Fjallahjóla- og gönguferð í Borgarfjörðinn og ofan í Víðgelmi 9.-10. nóvember 1991
Ég keypti mér fjallahjól í sumarlok til að fara á því í skólann. Þannig sá ég fram á að komast fljótar og betur ferða minna en með strætó. Hjólið átti að hafa hagnýtt gildi fyrir mig. Og það dugði. Ekkert var fjær þönkum mínum en að hjóla hlaðin pinklum í snjó víðs fjarri mannabyggðum.
 

En þegar svo Íslenski fjallahjólaklúbburinn og Ferðafélag Íslands stóðu fyrir helgarferð númer 2 í haust var mig farið að langa til að leggja eitthvað annað undir dekkin mín en gráa Hringbrautina. Samt var ég efins um að nýgræðingurinn ég ætti nokkurt erindi með svona reyndum köppum. Ég hafði heyrt þá tala um smæstu skrúfur með nöfnum, hvað þá stórgripi eins og dekk og ljós. Ég átti ekki einu sinni almennilegar græjur þegar hjólinu sleppti, ekki hjólabuxur eða flísnærföt, góðar töskur á hjólið, teygjur á bögglaberann, ljós, ekki einu sinni léttan og ljúfan svefnpoka. Ákvað samt á síðustu stundu að ég tímdi ekki að sleppa tækifærinu að reyna mig í öðru umhverfi.

Hún var örugglega orðin átta þegar ég rúllaði inn á BSÍ laugardagsmorguninn 9. nóvember síðastliðinn. Ég vonaði líklegast að ég missti af rútunni. En rútan var ófarin og ég sneyptist inn, hálfskömmustuleg yfir útbúnaði mínum, álnarlöngum svefnpoka á bögglaberanum og dinglandi myndavélartösku á öxlinni.

Hópurinn í rútunni var ekki sérlega stór. Og við sem ætluðum að hjóla vorum aðeins 7. Þar af hafði einn, Magnús Bergsson, hjólað kvöldinu áður úr Reykjavík. Klukkan 8:20 lögðum við af stað í austurátt. Í Mosfellsbæ var ætlunin að staldra við nógu lengi til að taka tvær manneskjur með. En vegna vélarbilunar tognaði nokkuð á dvölinni og áður en yfir lauk var búið að senda nýja rútu til okkar. Þennan óvænta biðtíma notuðum við til að kynnast aðeins á meðan dagurinn ruddi sér til rúms.

Klukkan hálf ellefu var orðið allbjart og við á hraðri ferð út úr bænum. Við ókum sem leið lá norður í Brúarás þar sem við hittum Magga, nærðum okkur og dreifðum föggunum út um öll gólf áður en við fórum í leiðangurinn upp í Víðgelmi. Hann er rúmlega eins kílómetra langur hraunhellir sem lokaðist árið 1972. Í hellinum eru viðkvæmir dropasteinar sem gestirnir á árum áður höfðu brotið ótæpilega af ásamt því að fleygja frá sér alls kyns rusli. Við 7 (Berglind, Gísli, Helga, Jón, Kalli, Maggi og Þórður) vorum nokkru lengur á leiðinni en hin (á að giska 15-20) enda fóru þau langleiðina með rútunni i fylgd með fararstjóranum, Bolla Valgarðssyni. Leiðin frá Brúarási að Víðgelmi, 14 km, var heldur upp í móti og á köflum bara helvíti mikið puð, ekki síst þar sem við hjóluðum úr snjóleysi upp í snjó.

Magga sýndist stormur vera í aðsigi. En við vildum endilega hjóla og ferðin reyndist ganga snurðulítið þótt ekki væri beinlínis sumarblíða. Ég var svo lánsöm að mér var léð lambhúshetta á höfuðið og komst snarlega að þeirri niðurstöðu að gott höfuðfat væri ómissandi. Húfa og hjálmur, enda gera óhöppin ekki boð á undan sér. Helga varð fyrir því á leiðinni upp eftir að detta og hafði þá orð á því að einn hjálmur væri betri en enginn! Þá vorum við komin í svolítið snjóföl sem þýddi að okkur var hættara við að renna en áður. Gísli, langreyndur verkstæðismaður hjá GÁP, bölvaði sér lítillega fyrir að gleyma að skipta yfir í nagladekk. Þá fyrst sannfærðist ég um að svoleiðis nokkuð fyrirfyndist en fram að þessum degi hafði mér þótt hugmyndin um nagladekk á reiðhjól fremur kátleg.

Við Víðgelmi varð fyrst fyrir okkur stór hellismunni, eins konar anddyri, og klaki í gólfinu. Þar í gegn fórum við, skreiddumst niður þröngan gang með fulltingi kaðals, svo í gegnum hlið sem venjulega er læst og þá opnaðist okkur nýr geimur, kolbikasvartur, Enn hafði ég notið gæða samferðarfólksins því Gísli lánaði mér forláta ljós svo að ég gæti séð fótum mínum forráð. Þarna inni gætir vitaskuld ekki hinnar minnstu dagsskímu. Gólfið er óslétt og innar verða stórir hnullungar á vegi manns - lífshættulegt að sjá ekki vel í kringum sig! Þarna klöngruðumst við upp og niður, út og suður, tíndum upp 20 ára gamalt rusl sem hafði ekki látið á sjá í súrefnisleysinu, uns eftirlitsmaðurinn Ámi kom til móts við okkur og fræddi um hellinn.

0101-hellaferdw.png

Þegar við vorum komin til botns slökktum við öll ljósin og sungum upp undir Eiríksjökli. Stemningin sem skapaðist þarna í svartamyrkrinu var mjög sérstök og eftirminnileg. Eftir stutta tölu sem Árni hélt, myndatökur og allrahanda spekúlasjónir um þennan helli og hella almennt héldum við sömu leið til baka.
 
Úti var aðeins farið að skyggja. Og snjóa. Við hjólreiðamennirnir áðum stutta stund í anddyrinu áður en við fórum aftur á bak. Og gættum þess að sjálfsögðu að skilja ekki eftir okkur nein ummerki!
Veðrið var orðið miklu stilltara og óstjórnlega fallegt um að litast. Það vita allir sem hafa reynt að maður upplifir náttúruna og umhverfíð allt öðruvísi gangandi eða hjólandi en akandi. Leiðin lá niður í móti að þessu sinni og ástigið var mjög létt. Við dóluðum áfram í blíðviðrinu og ræddum málin. Þá gerðist það alveg fyrirvaralaust að Helga datt. Sem sagt -fallið gerði ekki boð á undan sér. En að athuguðu máli reyndist of mikið loft í dekkjunum. Og Helga lá aum og kveinandi á götunni meðan við hin ærsluðumst og gerðum góðlátlegt grín að henni, sannfærð um að þetta væri ekki neitt. Síðar kom svo í ljós að annar handleggurinn var brotinn. Hún beit á jaxlinn en treysti sér ekki til að hjóla svo að við röltum rólega áfram, öll nema Maggi sem rauk á ljóshraða þessa 6-8 km niður í Brúarás og sótti rútuna.

Eftir að við komum í náttstað fengum við okkur að borða og fórum svo nokkur í gufubað. Annars leið kvöldið bara við kjaftagang, kakódrykkju og spilamennsku. Gítarspil og söngur hefðu verið vel þegin en því var ekki til að dreifa. Því miður. En kannski næst?!

Um nóttina fór svo vel um okkur að allir sváfu mun lengur en til stóð. Við á hjólunum lögðum svo af stað undir hádegi og settum stefnuna á Kleppjárnsreyki til að byrja með. Þar er nefnilega sjoppa. Veðrið var gott og við fleygðumst áfram fyrir eigin vélarafli. Fannst mér.

Kleppjárnsreykjum náðum við klukkan 13:10 - en viti menn, sjoppan átti ekki að opna fyrr en 14:00. Nú voru góð ráð dýr, en á endanum náðu Magnús og Jón í eigandaun sem opnaði fyrir okkur. Þá var klukkan reyndar langt gengin tvö. Og þarna sátum við til hálf þrjú við alls konar næringarnám. Um leið og við vorum á förum renndi rútan í hlaðið. Á heimleið. Til að nota tímann sem best spændum við í burtu eins og lungu og lappir leyfðu, komumst nokkra kílómetra meðan göngufólkið verslaði. Svo hirti rútan okkur upp, öll nema Magga sem endilega vildi hjóla í bæinn aftur.
Niður á BSÍ komum við rétt fyrir átta og hittum þar fyrir fyrsta vetrarsnjóinn og hálkuna í Reykjavík að þessu sinni. Þá fékk ég nasaþefinn af því hvernig er að hjóla við þær aðstæður. Og hjólaði í skólann næsta dag. Svaraði stóreygð aðspurð um kulda í sveitinni: Ég svitnaði.

Nú eru spurningarnar bara tvær: Hvenær verður boðið upp á næstu hjólaferð? Og hvað verðum við þá mörg?

Berglind Steinsdóttir
Teikning Jón Örn Bergsson
Birtist fyrst í fyrsta Hjólhestinum vorið 1992