soley_05.jpgÉg fór í margar ferðir með Fjallahjólaklúbbnum í sumar. Ég hjólaði með klúbbnum á Nesjavelli í vor. Það var mikil rigning fyrri daginn. Ég fór ekkert í trússbílinn og hjólaði með farangurinn minn báðar leiðir. Það fóru átta aðrir krakkar með.

Í Nesbúð eru heitir pottar og þar grilluðum við um kvöldið og gistum þar. Daginn eftir hjóluðum við heim. Á leiðinni heim þá hjólaði ég, pabbi og mamma á undan hópnum þegar við vorum komin yfir Hengilinn.

Ég fór líka í margar kvöldferðir á þriðjudögum. Tvær skemmtilegustu ferðirnar voru þegar við fórum út í Viðey, og þegar við fórum út á Álftanes, af því að þá voru nokkrir krakkar með í hópnum.

Ég fór líka í haustferðina í Húsafell. Við lögðum af stað á laugardagsmorgni og við fórum með Frey á Unimoginum í Húsafell og skoðuðum Barnafossa á leiðinni. Þegar við komum í Húsafell þá hjóluðum við í Strútshelli. Um kvöldið grilluðum við og svo gistum við í litlum húsum. Á sunnudeginum þá hjóluðum við yfir Kaldadal, það var gaman að hjóla, en það var kalt á milli jöklanna. Þar var rok og rigning. Svo lagaðist veðrið. Við fengum okkur hressingu hjá Slysavarnaskýlinu og ég hjólaði næstum því alla leið á Þingvöll. Og það var gaman í öllum ferðunum, og ég hlakka til að fara með í ferðirnar næsta sumar.    

Sóley Bjarnadóttir 10 ára.
Sigurvegari mætingarbikarsins 2004

nesjav05.jpg
Nesjavallahópurinn 2004

© ÍFHK
Hjólhesturinn 1. tbl 2005.