Það var um verslunarmannahelgina 2008 sem undirrituð ásamt eiginmanni, 14 ára syni og fjögurra manna vinafjölskyldu okkar, fórum í ferðalag um Vestfirði og ákváðum að taka hjólin okkar með. Við höfðum hjólað talsvert mikið saman þetta sumar en nú var komið að því að nema ný hjólalönd og finna skemmtilega spotta á Vestfjörðum til að hjóla. Segir þó  fátt af hjólreiðum okkar fyrr en við komum í Dýrafjörð og komið var að annarri eða þriðju gistinótt í ferðinni en þá ákváðum við að tjalda í botni fjarðarins við Botnsá.

Fyrsti hjólatúrinn okkar var dásamlegur kvöldhjólatúr þar sem við hjóluðum  frá næturstaðnum um það bil 15 kílómetra leið út með firðinum sunnanverðum og inn að Þingeyri. Búið er að brúa Dýrafjörð um hálfa vegu frá botni og inn að Þingeyri og lá leið okkar í fyrstu um gamlan og grófan malarveg þar sem lítil sem engin bílaumferð er lengur en frá brúnni og að Þingeyri er hins vegar malbik. Í bakaleiðinni  hjóluðum við svo þetta sama malbik þangað til við komum að brúnni, hjóluðum svo á brúnni yfir fjörðinn og tókum malarveginn norðan megin fjarðar til baka. Samtals hafa þetta  verið í kringum 30 kílómetrar. Veðrið var eins og best getur gerst á Íslandi og gott ef ekki voru slegin einhver hitamet þennan dag eða þann næsta.  Að lokinni hjólferð voru hjólin svo skoluð í volgri Botnsánni og fólkið líka. Einn og einn Crocs-skór átt það til að losna af fótum okkar í ánni en iðulega tókst að hlaupa þá uppi áður en þeir enduðu úti í sjó.

 

Daginn eftir var komið að hápunkti ferðalagsins og óhætt að mæla með hjólaleiðinni sem þá var farin. Við völdum að hjóla veg sem af heimamönnum er gjarnan kallaður Kjaransbraut og  liggur frá Keldudal við Dýrafjörð, út fyrir Svalvoga, um Lokinhamradal og að Stapadal í Arnarfirði. Vegurinn er meistarastykki Elís Kjaran, ýtumanns á Þingeyri, og varla er nokkurs staðar jafn sérstakur eða hrikalegur vegur  á Íslandi. Áður en Elís Kjaran gerði veginn höfðu reyndir vegagerðarmenn lýst því yfir að slík vegagerð væri óhugsandi en Elís vann verkið með lítilli jarðýtu sem nefnd var teskeiðin og nagaði með henni utan í þrítugan hamarinn. Fyrst ruddi hann veginn milli Lokinhamradals og Dýrafjarðar og opnaði hann 1975 en tengingin við Arnarfjörð kom svo um 10 árum síðar og var þá kominn hringvegur um Vestfirsku Alpana sem fær er á sumrin öllum farartækjum með fjórhjóladrif. Vegurinn í heild sinni frá Sveinseyri og að Stapadal er um 24 kílómetra langur og hefur verið útnefndur sem eitt af sjö merkilegustu mannvirkjum á Vestfjörðum.

Hin síðari ár hefur vegurinn gengið undir  nafninu Vesturgatan en það nafn kom fyrst fram hjá Ólafi Erni hótelstjóra á Ísafirði seint á síðustu öld í tengslum við kynningu á leiðinni sem göngu- og hjólaleið. Nú er þar árlega haldin hlaupakeppni sem kallað er Vesturgötuhlaup eða bara Vesturgatan.

Áður en vegurinn kom til var Lokin­hamradalur einn afskekktasti dalur landsins en þar voru til skamms tíma einungis tveir bæir í byggð, Lokinhamrar og Hrafnabjörg. Áður fyrr voru þar þó fleiri bæir. Guðmundur Hagalín skáld fæddist og ólst upp á bænum Lokinhömrum. Hann hefur skrifað mikið um uppvaxtarár sín og frægustu skáldrit hans gerast einmitt í svipuðu umhverfi, s.s. hin fræga saga  um Kristrúnu í Hamravík. Fyrir aðdáendur skáldsins er það því eflaust mjög áhugavert að fara í bókmenntagöngu og pílagrímsför í Lokinhamradal á bernskuslóðir og mótunarstað Guðmundar Hagalíns. Það var þó ekki erindi okkar að þessu sinni. Við vorum þarna einungis til að njóta veðurs, hjólreiða og landslags og frá þeim sjónarhóli var ferðin ævintýri líkust, bæði fyrir börn og fullorðna. Við hjóluðum ekki alla 24 kílómetrana að Stapadal, heldur snerum við stuttu áður og hjóluðum til baka svo úr varð u.þ.b. 35-40 km hjólatúr.  Fyrir áhugasama má geta þess að einnig er skemmtilegt að fara að Stapadal og ganga svo eða hjóla vegarslóða sem liggur þvert yfir nesið og að Þingeyri aftur. Þá fer maður framhjá hæsta fjalli Vestfjarða, Kaldbak (998 m) og getur jafnvel gengið upp á það í leiðinni!

 

Eins og nærri má geta stoppuðum við oft á leiðinni til að njóta veðurs og útsýnis og taka myndir. Í einu slíku stoppi, líklega nálægt Sléttanesi lagði maðurinn minn frá sér uppáhaldssólgleraugun sín en gleymdi þeim svo þegar hann stóð upp og hjólaði af stað. Þrátt fyrir mikla leit fundust þau aldrei aftur og enn í dag vitum við ekki hvað af þeim varð. Líklegt er að vestfirskir álfar eða draugar hafi fengið þau að láni en hitt er jafnvel líklegra að gleraugun hafi öðlast sjálfstæðan vilja og ákveðið að verða eftir á þessum magnaða stað. Lái þeim það hver sem vill. Eitt er þó víst að í okkar huga mun þetta svæði framvegis ganga undir nafninu RayBan-skagi í höfuðið á sólgleraugunum sem enn er sárt saknað og ef þú lesandi góður átt einhvern tíma leið um RayBan-skaga og gengur fram á gleraugun ertu vinsamlega beðinn að setja þig í samband við Ómar Einars sem getur þá tekið gleði sína á ný.

 

 

Þegar við fórum framhjá Svalvogum á heimleiðinni virtum við fyrir okkur margra milljón ára gamlar steingerðar plöntuleifar, kolaðar blaðleifar og samanpressaða trjáboli  í berginu við veginn.  Daginn eftir hjólatúrinn birtist frétt á mbl.is um að veginum hefði verið lokað um tíma vegna grjóthruns. Fréttinni fylgdi mynd af u.þ.b. þriggja tonna grjóti á miðjum veginum og við prísuðum okkur að sjálfsögðu sæl fyrir að hafa sloppið undan því!  Þetta er ekki sagt til að draga kjarkinn úr fólki að hjóla þessa leið, einungis til að minna fólk á að vera ekkert að fikta í berginu þó að það sé vissulega spennandi, enda vitum við ekki nema þetta hafi allt verið okkur að kenna. Kannski er meira að segja nóg að standa lengi og horfa stíft!

Halla Magnúsdóttir