Horace Dall - Fyrsta hjólaferðin yfir Sprengisand 1933 Árið 1933 fór Horace Edward Stafford Dall fyrstur allra yfir auðnir Sprengisands á farartæki með hjólum. Farartækið var Raleigh þriggja gíra reiðhjól með lokaðri keðjuhlíf. Það var mánuði seinna sem fyrst var farið yfir sprengisand á mótordrifnu farartæki. Ben Searle segir söguna.

Spengisandur er hin næstum slóðalausa eldfjalla og jökla auðn í miðju Íslands og líklega óvistlegasti hluti Evrópu. Maðurinn sem laðaðist að þessum áskorunum hét Horace Dall og var hugrakkur hjólaferðalangur. Hann fór einnig fyrstur yfir Atlas fjöllin á fjórða áratug síðustu aldar þar sem hann var handtekinn og sakaður um njósnir. Honum var á endanum bjargað af frönsku útlendingaherdeildinni. Enginn gat trúað því að hann hefði verið að í sumarleyfisferð í yfir 48 stiga hita. Hann ferðaðist einnig um Lappland, gisti í tjöldum Samískra heimamanna. Dall var einstaklega hæfileikaríkur og úrræðagóður á ýmsum sviðum. Hann fæddist í Chelmsford árið 1901 og var framúrskarandi sjóntækjafræðingur og framúrskarandi og hugmyndaríkur uppfinningamaður vísinda tóla. Hann lést 1986.

Sögu þessarar merku hjólaferðar skrifaði hann aftan á ljósmyndir sem hann tók í ferðinni.

 

Horace Dall á öðrum degi ferðarinnar yfir Sprengisand

 

Á öðrum degi ferðarinnar yfir Sprengisand

Það var í erfiðri ferð um vesturhluta Íslands árið 1932 sem Dall fékk áhuga á að fara þvert yfir hinn ógnvænlega Sprengisand. Hann átti von á að ferðin yrði svipuð ferð sinni árið áður eftir vegum og slóðum og var því ekki vel útbúinn. Hann var aðeins með 800 grömm af þrúgusykri og þurrkuðu kjöti ásamt prímus og svefnpoka en var ekki með tjald.

 

Döggin þurrkuð af svefnpokanum

Döggin þurrkuð af svefnpokanum

Hann átti von á einhverskonar slóða en þurfti að láta nægja að fylgja vörðum og áttavita ásamt lélegu 1;1000,000 korti sem sýndi lítið annað en flæði sumra af áunum óárennilegu.

Ekki aftur snúið

Dall fékk aðstoð yfir fyrstu stóru ána, sem skyldi á milli byggða og óbyggða: "Stóra stundin er runnin upp! Íslendingarnir réru til baka að trukkinum eftir að hafa komið mér og hjólinu norður yfir Túngná eins og um var samið. Túngná er djúp og straumþung og ég veifaði þeim með blendnum tilfinningum meðan ég áttaði mig á slóðalausri auðninni framundan. Þeir voru síðustu mannverurnar sem ég sá þar til ég kom að býlinu Mýri fyrri norðan." Hann var ekki fyrr lagður af stað í norður frá ánni en á skall regnstormur.

Hann þurfti að fara um hátt í hæðunum til að forðast mýrlendi, var oft í þoku og þurfti að athuga áttavitann reglulega.

"Fyrsta daginn kynntist ég hrjúfum aðstæðunum, grót, gilskorningar, sandur og mýrar og ég sá fljótt að vonir mínar um að geta hjólað um 30 prósent leiðarinnar myndu ekki rætast."

Dall var augljóslega orðinn áhyggjufullur að kvöldi annars dags: "Þetta er aðeins eitt af fjölmörgum gljúfrum leiðarinnar sem áttavitinn hefur vísað mér. Ég þurfti að taka 5 mílna krók áður en mér tókst að komast bæði yfir gljúfrið og ánna - barmarnir voru 500 feta háir. Það var athyglisvert að geta sér til um hvaða hindranir yrðu á leiðinni næst."

"Það var spennandi stund þegar ég rakst á slóð eftir hesta. Seinna, eftir að ég hafði fylgt þeim gegnum mýrlendi og ár og sá að leiðin lá þvert á leiðina sem áttavitinn vísaði, ákvað ég að þetta væri eftir  ótemjur og hætti eltingaleiknum. En ekki fyrr en ég hafði eytt dýrmætum tíma."

 

Slóð eftir hesta
Slóð eftir hesta
Fljótið hélt mér föngnum

"Skjálfandafljót hélt mér föngnum í meir en heilan dag - mestann tímann milli bjarganna og fljótsins. Ég tók engar myndir á verstu köflunum, verkefnið var nógu erfitt. Jörðin hafði svipaðan þéttleika og hveiti og var mjög erfið yfirferðar."

"Fimmti dagurinn í óbyggðunum. Þvílík gleði! Slapp frá Skjálfandafljóti með því að fara upp afdal sem gerði mér kleift að komast yfir það. Hér er hjólið 800 fet yfir fljótinu með óskaplega miklu magni vatns frá Vatnajökli, þeim stærsta í Evrópu."

 

Skjálfandafljót hélt mér föngnum í meir en heilan dag

Skjálfandafljót hélt mér föngnum í meir en heilan dag

Dall kom á endanum að syðsta býli norðurlands: "Sveitabýlið Mýri og hrífandi grænt beitiland. Siðmenning! Mér tóks að senda símskeyti með aðstoð Breska aðstoðarkonsúlsins til bóndans sem ferjaði mig yfir Túngná og láta hann þar með vita að ég væri kominn heill á leiðarenda eins og ég hafði lofað honum til að létta áhyggjum hans."

 

Siðmenning framundan!

 

Siðmenning framundan!

Það var aðeins fyrir hreysti hans, kjark og einstaka heppni með veður að Dall komst á leiðarenda. Þótt ótrúlegt megi virðast var hann ekki búinn með matarbyrgðirnar og náði að hjóla um 5- 10% leiðarinnar. Það mætti halda því fram að ferð Dall hafi verið meira göngu en hjólaferð. En það sama á við um ferð fyrstu bifreiðarinnar því megnið af leiðinni þurfi ökumaður og farþegar að ganga með bílnum þegar ekki þurfti að ýta honum áfram. Hún var líka ferjuð yfir Tungná í sama árabátnum.

Ég heimsótti Mýri 1996

Bóndinn Héðinn Höskuldsson, sem var níu ára þegar Dall bar að garði mundi vel eftir honum; "Hann kom úr óbyggðunum vel klæddur, í bónuðum skóm og með bindi - eins og hann væri á leið í atvinnu­viðtal í Reykjavík. Hann virtist ekki einu sinni þreyttur! Það var talað um hann í sveitinni í mörg ár."

Bóndinn Héðinn Höskuldsson, Mýri, 1996 Ben Searle

Bóndinn Héðinn Höskuldsson, Mýri, 1996 og Ben Searle

 

Hópur frá The British Rough Stuff Fellowship fær heiðurinn af fyrstu ferðinni milli stranda eftir þessari leið á eigin afli  þar sem Dall var farþegi yfir Tungnaá. Ferð sem var farinn 1958 og Dick Phillips skipulagði, en hann skipuleggur enn göngu og hjólaferðir um Ísland. Þó að þá væri slóði nægilega vel mótaður til að hægt væri að hjóla 75% leiðarinnar var með í farangrinum uppblásinn gúmmíbátur og hálfrar mílu langur kaðall til að þvera árnar.

Sprengisandur í dag

Ferð yfir Sprengisand í dag á fátt skylt með ferðum Dall eða Philips og undanfarin ár hefur aðdráttaraflið aukist verulega. Árlega taka yfir 100 hjólaferðalangar áskoruninni. Þeir þurfa að taka með sér vistir fyrir 300 km leið (220 km milli byggðra bóla), og þvera hálendið þann stutta tíma sem það er opið frá seinni hluta júlímánaðar og fram í september. Nú eru aðeins óbrúaðar tvær greinar úr Fjórðungakvísl af stóru fljótunum. Þar þarf að sýna aðgæslu en þær eru ekki hættulegar undir venjulegum kringumstæðum. Uppskera erfiðisins er útsýn yfir risavaxna jökla, fjarlæga fjallstinda og eldfjöll ásamt stórkoslegri tilfinningu einveru, einsemd og dýrð villtrar náttúrunnar.

Ben Searle
Ben Searle

 Hjólreiðamenn ættu að ætla að minnsta kosti fimm daga í þessa ferð en það er æskilegt að taka byrgðir fyrir tvöfalt lengri tíma því veðrið er óútreiknanlegt og hætta á hvassviðri og snjókomu alla mánuði ársins. 125 km. leiðarinnar liggur í yfir 900 metra hæð yfir sjávarmáli, hún er ekki með bundnu slitlagi og er að mestu úr þjöppuðum eldfjallasandi. Leiðin er næstum öll fær fjallahjólum. Skálinn í Nýjadal sem er um miðbik leiðarinnar og kaffihúsið og gistiheimilið Versalir við syðri enda leiðarinnar eru eina aðstaðan á leiðinni.

Páll Guðjónsson þýddi.

Birtist í Hjólhestinum mars 2009 Skoðið myndir með grein hér

Skoðið upphaflegu greinina HÉR á vef Ben Searle www.bensearle.info þar sem má sjá fjölda mynda frá ferðum hans um Ísland og víðar.