Sessý og Hildur ÍFHK skipulagði ferð frá Kaupmannahöfn til Berlínar sumarið 2008. Þessi leið var merkt árið 2000 þegar þessar borgir voru menningarborgir Evrópu. Skipuleggjendur voru Sesselja Traustadóttir og Kjartan Guðnason og voru þau einnig fararstjórar í ferðinni. Þegar Sesselja samstarfskona mín talaði um ferðina í vinnunni stóðst ég ekki mátið, gekk í klúbbinn og skráði mig í ferðina. Ekki var ég alveg viss um að ég gæti þetta í hópi íslenskra fjallahjólagarpa sem eiga flóknari hjólaferilskrá en ég.  Ég lét mig samt hafa það – ég kæmi þá bara síðust í næturstað og þættist hafa tafist við að skoða umhverfið á leiðinni.

Ég var nokkra daga í Kaupmannahöfn áður en ferðin hófst. Þar lenti ég í ógöngum með mitt fína fjallahjól. Það sprakk mörgum sinnum og ég hélt að ég væri svona mikill klaufi í viðgerðum og skipti því um slöngu. Það dugði ekki til svo ég var farin að kenna götunum í borginni um, þær hlytu að vera þaktar glerbrotum þótt ég sæi þau ekki.

Hópurinn hittist á farfuglaheimili í Ishöj og lagt var af stað 9. júní. Þegar mig bar að garði í morgunsárið voru þau með bros á vör þrátt fyrir vatnsleysi á heimilinu. Veðrið lék við okkur, sól og hiti. Ekki vorum við búin að hjóla lengi þegar sprakk hjá mér þrátt fyrir nýja slöngu um morguninn. En nú var Dr. Bike mættur og fann meinið um leið, ónýt fóðring í gjörð sem var löguð á staðnum. Ný slanga var sett í og nú var ég í góðum málum. Í næsta stoppi hringdi síminn og mér tilkynnt að fædd væri sonardóttir í Noregi og því ástæða til að gleðjast. Eftir þetta fékk ég viðurnefnið Hildur amma til aðgreiningar frá nöfnu minni Magnúsdóttur sem var með í för.

 

Sprungið dekk er ekkert mál

 

Við hjóluðum sem leið lá til Köge þar sem hópurinn fékk sér hádegishressingu á torginu í þessum fallega bæ. Við hjóluðum um Sigerslev Engemose en þar er fjölskrúðugt fuglalíf. Á þessari leið eru mjög fallegir kalksteinsklettar á ströndinni og útsýni eins og best verður á kosið. Ekki dettur manni í hug að í Danmörku séu slíkar strendur. Áfram hjóluðum við til Höjerup. Þar er sérstök kirkja sem hangir á barmi hyldýpisins við Stevns Klint. Þar nartar sjórinn í sjávarklettana og árið 1928 féll hluti kirkjukórsins í sjóinn. Nú er reynt að styrkja bygginguna þannig að hún standi af sér sjávarstrauma. Klettarnir þarna ná rúmlega 40 m hæð.

Þennan dag endaði ferðin í bændagistingu sem var öll til fyrirmyndar. (htt://damgaarden-stevns.dk/index.html).

Eftir morgunverðarveislu á Damgården lá leiðin til Rödvig, Fakse Ladeplads og Prestö. Þetta var hæðótti dagurinn svo það hjólaði hver á sínum hraða frá Prestö til Kalvehaven. Þar var slappað af og hópurinn sameinaður því einhverjir höfðu tekið löng myndastopp á leiðinni. Gist var í Damsholte og snæddum við þar um kvöldið. (http://www.nygammelsoe.dk/index.html).

Næsta dag var lagt tímanlega af stað því við þurftum að ná ferju seinni partinn. Mjög hvasst var þennan dag og mikil spenna í lofti þegar við nálguðumst Bogö því ferjan þar hafði strandað kvöldið áður. En – hún hafði náðst á flot og við hrósuðum happi því annars hefðum við þurft að taka á okkur langan krók. Við stigum á land í Stubeköbing og hjóluðum niður Falster í skúraleiðingum. Við áðum á tjaldstæði, þar var verslun og gátum við keypt í hádegismatinn og snætt hann inni á meðan úrhelli gekk yfir. Við náðum Ferju í Gedser og nutum ferðarinnar þar í 1,5 tíma eftir vindasaman dag.

 


 

Við komum til Rostoc um sjöleytið og var ótrúlegt að fylgjast með fararstjórunum rata beint að fínu hóteli í miðri stórborginni. (http://www.am-hopfenmarkt.de/).

Á torginu við hótelið var „jarðarberjahús“ og munaði ekki miklu að ungu piltarnir í hópnum fengju í magann því þeir keyptu margar jarðarberjaöskjur hjá ungum blómarósum – um leið og þeir æfðu sig í þýsku. Þeir höfðu ekki eins mikla lyst næsta dag þegar bústin amma var mætt til að selja góðgætið.

Við yfirgáfum Rostoc og hjóluðum til Buskov. Þetta er falleg leið og þægileg og eins og oft áður sluppum við inn á veitingastað til að fá okkur hádegissnarl á meðan hellirigndi. Áfram var hjólað í þessu fallega umhverfi og komum við til Krakow am Zee um áttaleytið. Hótelið sem við gistum á þarna er einstaklega fallegt, svalir á öllum hæðum á framhlið hússins og blómstrandi sumarblóm á svalarhandriðum. Þarna er þýskt skipulag á öllum hlutum. Við borðuðum á staðnum um kvöldið – og okkur var skilmerkilega raðað til borðs. Ekki að skilja eftir autt sæti á milli manna – og sama var gert í morgunmatnum. Í kjallaranum var geymsla með hillum frá lofti niður á gólf, allar fullar af tómum, vel þvegnum krukkum tilbúnum fyrir sultu haustsins. Enginn fékk að fara fyrr en allir höfðu borgað og skila lyklum! En þær voru ánægðar, bústýrurnar, þegar þær sáu að fáir misindismenn voru í hópnum.

http://www.krakow-am-see.de/hotel-seepromenade/index.htm

 


 

Næsta dag var farið seint af stað því þetta var stysti dagur ferðarinnar en leiðin lá til Waren. Þetta er mjög auðveld leið um fallega stíga. Við skoðuðum veiðihús Erics Honecker sem er rekinn sem hótel og veitingastaður. Á meðan við vorum þar gerði haglél. Við fengum inni í bátahúsinu, sem tilheyrir staðnum, en þar er veitingahús sem hefur ekki eins margar stjörnur og sjálft veiðihúsið. Eftir að hafa borðað nesti og keypt gott kaffi og eftirrétti létti til og við lukum ferðinni í Waren. Gistiheimilið er niður við höfn, nánast á miðjum hjólastígnum og gott framboð af veitingahúsum í næsta nágrenni. http://www.pension-mueritzhafne.de/

Gegnt gistiheimilinu var hjólabúð og þar byrjaði ferðin þennan dag, aldrei að vita nema eitthvað vanti til hjólreiða. Leiðin var stytt til muna og því nægur tími til að hafa stoppin löng. Í Wesenberg skoðuðum við t.d. gamla kirkju og 800 ára gamalt tré í kirkjugarðinum en ummál trésins var 8 m. Við reyndum að hrista aðalfararstjórana, Sessý og Kjartan, af okkur en það tókst ekki, þau höfðu upp á okkur! Við komum snemma til Wurstow, gistum  á fínu hóteli úti í skógi og var boðið upp á villibráðahlaðborð um kvöldið. Aðeins ein kona var gestkomandi á hótelinu auk okkar og sat hún með okkur til borðs. Hún mælti ekki orð af vörum allt kvöldið en brosti blítt þegar hún fór. http://www.hotel-johannesruh.m-vp.de/

Þennan dag lá leiðin frá Johannesruh. Við styttum okkur aðeins leið og stoppuðum í Fürstenberg. Þar var borðað í fallegum garði í hádeginu. Þá fór að rigna svo við smeygðum okkur á veitingastað til að fá okkur kaffi. Það rigndi af og til alla leiðina svo við drifum okkur til Zehdenik. Þar var gist á http://www.pension-amstadpark.de/index.html. Fallegt gistiheimili og hressir gestgjafar sem elduðu fyrir okkur um kvöldið – og við einu gestirnir.

 


 

Þetta var lokadagur hinnar eiginlegu hjólaferðar þar sem stefnan var sett á Berlín. Hjólað var eftir fallegum stígum en á leiðinni fengum við þá mestu rigningu sem við höfum upplifað. Ekki tókst að bíða hana af sér svo við klæddum okkur í regnfötin og lögðum af stað. En auðvitað þurfti fljótt að hafa fatastopp því það stytti upp og kom þetta fína veður. Við drifum okkur áfram og var stefnan sett á Brandenborgarhliðið. Þar vorum við mynduð í bak og fyrir. Um kvöldið var skálað í kampavíni eftir vel heppnaða ferð.

Allir höfðu afrekað eitthvað í þessari ferð og voru því sæmdir afreksorðu ÍFHK. Kjartan og Sessý fengu hátíðarútgáfu með slaufu, aðrir hátíðarútgáfu án slaufu!

 

Kjartan og Sessý fengu hátíðarútgáfu afreksorðu ÍFHK.

 

 

Ekki létum við staðar numið við komuna til Berlínar. Næsta dag hjóluðum við til Postdam. Úr varð 70 km hjólatúr og rétt náðum við að hafa fataskipti til að fara hjólandi í boð til sendiherrahjónanna í Berlín. Þau Ólafur Davíðsson og Helga Einarsdóttir tóku á móti Íslendingum í borginni þennan dag sem var 17. júní og gerðu það með glæsibrag á fallegu heimili sínu.

 


 

Einhverjir þurftu að fara heim þetta kvöld, aðrir stoppuðu lengur. Gott er að hjóla í Berlín og fórum við nokkur í skoðunarferð á hjólum með fyrirtæki sem heitir Fat Tire. Sú ferð tekur fjóra til fimm tíma og vel þess virði að slást í hóp með þeim. Þarna er sagan á hverju götuhorni og endalaust hægt að skoða. Þá er gott að vera á hjóli til að flýta för.

Þessi Kaupmannahafnar-Berlínar-ferð var til fyrirmyndar. Hún var vel skipulögð, gististaðir góðir og dagleiðir allar viðráðanlegar, jafnvel fyrir ömmur. Annar og þriðji dagur voru erfiðari en aðrir vegna hvassviðris og rigningar.  Mér reiknast til að ég hafi hjólað rúmlega 760 km og eru þá taldir með dagarnir í Berlín.

Eftir þessa ferð þóttist ég vera komin í góða þjálfun og ákvað því í kjölfarið að hjóla Kjöl. Ég fór í samfloti með hestamönnum og fór því sömu dagleiðir og þeir. Þetta var versti tími sem hægt var að velja, mánaðamótin júní/júlí, því hávaðarok var af norðri allan tímann. Ég hjólaði því upp í vindinn og þurfti stundum að stíga af baki þegar versta sandrokið gekk yfir. Ekki er vegurinn heldur ákjósanlegur hjólastígur, hann er a.m.k. í grófari kantinum.

Ég hjólaði frá Kjóastöðum við Geysi í Fremstaver, þaðan í Árbúðir, Svartárbotna, Hveravelli, Buga og lokaáfanginn var úr Bugum, niður Mælifellsdalinn og að Vindheimum í Skagafirði þar sem mitt Skjól er. Þetta voru ekki nema rúmlega 200 km en talsvert erfiðari en þeir dönsk/þýsku. Hins vegar uppskar ég mikið hól á leiðinni og var mynduð í bak og fyrir af heilu rútuförmunum af fólki. Og fyrir hvað? Jú – fyrir að vera á hjóli í þessu veðri, fyrir að vera ein á ferð og líka fyrir að vera íslensk!

Birtist fyrst í Hjólhestinum mars 2009