Hér má sjá hvernig framkvæmdum miðar í nýja klúbbhúsinu okkar

8. apríl. Skipulagning.
Húsið er hrátt og skemmtilegt í laginu, bíður upp á marga möguleika og áður en hægt var að hefjast handa þurfti að ákveða hvernig við vildum hafa þetta.  Það voru margar góðar hugmyndir viðraðar.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

17. apríl. Skipulagning.

 

 

Hér eru menn enn að spekúlera. Þó er búið að hreinsa út  drasl og leggja grunn að framhaldinu.

22. apríl.  Komið skipulag og allt farið af stað.

 

 

 

 

 

 

Búið að mála, uppi er verið að slétta gólfið, Pétur er að rífa niður gömlu raflögnina og Alda var alveg óstöðvandi. Hún toppaði síðan allt þegar hún dró fram kökur og veitingar sem hún hafði útbúið kvöldið áður.

1. maí. Hér hafa menn verið duglegir. Það eru komnar dyr, búið að festa niður bílskúrshurðina, leggja pípulögnina að salerninu og Gísli smiður var á fullu að slá upp fyrir salerninu.

 

 

 

 

 

 

 

9. maí. Búið að slá upp fyrir salerninu og Pétur og Alda eru á fullu að leggja rafmagnið þangað.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Halldór pípari er þarna að hræra steypuna, krakkarnir fylgdust með og Maggi Bergs kíkti inn eins og ég.

13. maí:

 

 

 

 

 

Það var fimmtudagur með opnu húsi. Þar sem fólk er mest spennt fyrir nýja húsinu var enginn niðri á Austurbugt. Á Brekkustíg var byrjað á því að sópa gólf og þrífa aðeins. Klósettið er komið á sinn stað loksins þó sumir virðist ekki alveg vita hvernig það er notað.

3. júní: Nýja klúbbhúsið vígt með grillveislu.

 

 

Ekki var það nú svo gott að húsið væri alveg tilbúið og búið að flytja allt.  Gísli smiður var hinsvegar búinn að smíða stigann upp og eftir mat var hann settur upp og sett upp handrið.

 

 

Flassið frá myndavélinni lýsir upp endurskinið á hjólafatnaðinum.  Takið eftir hvíta og rauða jakkanum, hvíti flöturinn er dökk grár í venjulegu ljósi með lítt áberandi endurskinsmynstri í efninu.  Þetta er nýtt í hjólafatnaði og virkar ágætlega eins og sjá má, þó það komi ekki í staðinn fyrir endurskinsborðana.  Jói er í samskonar jakka og með hvítan hjálm á mynd hér fyrir neðani.

 

 

Frá og með þessum fundi er opna húsið okkar á fimmtudögum flutt á Brekkustíg 2.  Á næstunni flytjum við sófasettið, bókasafnið, viðgerðaraðstöðuna og aðrar eigur úr gamla húsinu og gerum þetta notalegt.  Þetta verður svolítið hrátt fyrst en við stefnum að því að tvöfalda efri hæðina með millilofti í sumar eða haust.  Áður en gengið verður í það þarf að teikna þetta formlega upp, gera burðarþols útreikninga og fá þetta allt samþykkt á réttum stöðum, sem er viðbúið að taki sinn tíma.

 

 

 

10 Júní. Það var ákveðið að laga gólfið á efri hæðinni betur áður en flutt væri og því var kvöldið notað til að steypa það.

 

 

 

 

 

 

Það var mikill kraftur í sjálfboðaliðunum okkar eins og áður. Það er allt í drasli enn á neðri hæðinni en þegar búið verður að ganga frá gólfinu upp verður hægt að flytja dótið upp og koma skipulagi á hlutina.  Þeir sem þurftu að græja hjólin sín létu þetta ekki trufla sig heldur settu upp viðgerðarstanda fyrir utan og unnu í hjólhestunum sínum.

 

 

Munið svo að allir eru velkomnir í opna húsið okkar á fimmtudagskvöldum.  Takið með ykkur vini og kunningja og bendið fólki á okkur.  Þeir sem vilja nálgast auka kynningar og dagskrárbæklinga eða veggspjöld geta fengið slíkt þar og kannski hengt upp á vinnustað og þannig hjálpað til við að kynna klúbbinn og þennan vef.  Við erum líka búin að útbúa litla límmiða með merki klúbbsins sem meðlimum er velkomið að nota til að setja á hjólin sín, hjálma eða slíkt. Þeir eru fáanlegir í 5 litum.

 

©ÍFHK 1999

Myndir og texti Páll Guðjónsson