur og Kaupmannahafnar í 116 ár eða þar til það strandaði við Ólafsvík árið 1893. Rifjuðum við hjónin upp að Svanurinn, sem Breiðfirðingar létu smíða árið 1916, systurskip Skaftfellings, hefði væntanlega verið heitinn eftir gamla Svaninum og einnig það að í lok 5. áratugarins hefði Skaftfellingur verið í áætlunarsiglingum til Breiðafjarðarhafna. Nagaði ég mig í handabökin fyrir að hafa ekki haft meðferðis bækling um Skaftfelling.

Um kvöldið kenndi Elín listarleysis og óþæginda. Er skemmst frá því að segja að nóttin varð okkur ónæðissöm enda þjáðist hún af slæmri magakveisu.

Daginn eftir var ákveðið að halda kyrru fyrir og sjá hverju fram yndi. Var því haft samband við gististaði í Grundarfirði og Stykkishólmi og komu okkar frestað. Sem betur fer fengum við áfram inni á hótelinu í Ólafsvík og héldum við þar að mestu kyrru fyrir um daginn. Þó brugðum við okkur að skoða Sjómannagarðinn og höfðum uppi á laghentum eiganda hjólbarðaverkstæðis, Aðalsteini Kristóferssyni, sem reyndist fús að gera við gíraskiptinguna á Orminum. Stillti hann gírana svo vel að     

Aðalsteinn viðgerðarmaður í Ólafsvík.

Aðalsteinn viðgerðarmaður í Ólafsvík.


þeir hafa ekki verið jafnvel stilltir frá því að hjólið kom hingað til lands. Þá hætti Bobb-vagninn að skrölta fyrir tilstuðlan hans.

 

Vindur í fangið og ferðarlok

Föstudagurinn 12. júlí rann upp, eins og segir í skáldsögunum. Veður var fremur bjart en hvöss norðaustanátt. Hitinn var einungis 6 - 7 stig og því heldur napurt. Við héldum sem leið lá út úr þorpinu til móts við norðaustanstorminn. Ferðin sóttist hægt. Þegar hraðamælirinn sýndi ekki nema 7 - 8 km hraða og upp brekkur var að sækja á móti veðrinu töldum við réttast að fara af baki og ganga. Elín kvartaði um máttleysi og var deginum ljósara að hún átti við afleiðingar lasleikans að stríða. Þannig þokuðumst við áfram framhjá hverjum sögustaðnum á fætur öðrum. Við rifjuðum upp reimleikana að Fróðá fyrir margt löngu þegar Þórgunna dó úr ókenndum sjúkdómi og heimamenn fluttu líkið suður í Skálaholt til greftrunar. Á einum bæ var þeim miður vel tekið og fengu lítinn beina. Skömmu síðar heyrðist hark úr búri og var þar Þórgunna komin, nakin, og sótti burðarmönnum sínum mat. Þorðu heimilismenn hvergi nær að koma en líkmenn Þórgunnu gerðu sér gott af kræsingum. Síðar veiktust heimilismenn margir af sótt sem dró þá til bana og varð eftir það reimleiki mikill að Fróðá.

Við ákváðum þrátt fyrir veðurhaminn að nema staðar uppi á Búlandshöfða og dreypa þar á piparmyntutei. Þar ætlaði bókstaflega allt um koll að keyra. Hjólið fauk á hliðina og allt hvolfdist úr annarri töskunni sem var á bögglaberanum. Við þurftum ekki að hafa fyrir því að súpa teið því að það fauk upp í okkur. Var það afar þægilegt að hafa svona sjálfvirkan uppíhellara. Eini ókosturinn var heldur mikill svali.    

Hann var býsna hvass á Búlandshöfða .

Hann var býsna hvass á Búlandshöfða

 

Sem betur fer hallaði nú undan fæti. Við stigum fyrst niður nokkrar smábrekkur en síðan varð hallinn meiri og við náðum næstum 50 km hraða á móti veðrinu. Elín stýrði af hreinustu list en lítið varð um samræður vegna hávaðans í vindinum.

Þegar komið var framhjá Kvíabryggju tók að gæta meira skjóls frá fjöllunum og við sóttum heldur undan vindi. Gekk því seinni hluti ferðarinnar greiðar. Í Grundarfjörð komum við upp úr kl. 12:30. Meðalhraðinn var einungis rúmir 12 km.

Þegar við höfðum komið farangri í hús og Orminum einnig ákváðum við að reyna sundlaug þeirra Grundfirðinga. Nutum við þar næðis drykklanga stund. Elín tók nú enn á ný að kenna lasleika og ágerðist hann eftir því sem á daginn leið.

Um kvöldið ákváðum við að aflýsa því sem eftir var ferðarinnar. Afpöntuðum við því gistingu í Stykkishólmi.

Laugardaginn 12. júlí var enn norðaustankaldi og spáð rigningu. Tókum við áætlunarbíl suður í Dalsmynni og sóttum bifreið okkar. Héldum við því næst sem leið lá norður í Grundarfjörð og heimtum hjól og farangur. Suður á Seltjarnarnes komum við um kl. 14:00.

Ekki mættum við neinum hjólreiðamönnum í þessari ferð fyrr en á laugardagsmorguninn að fjórir urðu á leið okkar. Oft rifjaðist upp fyrir okkur á meðan við börðumst gegn regni og roki frásögn finnsks hjólreiðamanns sem við hittum á Blönduósi þegar við hjóluðum til Akureyrar árið 1995. Hann sagðist hafa hjólað um landið í þrjár vikur og alltaf haft vindinn í fangið. Á Snæfellsnesi var svo hvasst, sagði hann, að sjórinn rauk og ætíð hafði hann vindinn í fangið. Þessi ágæti maður hafði hjólað um flest lönd Evrópu og var staddur hér á landi að halda upp á fimmtugs afmælið. Við fréttum síðar að hann hefði hringt til vinar síns sunnan úr Grindavík og boðið honum að heimsækja sig þar sem hann hélt upp á afmælið í litlu tjaldi einn síns liðs í suðaustan stormi og úrhellisrigningu. Síðar þetta ár fórst hann í járnbrautarslysi í Finnlandi.

Það er óneitanlega nokkur ögrun fyrir borgarbúa að takast á við íslenska náttúru með því að fara hjólandi um vegi landsins. Menn njóta mun betur þess sem á borð er borið að dagsverki loknu og finna til notalegrar þreytu.

Rétt er að hvetja þá sem hyggja á slíkar ferðir að ætla sér ekki of langar dagleiðir. Einnig verður að taka mið af veðri og vindum. Þótt flestir hjólreiðamenn eigi góða vindjakka og jafnvel vindheldar buxur er rétt að hver taki með sér hlýjan nærfatnað og góðar peysur. Íslenska hásumarið getur verið býsna kalt.

Rétt er að geta þess að hjólreiðar geta allflestir stundað jafnvel þótt þá hrjái gigt, sykursýki eða önnur óáran. Fólk þarf einungis að þekkja líkama sinn og gæta þess að misbjóða honum ekki.

© Arnþór Helgason
© ÍFHK 2005