Við feðgar (4 og 45 ára) áttum, þegar landið var kóflaust, laugardaginn 13. júní 2020, erindi í fermingarveizlu norður í Húnavatnssýslur. Þar sem hálendið hafði ekki opnað og veðurspár voru samdóma um að veður yrði skást á landinu norðaustanverðu, ákváðum við að nýta ferðina og taka með okkur reiðhjól og vagn. Fengum við far með systur minni til veizlu en far frá veizlu til Akureyrar með móðurbróður mínum, sem einnig sótti ferminguna; gistum hjá honum aðfaranótt sunnudags.

Á sunnudagsmorguninum vistuðum við okkur upp til nokkurra daga í Bónus við Miðhúsabraut og renndum okkar síðan niður brekkurnar í átt að flugvellinum. Hugmyndin var að sneiða sem mest framhjá hringveginum og ætluðum við því að fara gömlu brýrnar yfir Vaðlana og þaðan beint upp í brekkurnar í norðurátt. Kom nú í ljós að Akureyrarflugvöllur hafði nýlega verið lengdur til suðurs og við það hafði verið lokað fyrir umferð að vestustu brúnni. Hins vegar var ný brú í smíðum, að mestu tilbúinn, en þó voru tengingar við hana ófrágengnar. Ákváðum við feðgar að láta þetta ekki stöðva okkur, tókst að drösla búnaði upp á og af brú, og halda síðan áfram austur yfir Vaðlana. Beygðum síðan örstutt til suðurs inn Eyjafjarðarveginn austanverðan en síðan strax aftur til vinstri upp og norður hlíðina að Leifsstöðum, lækkuðum okkur síðan ögn niður áður en beygt var til hægri og norður veg 828 í átt að Varðgjá og honum síðan fylgt alla leið niður á hringveg, og honum fylgt í rúma 200 metra að hringtorginu við Vaðlaheiðargöngin. Héldum við síðan „gamla“ hringveginn norður í átt að Víkurskarði.

Brúin yfir Vaðlana

Brúin yfir Vaðlana

Umferð var lítil, bæði vegna skorts á erlendum ferðamönnum sem og vegna þess að flestir Íslendingarnir fara nýju göngin. Þessi leið er almennt frekar leiðinleg til aksturs í mikilli umferð, mikið um blindhæðir, sem gerir t.d. framúrakstur erfiðan. Nú höfðum við þennan vegarkafla að mestu fyrir okkur sjálfa á hjólinu og þokkalega sunnanátt í bakið. Eftir um 6 km beygðum við til suðurs niður að Mógili og héldum þaðan sveitarveg niður að Svalbarðseyri, en þangað rak mig ekki minni til að hafa komið áður, þrátt fyrir að hafa keyrt alloft framhjá. Eftir að hafa skoðað okkur ögn um í þorpinu snæddum við nesti við Svalbarðseyrarkirkju, og héldum síðan aftur upp á hringveg, einum km norðar en þar sem við höfðum yfirgefið hann. Við höfðum hugleitt að fara um Helgafell og Dálksstaði og sleppa við annan kílómetra, en vissum ekki hvað yrði af girðingum og skurðum á leiðinni þar á milli. Héldum við nú enn norður og beygðum síðan, af hringvegi, til vinstri í átt að Grenivík. Stoppuðum næst við Laufás. Eggert ákvað reyndar að leggja sig á meðan ég skoðaði torfbæina og safnið, en síðan fengum við okkur nesti í sólinni áður en haldið var lengra norður á bóginn. Hjóluðum yfir Fnjóská og beygðum síðan til vinstri í átt að Höfða eftir um 6 km. Við bæinn Hlíð lentum við í fjárrekstri og tókum að okkur fyrirstöðu við veginn, en þegar allt fé var komið heim á bæ, fengum við leiðbeiningar um hvar væri að finna vegarslóða sem lægi vestur fyrir Þengilshöfðann. Vorum þó varaðir við að hann kynni að vera drullugur eða mjúkur á köflum. Hjóluðum nú upp í hlíðar höfðans, klifum lítinn hól, þar sem hreyfiþörf okkar feðga hafði verið mismikið sinnt. Kom nú að mér að leggja mig í sól og skjóli á meðan Eggert kannaði landið. Eftir ögn dott héldum við áfram veginn og var farið að kvölda þegar við renndum okkur niður í Grenivík. Spurðum til vegar að tjaldstæði hvar við tjölduðum og fórum síðan í háttinn eftir að hafa gert leiksvæði nokkur skil.

Drómað í Dalsmynni

Drómað í Dalsmynni

Um nóttina og fram eftir degi rigndi á okkur. Enginn matsölustaður var á Grenivík, en lítil verslun þar sem við bættum einhverri ögn við af mat. Yfirgáfum við því ekki Grenivík fyrr en klukkan var farin að ganga fimm. Héldum þjóðveg niður að Fnjóská og síðan inn Dalsmynnið. Var sunnanátt og því heldur þyngra en daginn áður. Snæddum nesti og köstuðum steinum í Fnjóská, en við Sólvang fórum við af þjóðvegi og tókum (eld)gamla þjóðveginn áleiðis að Fornhólum. Þegar þangað kom hugleiddum við að halda áfram gamla veginn að Sigríðarstöðum, en skv. loftmyndum var brúin yfir Merkjarána farin og áin hvítfyssandi í hlíðinni, eftir hita og rigningar. Þar sem langt var liðið á kvöld ákváðum við því að fara upp á hringveg. Engin umferð var á hringveginum þarna, seint á mánudagskveldi og eftir 6 km beygðum við inn að Stóru-Tjarnarskóla og tjölduðum þar nálægt leiksvæðinu, eftir að hafa gert því nokkur skil. Upphaflegt plan hafði verið að tjalda við Barnafoss, en ljóst var að við næðum ekki þangað á jafn stuttum degi.

Staðið við Stóru-Tjarnir

Staðið við Stóru-Tjarnir

Þriðjudagsmorguninn var bjartur og fagur og vindur af austri. Eftir morgunverð könnuðum við svæðið og fundum leynikofa inni í skógi. Hjóluðum síðan niður á hringveg og austur Ljósavatnsskarðið um 1 km áður en við beygðum veg suður fyrir Ljósavatn. Skömmu eftir að komið var framhjá Vatnsenda er farið yfir læk og þar beygðum lítt farna slóð til austurs í átt að bænum að Ljósavatni, þegar við nálguðumst bæinn fylltist vegaslóðinn af vatni úr Ljósavatnsá, sem var í vexti, leiddum við því hjólið upp að gamalli og nánast ónýtri brú þar skammt fyrir ofan. Komumst heilu á höldnu yfir brúna.  Snæddum nesti við gömlu kirkjuna, ræddum lengi við bónda um mikinn húsakost á staðnum, og héldum síðan niður á hringveg og fylgdum honum röskan kílómetra áður en við beygðum í norður í átt að Hriflu. Hentum steinum ofan af brúnni yfir Djúpá. Héldum síðan í vestur yfir að veginum norður Kinn og fylgdum honum áleiðis norður en síðan yfir Skjálfandafljót á brú og þaðan áfram norður. Fengum vatn á Húsabakka og snæddum nesti á Núpsvöllum. Beygðum síðan norður Aðaldalsveg en eftir hálfan annan km fórum við til hægri inn á eldri veg sem liggur framan af samsíða nýja veginum en sneiðir svo austur fyrir Húsavíkurflugvöll í gegnum sumarhúsabyggð. Fórum við síðan yfir gömlu brúna yfir Laxá og hentum þaðan steinum í ána. Fylgdum við síðan þjóðvegi til Húsavíkur, fengum okkar hamborgara og ís í sjoppu, hoppuðum á ærzlabelg áður en við héldum á tjaldstæðið.

Steinakast í Laxá

Steinakast í Laxá

Veðrið lék enn við okkur á miðvikudaginn, sem bar upp á 17. júní. Eftir að hafa tekið ögn þátt í hátíðarhöldum, farið í sund, snætt og verslað, héldum við, síðdegis, nýja veginn áleiðis að Þeistareykjum en við Höfuðreiðarmúlann skiptum við yfir, tæpa 2 km, eftir gamla veginum að Sæluhúsmúla og þaðan að Sæluhúsi hvar við gistum. Strax þar þurftum við að fara um skafla og drullu. Þarna hafði ég gist 20. júní 2012, þ.e. fyrir 8 árum og 2 dögum betur, en þá hafði verið snjólaust á heiðinni. Sópuðum við út flugum, viðruðum kofann og elduðum okkur síðan fiskibollur með kartöflustöppu áður en farið var í háttinn eftir stuttan hjóladag.

Sæll við Sæluhús

Sæll við Sæluhús

 

Skokkað yfir skafla

Skokkað yfir skafla

 

Fimmtudaginn skein enn sól en vindur var af suðri. Héldum við nú austur Reykjaheiði en síðan áfram heiðarveg  til austurs. Af þessum heiðarvegi eru ótal slóðir til norðurs, hver að sínum bæ, og ekki auðvelt að átta sig á hverjum. Framan af var talsvert af sköflum þ.a. Eggert þurfti oft að fara út úr vagninum að hjálpa pabba sínum að ýta. Vorum við fyrstir þarna á ferð þetta vorið, og leiðin því ótroðin. En veður var eins best var á kosið og áfram seiluðumst við. Þarna verða hjólförin á köflum nokkuð djúp, og því reyndist oft best að vera með hjólið hægra megin í vinstra farinu, vinstra vagnhjólið vinstramegin í sama fari, en hægra vagnhjólið uppi á kilinum. Eins gaman og er að hjóla svona þétta moldarslóða vagnlaus, þá bíður það ekki upp á mikinn hraðakstur með vagninn. Eftir að hafa notið heiðarinnar lengi dags, komum við þvert á t gatnamót Tókum við þaðan slóðina norður í átt að Eyvindarholti. Sú leið nýtir að hluta gamla Bláskógarveginn, og hafði ég gælt við að halda hann síðan áfram að Undirvegg og stytta þannig leiðina í Ásbyrgi um 4 km. Ég hafði hjólað þann kafla 8 árum áður, og í minningunni, hafði sá kafli Bláskógavegar ekki verið alslæmur (þó að hann versnaði mikið þegar vestar dró), en þegar Eyvindarholtsvegurinn yfirgaf Bláskógarveginn, var ljóst að sú leið yrði ekki farin til gagns með barn í vagni. Héldum við því niður á Hringveg, komum við á Hóli, enda vatnslausir orðnir, snæddum þar  nesti og héldum í Ásbyrgi þar sem við tjölduðum nálægt leikvelli, í fullmiklu skjóli en líka of miklum mývargi. Var Eggert því í skjóli í vagninum á meðan faðir hans tjaldaði.

Innst í Ásbyrgi

Innst í Ásbyrgi

 

Skógarbjarnarleit í Ásbyrgi

Skógarbjarnarleit í Ásbyrgi

Föstudaginn tókum við rólega. Upphaflegt plan hafði verið að fara í Vesturdal og tjalda þar og skoða Hljóðakletta, halda síðan áfram niður á þjóðveg, mögulega með viðkomu við Eilífsvötn; en í ljós kom að í gangi var vegavinna á Dettifossvegi vestari (sem er hundleiðinlegt á hjóli og enn leiðinlegra með vagn) og tjaldstæðið ekki opið (sem við hefðum svo sem ekki sett fyrir okkur). Gönguleiðin í Vesturdal er ekki heppileg fyrir vagn, þó svo hún sé fín til hjólunar. Réðum við því ráðum okkar á meðan við snæddum í Ásbyrgisbúðinni og vistuðum okkur upp, kíktum á gestastofuna, lékum okkur á leikvellinum, kíktum á Botnstjörn, endur og skóginn. Upp úr kl. 19 var komið nýtt plan, við lögðum af stað, héldum eftir þjóðvegi austur yfir Jökulsá og fórum síðan lokaðan eystri Dettifossveg til suðurs. Spáð var stífri sunnanátt daginn eftir þ.a. við vildum nýta hafgolu til að koma okkur aðeins suður á bóginn. Eftir ca. 12 km á Dettifossvegi beygðum við til vesturs að Hafursstöðum og síðan áfram vegslóða áleiðis að Forvöðum. Tjölduðum svo í litlu rjóðri um hálfum km áður en komið væri að Vígabjargi. Um kvöldið gengum við á Vígabjarg, litum á Grettisbælið og skoðuðum okkur um. Forvöð er einn af mínum allra uppháhaldsstöðum, lítil töfraveröld sem svo fáir heimsækja. Við höfðum staðinn algjörlega út af fyrir okkur.

Grettistak

Grettistak

 

Í Grettisbæli

Í Grettisbæli

Á laugardag var spáða stífa sunnanáttin komin. Við nutum hennar þó í byrjun á meðan við hjóluðum tæpa 8 km aftur upp á þjóðveginn. Við snæddum nesti í skjóli í lítilli laut, rétt áður en við komum upp á þjóðveg og héldum síðan suður á bóginn, bæði á fótinn og gegn vindinum. Sé mótvindur almennt slæmur, versnar hann til muna með vagninn sem tekur á sig glettilega mikinn vind. Mestallan þennan dag hjólaði ég í 1x1 til 1x3 gír af 3x9, var að erfiða á 5 til 6 km hraða, en við þurftum að halda 30 km í suður áður en síðustu 6 km væru farnir í austur til að geta tjaldað við vatn við Hólaselskíl. Við tókum útsýnisstopp (og hvíld) við Hafragilsfoss, annað eins sem og nestisstopp við Dettifoss áður en við héldum suður. Ég var orðinn svo úrvinda og orkulaus að þegar bara voru eftir 7 km í náttastað urðum við að stoppa í vindinum og elda okkur fiskibollur, í berangurslegu hálfskjóli til þess að ég gæti lokið deginum. Ég held að ég hafi aldrei haft jafn mikið fyrir 30 km á þjóðvegi og gerði þennan dag. En að lokum sveigði vegurinn til austurs og hraðamælirinn fór að slá í 10 til 12 km og við fundum ágætt tjaldstæði við kílinn. Við fórum ekki í kvöldgöngu.

Drunur við Dettifoss

Drunur við Dettifoss

Á sunnudag var komin stíf austanátt. Við ætluðum að taka Strætó við hringveg síðdegis, en leið okkar lá í SSA til að byrja með, og því engin hraðakstur í upphafi. Við vorum orðnir matarlitlir, vegna mikillar orkueyðslu gærdagsins og því hafði ég mikinn hug á að komast í mat á Grímsstöðum. Þar var hins vegar allt lokað þegar við komum, en eldri hjón sem voru þarna á bíl stoppuðu okkur til að láta okkur vita af því. Þetta voru ábúendur, og voru á leið á Nýja hól að huga að þrílembu sem var með meidd lömb. Þar sem ég hafði aldrei komið að Nýja hóli og jafnframt velliðtækur smalamaður, varð úr að við feðgar skelltum okkur með gegn því að fá hádegismat heima hjá þeim á eftir. Þegar til átti að taka reyndist eitt lambið dáið, en hin í þokkalegu standi þ.a. ekki þurfti að taka ána heim. Héldum við því aftur í Grímsstaði þar sem við snæddum lambalæri og gæsaregg. Héldum við síðan niður á Þjóðveg og var þá enn eftir tæp klst. í strætó. Þar sem austanáttin var stíf, stóðumst við því ekki mátið að þeysa í vestur. Þó að rúmlega 30 km hraði á malbiki sé ekki mikið, þá á fjallahjóli með farangur og barn í vagni, er það nokkuð vel af sér vikið, og fimmfaldur meðalhraði stórs hluta gærdagsins. Fórum við nú á örskotastundu 12 km að nýja Dettifossafleggjaranum, tókum þar í sundur hjól, vagn og farangur og biðum strætós. Við tók 9 tíma ferðlag með rútum niður í Mjódd. 340 km á 8 dögum, þar af a.m.k. 2/3 nýhjólaðir, mestmegnis sól, þ.a. sólarvörnin kláraðist, en rigning eina nótt og einn fyrrihluta. Þetta var jafnframt lengsta innanlandshjólreiðaferðalag okkar feðga saman.

Þingeyjarsýslur

Þingeyjarsýslur

© Birtist í Hjólhestinum mars 2021.