Úrsúla Jünemann Þegar ég flutti til Íslands frá Þýskalandi árið 1981 var hér á landi ekkert „góðæri“. Ég varð að taka hvaða láglaunastarf sem var í boði enda mállaus á íslensku. Maðurinn minn var að reyna að ljúka námi og vann íhlaupastörf eins og ég. Ég man eftir því þegar við fengum útborgað í fyrsta skipti og við vorum að velta fyrir okkur hvað við ættum að gera við afgangs peningana. Við tókum ákvörðun að kaupa okkur reiðhjól. Það voru gleðistundir þegar við gátum hjólað allra okkar ferðir í staðinn fyrir að ganga eða taka strætó, algjört frelsi.

En þegar við fluttum frá Reykjavík í Mosfellssveit urðu samgöngumálin erfiðari. Rútan fór á þeim tíma á tveggja tíma fresti og því mikilvægt að skipuleggja sig vel – eða hjóla í bæinn sem við kusum alltaf þegar veðrið var hagstætt. Úr Mosfellssveitinni lá á þeim tíma engin hjólreiðaleið til Reykjavíkur, brúin yfir Úlfarsána var ekki komin. Hins vegar gekk vel að hjóla Vesturlandsveginn – miklu betur en í dag. Þá voru engin hringtorg og ágætis malbikuð rönd við hliðina á akveginum. Þannig hjóluðum við í mörg ár, einnig með börnin tvö á barnasætunum aftan á hjólinu. Okkur þótti þetta ágætis ferðamáti og börnunum varð ekki meint af þessu. Auk þess vorum við í frekar góðu líkamlegu formi.

Það sem var skondið við þetta var að við vorum þekkt um allan Mosfellsbæinn. Við vorum „hjónin  sem áttu ekki bíl“. Eitt skipti ávarpaði mig litill strákur og spurði mig hvort það væri virkilega satt að ég ætti ekki bíl. Þegar ég játaði því sagði hann mjög alvörugefinn: „Pabbi minn er mjög ríkur, hann getur örugglega lánað þér fyrir bíl“. En þrátt fyrir þetta glæsilega tilboð kunnum við vel við að vera bíllaus og stákarnir okkar voru vanir að bjarga sér án bíls og gekk bara vel.

Við keyptum okkur ekki bíl fyrr en fyrir átta árum síðan. Auðvitað yngist maður ekki og ég sem var vön að stunda langhlaup og boltaíþróttir varð að hætta því öllu vegna slitgigtarinnar sem ágerðist. Þegar maður þarf að fara í liðskiptaaðgerðir og meðfylgjandi endurhæfingu er ógerlegt að vera bíllaus og við fengum okkur loksins bensínbelju. En núna þegar ég má ekki hlaupa og ekki stunda boltaíþróttir lengur er mér mikilvægara en nokkurn tíma áður að stíga á hjólið og fá líkamlega útrás. Ég finn mig ekki á líkamsræktarstöðvunum, þarf að komast út undir bert loft. Reiðhjólið hefur bjargað mér frá því að vera þunglynd vegna hreyfingarleysis. Enn þá get ég farið allra minna ferða hér innanbæjar á hjólinu og geri það allan ársins hring. Og ég er þakklát og nýt þess í botn!

Smellið á myndina til að sjá fleiri svipmyndir úr fjölskylduferðum

 Svipmyndir úr hjólaferðum

Birtist í Hjólhestinum, fréttabréfi ÍFHK, mars 2010