Ég fann hvernig tárin hrukku af hvörmunum og vindurinn gnauðaði fyrir eyrunum á 45 km hraða niður af Herðubreiðarhálsinum. Sumri var tekið að halla og síðustu gönguhrólfarnir víðast hvar að renna út af hálendisbrúninni þetta árið. En hér var ég á fleygiferð á fjallahjóli ásamt þrjátíu 9. bekkingum úr Smáraskóla, í blábyrjun september 2009.

Aðdragandi þessarar ferðar var bæði stuttur og án málalenginga; Ferðafélag Íslands fékk mér það verkefni að vera fararstjóri í árlegri hjólaferð Smáraskóla og ég sló strax til. Mig vantaði ekki hjól en boðlegir varahlutir, allt frá smæstu hlutum, s.s. lími og bótum upp í varagaffal, voru víðs fjarri. Þessa hluti og fleira til tókst þó að útvega á skömmum tíma og af stað var haldið. Ekið var upp í Landmannahelli, hjólin tekin út úr rútunni og sett saman áður en brunað var austur í Landmannalaugar. Satt að segja hafði ég ekki dyttað að reiðhjóli í ein tvö ár en var nú skyndilega kominn á kaf í alls kyns reddingar með krökkunum - með nýja sexkantinn minn á lofti – og gekk að mér fannst vel. „Viðgerðirnar" voru ekki flóknar en þeim mun skemmtilegra að útskrifa hvert hjólið á fætur öðru. Nóg um það, upp á hestana var sest og hjólað af stað. Með í för voru einnig fjórir kennarar, allt útivistarunnendur og hjólafólk af guðs náð.

Leiðin milli Landmannahellis og Lauga er bráðskemmtileg og liggur fram hjá nokkrum fjallavötnum, Frostastaðavatni þeirra stærstu. Brekkuvalsinn upp á Dómadalshraunið tók hæfilega í og stöku spræna kætti og bleytti mannskapinn. Skemmtilegasti hluti leiðarinnar var á Frostastaðahálsinum á tiltölulega sléttum malarslóða sem var kærkomin hvíld frá holuglímunni fyrr um daginn. Ekkert var að veðrinu að undanskildum saklausum smáskúrum í norðangolunni.

Þegar í Laugar kom var ljóst að dagleiðin hafði verið í allra stysta lagi, enda er hress hópur enga stund að hendast 20 km. Klukkan var rétt gengin í fjögur þegar við komum í Laugar og það virtist ógnarlangt til kveldverðar. Ekki þýddi að hugsa frekar um það, við komum okkur fyrir í skála FÍ og eftir kaffihvíld og matarstúss, sem gleyptu tímann, var liðið á kvöld með hinu ómótstæðilega septemberrökkri sem á vart sinn líka þegar kveikt er á kertisstubbi í fjallaskála.

Sökum þægilegrar dagleiðar fyrsta daginn voru teljandi eymsli í sitjandanum ekki í frásögur færandi morguninn eftir. Því var óðara farið á bak og hjólin stigin áfram austur á bóginn, nánar tiltekið í Hólaskjól. Hér var um lengri og ögn strembnari dagleið að ræða en krakkarnir voru hinir seigustu að puða upp brekkurnar, að ógleymdum sprænunum mýmörgu á leiðinni. Fætur voru flestir rennblautir en allir í fantastuði fyrir næsta hjall eða brekku. Á stöku stað þótti mér vissara að stefna einum og einum niður í einu en yfirleitt rann hópurinn eins og hjörð grasbíta yfir fjallabakið uns komið var að Herðubreiðarhálsinum. Þar var farið að blása hressilega af norðvestri en við létum það sem um vind um eyru þjóta og lögðum nú niður af hálsinum í frábæru niðurrennsli.

 

 

Örlaði á skrámum og sveifarbilun

Fram að þessu hafði allt gengið stóráfallalaust hjá hjólum og fólki að undanskilinni einni sveifarbilun og sprungnu dekki. Þá hafði einn nemandinn dottið af hjólinu við Klapparagil og skrámað sig aðeins. Samkvæmt venju fylgdi rúta hópnum og í hana gátu þeir farið sem á þurftu að halda. En hópurinn rann niður af hálsinum og ruddi kílómetrunum inn á mælana og stuttu síðar var komið að Ströngukvísl. Hún reyndist ekki vera farartálmi enda brúuð öllum nema vélknúnum ökutækjum. Sumir nýttu sér ekki einu sinni þessa samgöngubót og hjóluðu í ána, í bókstaflegri merkingu. Þeir fáu kílómetrar sem eftir voru niður í Hólaskjól voru fljótfarnir á góðum veginum. Nú þandi hver sem þanið gat sinn brjóstkassa, setti undir sig hausinn og æddi áfram. Þeir fyrstu, ég þar á meðal, gleymdu sér ögn í hamaganginum og tókst ekki að stöðva sig tímanlega hjá heimreiðinni við Hólaskjól og þeyttust áfram. Sneru þó við - pínulítið skömmustulegir, einkum þó ég. Stórkostlegum hjóladegi var lokið og nú var ekkert að vanbúnaði að hefja matseld og halda inn í kvöldið með tilheyrandi skemmtilegheitum. Um það hafði samist í upphafi ferðar að ég lyki fylgdinni í Hólaskjóli en þriðja og síðasta daginn hjólaði hópurinn niður með Skaftánni að hringvegi, eina 40 km til viðbótar og hafði gaman af - þótt brekkurnar tækju í sem fyrr.

 

Klúbbkaffið og fyrsta Kompukvöldið

Þessi stórgóða hjólaleið, sem ég hjólaði í fyrsta skipti, er sjálfsagt ein af klassíkerunum meðal reyndari fjallahjólamanna og -kvenna og mér þykir líklegast að flestir í hópi þeirra virkari hafi farið hana oftsinnis. Hún blés hressilega í gamlar hjólaglæður hjá mér og þegar heim var komið beið ég ekki boðanna með að snúa mér að Fjallahjólaklúbbnum ef það mætti verða til að efla áhugann enn frekar og læra meira. Ég gekk í klúbbinn, fór á fyrsta Kompukvöldið mitt, kynntist hinu áhugaverðasta fólki og fékk gott kaffi. Stórgóð byrjun það.

Örlygur Steinn Sigurjónsson

Örlygur Steinn Sigurjónsson