Samvinna hinna ýmsu ferðafélaga er alltaf af hinu góða, í hvaða mynd sem hún birtist. Þetta sannaðist þegar farin var fyrsta „alvöru"-ferðin hjá ÍFHK.
Hún var farin helgina 27.-29. september 1991 í samvinnu við FÍ, þeir voru með rútur & voru þar að auki að fara með göngufólk á sínum vegum inn í Landmannalaugar. Lagt var af stað að kvöldi föstudags kl. 20, ekið sem leið lá austur fyrir fjall og komið í Laugar um miðnætti, Hjólin voru tekin niður af toppnum, 13 að tölu (óhappatala kannski en happaferð engu að síður), farangur var settur inn og lagst til hvíldar því daginn eftir átti að hjóla inn í Eldgjá og fara upp að Ófærufossi.

Laugardagur rann upp, bjartur og fagur, og fólk fór að búa sig til brottferðar; át vel, smurði nesti og hjól ásamt því að taka til handargagns önnur hjálpartæki, s.s. kort, áttavita og myndavélar. Og svo var lagt af stað. Fljótlega teygðist úr þessum hópi, enda var þarna mætt fjallahjólafólk á öllum stigum hjólreiðafíknarinnar, allt frá byrjendum til krónískra hjólamaníufíkla.

Á þessum tíma árs er frekar lítið í ám, þannig að auðvelt var að vaða þær eða hjóla yfir á vöðum. Að vísu gengu bessar „yfirferðir" svona og svona enda fólk misjafnlega vant og útbúnaðurinn til fótanna eftir því. Einnig kom í ljós að lengdarmetrinn getur orðið ansi mislangur, sérstaklega ef leiðir eru valdar af korti og notaðar eru nokkurn-veginn-svona-sirka-hérna-næstum-því-kílómetramælingar. Í stuttu máli sagt varð leiðin lengri í raun og varð því að halda vel á spöðunum (hjólunum). Öll komumst við inn Eldgjána, sumir fóru upp að Ófærufossi en aðrir létu sér nægja að dást að honum úr fjarlægð. Þá var rifíð í sig nestið, því skolað niður og allt látið setjast (en þó varla það), áður en blásið var til brottferðar á ný. Settu menn þá upp hanskana, klöngruðust yfir urð og grjót að hjólfákunum sem biðu okkar, tilbúnir í slaginn. Við hentumst á bak (ekki aftur á bak) og hófum æðisgengna aftur-för heim í kofann í Laugum. Í kapphlaupi við tímann og myrkrið (þar sem upp komst að sumir voru ekki eins „upplýstir" og aðrir) stigum við fákana af svo miklum móð að þeir sem óreyndari voru, fóru að missa móðinn. En í svona ferðum hjálpast allir að og þegar myrkrið skall á fylgdum við, sem vorum með ljós, fast á eftir þeim sem ekkí voru eins bjartir.

Það voru þreyttar en ánægðar fjallahjólaspækjur sem komu í hús eftir stórgóða dagsferð. Eftir að menn höfðu innbyrt hina andlegu næringu sem hlaust af ferðinni, var komið að þeirri líkamlegu, og átu menn grimmt.

Eitt helsta aðdráttarafl Landmannalauga er - auðvitað - laugarnar og þangað skakklöppuðumst við og létum þreytuna líða úr skönkunum, spjölluðum saman, löptum öl og aðrar veigar og nutum kyrrðarinnar. En þegar líða tók á nóttina fóru menn að huga að híði sínu, því framundan voru bæði erfiðir hetjudraumar og heill sunnudagur.

Morgunninn byrjaði með miklum geispum, umli og andfýlu. Menn mölluðu sér misjafnlega margrétta máltíðir og mokuðu þeim í sig af miklum móð. Og þá skiptust leiðir. Á meðan flest allir nutu fegurðar Landamannalauga og höfðu það náðugt framan af degi, tóku sig til þrjár kempur, þeir Magnús Bergs, Karl Eiríksson og undirritaður Jón, og hjóluðu Landmannaleið niður á Hellu, um 103 km langa leið. Í fyrstu var veðrið fremur kalt og hráslagalegt, slydda og kaldi, sem fældi efalaust marga frá því að taka þessa ferð á hendur, en ekki leið á löngu bar til við vorum komnir á renniskeið með vindinn í bakið. Meðalhraðinn var um 28 km og komumst við þetta á mettíma, um 5 klst.

Færðin var náttúrlega misjöfn; sendið og seinfaríð í Landmannaleið, en hart og slétt sem nýlagt malbik frá afleggjaranum og að Árbæjarvegamótum. Sú leið var hið argasta þvottabretti alla leið að Hellu, og vorum við Kalli því fegnastir að komast af þessum líka bévaða kokteilhristara. En skutnum á Magga, eins sigggróinn og hann er, varð ekki meint af. Reyndar virtist Magga líða betur eftir því sem hamagangurinn varð magnaðrí... Á Hellu fengum við okkur úrvalið af sjoppufæði auk normaldagsskammts af hinum ýmsustu mjólkurvörum. Loks kom svo rútan með göngufólk FÍ og afganginn af okkar fólki, úthvílt eftir mengandi rútuferð. Ekki var með nokkru móti hægt að stöðva snúninginn á fótabúnaði Magnúsar, þannig að honum var lyft upp á hjólið að nýju og af stað fór hann (- ef einhver hefur séð hann nýlega er sá hinn sami beðinn um að hringja heim). Við hinir tveir snöruðum hjólunum á toppinn og sameinuðumst sælum hópi ferðalanga á leið í bæinn.

Hrísey, 28.-29. febrúar 1992 Jón Örn Bergsson

Birtist fyrst í fyrsta Hjólhestinum vorið 1992