Kjölur, 28. – 30. júlí 2020
Við Guðrún Hreinsdóttir vorum búin að tala um að hjóla Kjöl við tækifæri. Þ.e.a.s. ef góð veðurspá væri framundan og við í fríi. Mig minnir að hugmyndin hafi komið eftir að ég keyrði Kjöl á leiðinni heim eftir hálendisferðina 2019. Svo laugardaginn 25. júlí, að mig minnir, hringdi hún í mig og sagði að það væri góð spá framundan og hvort ég væri ekki til í að fara. Ég hélt það nú. Ég hafði svo samband við Kolbrúnu Sigmundsdóttir og Jón Torfason til að athuga stöðuna á þeim. Þau voru á leið í bæinn, að vestan og voru að sjálfsögðu til í að koma með. Brottfarardagur var ákveðinn 28. júlí og við ætluðum að hjóla suður sem er þægilegri leið þó að hækkunin sé aðeins meiri.

Við lögðum snemma af stað úr bænum. Félagi okkar, hann Gústav Sveinsson, keyrði okkur norður á mínum bíl. Jón og Guðrún fóru kvöldið áður með bílinn hans að Geysi þar sem til stóð að klára ferðina. Það var tekið smá stopp á Blönduósi til að næra sig og héldum svo áfram og fórum aðeins inn á veginn inn á Kjöl, Svínvetningabraut, við Hringveginn og gerðum okkur klár. Það tók smá tíma að koma öllu dótinu á hjólin. Um korter yfir tólf lögðum við svo að stað. Það var gott ferðaveður frekar milt, skýjað og nánast logn. Leiðin var í heildina um 187 km sem við höfðum skipt upp í þrjá jafn langar dagleiðir, rúmlega 60 km hver. Fyrstu nóttina stóð til að gista við Hanskafell. Þar rennur lækur hjá þannig að við ættum að hafa vatn. Seinni nóttina var ætlunin að tjalda undir Innri-Skúta.

En eins og oft vill verða gekk áætlunin ekki alveg eftir en hvað um það. Mesta hækkunin er fyrstu 20 km eða svo. Það er sérstaklega ein brekka sem er nokkuð löng og brött á köflum. Meira en fjórir og hálfur km. og yfir 250 m. hækkun. Stuttu eftir að við kláruðum hana tókum við nestispásu, rétt við inntak Blönduvirkunar neðan við Gilsárlón, enda ekki vanþörf á eftir öll átökin. Þegar hér var komið við sögu hafði létt til og sólin farin að skína. Síðan héldum við áfram í rólegheitum enda lá okkur ekkert á.
Vegurinn var fínn og ekki mikil umferð. Ég hjólaði fremstur en tók ég svo eftir því að hin voru stopp. Ég var ekkert að stressa mig á þessu, fór bara út fyrir veg og beið. Lagði mig aðeins í smá laut. Í ljós kom að framgírarnir hjá Jóni voru með eitthvað vesen. Ekki var hægt að redda því þarna á staðnum og héldum við því för okkar áfram.
Þegar klukkan var farin að nálgast hálf sex og við orðin meira og minna vatnslaus, komum við að vatni eða tjörn sem Galtaból heitir. Þar gátum við fyllt á brúsana og samanbrjótanlegan vatnsdúnk sem Jón var með. Stuttu síðar komum við að Blöndulóni. Þar liggur vegurinn töluverðann spotta á stíflu eða varnargarði. Þegar við vorum komin upp á Áfangafell voru sumir orðnir frekar þreyttir og nokkuð liðið á daginn. Klukkan að verða hálf átta og ennþá tölvert í áætlaðan næturstað. Þannig að það var ákveðið að ef við finndum fljótlega góðan stað til að tjalda á þá myndum við stoppa þar. Það leið ekki langur tími þangað til við fundum þannig stað. Neðst í brekkunni frá Áfangafelli, Áfangi. Þar eru hús, en það var mannlaust fyrir utan var eitt tjald  sem þýskur hjólamaður var í. Þar sem engin var á staðnum, var engin til að spyrja hvort við mættu tjalda svo við bara tjölduðum. Þessi dagur endaði í tæpum 49 km. á tæplega átta tímum.

Veður var fínt þegar við lögðum af stað næsta morgun um níu leitið. Framundan var góður dagur að við töldum. Þar sem við fórum ekki alla leið að áætluðum næturstað fyrsta daginn sáum við fram á langan dag, yfir sjötíu km. að næsta áætlaða næturstað. Vegurinn var ennþá fínn tiltölulega sléttur með eina og eina holu inn á milli, en eftir um tíu km. versnaði vegurinn og þvottabretti tóku við. Já þetta voru þvottabretti dauðans og þannig var það allan daginn. Eftir um fimmtán km. og eins og hálfs tíma ferð komum við að fyrsta svefnstað áætlunarinnar við Hanskafell. Lækurinn, Hanskafellsá, sem við höfðum gert ráð fyrir var vatnslaus og uppþornaður enda búinn að vera töluverður þurrkur undanfarið. Kannski eins gott að við tjölduðum ekki þar vegna vatnsleysisins en á Áföngum var vatn í krana.

Við héldum áfram í smá stund áður en áðum í um tuttugu mínútur. Við héldum svo bara áfram og ekkert markvert gerðist svo sem á leiðinni. Við brúnna yfir Seyðisá hittum við tvo á fjórhjólum og ræddum við við þá í smá stund. Svo sá ég fullt af tjaldhælum liggjandi á veginum, sem ég hirti. Þetta voru flottir hælar en ekki gott fyrir þá sem töpuðu þeim.

Eftir rúma fjóra tíma og meira en 36 km. komum við svo inn á Hveravelli. Þar fengum við okkur að borða og fórum á salernið. Á þessum tímapunkti sáum við fram á að við myndum aldrei ná að Innri-skúta til að tjalda á skikkanlegum tíma. Við ætluðum bara að halda áfram þangað til við finndum góðan stað þegar færi að kvölda. Við mættum einum aðframkomnum þjóðverja á hjóli, það sást að hann var alveg búinn á því. Hann var að koma frá Hvítárnesi. Hann spurði hvort við vissum hvað væri langt að Hveravöllum. Við sögðum honum að það væru um fimm km. ef ég man rétt.

Nú var hæsti punktur ferðarinnar framundan og við töldum okkur sjá hann, nokkrum sinnum, enda vorum við orðin nokkuð þreytt á sífeldri hækkun. Ekki það að þessi dagleið er nokkuð þægileg upp á það að gera. Ekki mikil hækkun en þvottabrettin voru skelfileg. Að lokum komum við á hæsta punktinn og þá lá þetta allt meira og minna niður á við, þvílíkur léttir. En þó voru ekki allar brekkur upp í móti búnar, því fór fjarri. Við komu að skilti sem sýndi sveitafélagsmörk Bláskógabyggðar, Biskupstungur og Húnavatnshreppar. Það var miklu sunnar en ég hefði talið. Mér datt ekki einu sinni í hug að þessi sveitarfélög lægu saman. Skiltinu hef ekki tekið eftir þegar ég hef verið á ferð í bíl enda tekur maður eftir miklu meiru þegar maður er í rólegheitum á hjóli eða gangandi.

Þegar hér var komið við sögu var klukkan að verða sjö og við farin að huga að góðum stað til að tjalda á en það var bara auðn svo langt sem augað eygði. En svo sáum við græna torfu sem við gætum að öllum líkindum tjaldað á í beygju og fyrir neðan smá brekku og gekk það eftir. Staðurinn er í tæplega tveggja km. fjarðlægð frá afleggjaranum inn í Kerlingafjöll. Vel gekk að tjalda og allt það, við fengum okkur svo að borða áður en við skriðum inn í tjöldin. Það voru um sjö km. að áætluðu tjaldstæði við Innri-Skúta. Þess má geta að Gíslaskáli er skammt frá þar sem við tjölduðum en við föttuðum það ekki fyrr en eftir á um kvöldið. Við hefðum eflaust getað farið þangað og tjaldað. Þó veður hafi verið gott þennan dag var frekar lágskýjað þannig að ekki sást í toppa t.d. Kerlingafjalla og Hrútfellsjökuls. Þessi dagur endaði í rúma 65 km á um ellefu og hálfum tímum.

Nú rann upp síðasti dagur ferðarinnar. Enn var lágskýjað, en fínt veður að öðru leiti. Ég sýð yfirleitt egg fyrir svona ferðir og steiki beikon heima fyrir morgunmatinn. En ekki fór Kjalvegur vel með soðnu eggin mín. Nei, þau voru orðin að eggjahræru með skurnina í molum innan um eggin. Ekki hafði ég lyst á þeim, en rebbi eða krummi hafa vonandi nýtt sér þau.

Við héldum af stað í síðasta áfanga ferðarinnar fyrir hálf níu. Framundan var um sjötíu og þriggja km. leið, samkvæmt uppfærðri áætlun, en að mestu niður á móti. Helsta brekkan upp í móti lá upp á Bláfellsháls. Þó þurftum við að hækka okkur aðeins til að byrja með, upp að Innri–Skúta. Til að byrja með var vegurinn frekar slæmur líkt og daginn áður, en þegar leið á daginn lagaðist hann töluvert. Ekkert markvert gerðis svo sem þangað til við komum að Árbúðum. Þar var í boði kjötsúpa, ásamt brauði, sem við fengum okkur. Mikið var hún góð. Svo kom inn par frá Sviss og fór stelpan að máta peysur. Guðrún og Kolla gátu nátturlega ekki látið það afskiptalaust og mæltu með einni peysunni umfram aðra, sem mig minnir að stelpan hafi svo keypt.

Þegar við komum út er bíll fastur í Svartá fyrir neðan skálann. Nýr Vitara, sem er ekki neinn jeppi lengur, bara jepplingur sem sat fastur á grjóti að því að virtist. Svissneska parið var á Land Cruiser með svefnhúsi og með spil sem þau kunnu ekkert á því foreldrar stelpunar áttu bílinn. Þannig að það var hringt til Sviss til að fá upplýsingar um hitt og þetta varðandi búnaðinn á bílnum. Síðan fór hann yfir ána. Við Jón vorum búnir að benda honum á að betra væri að draga bílinn til baka frekar en yfir ána til okkar, þá væri minni hætta á skemmdum, en hann fór samt yfir ána og náði að losa bílinn.

Eftir þetta héldum við áfram veginn, sem var orðinn mun betri. Rétt áður en farið er niður að Hvítá er smá hæð þar sem er gott útsýni yfir svæðið í kring svo við stoppuðum aðeins þar til að njóta útsýnisins. Þá kom Vitaran sem festi sig í ánni. Við spjölluðum aðeins við fólkið og í ljós kom að bíllinn hafði ekkert skemmst. Við fórum yfir Hvítá og komum svo að síðustu stóru brekkunni uppí móti, Bláfellsháls. Það teigðist aðeins á hópnum upp hana. Þetta eru yfir 180 m. hækkun á um átta km. En síðan tók fjörið við, góð brekka niður Bláfellshásinn framundan. Yfir þrjú hundrum metra lækkun á tæpum sex km. Vegurinn var nokkuð góður þarna og hægt að láta sig bruna niður. Það hefði verið draumur ef hann hefði verið malbikaður. Ég hefði þó ekki viljað hjóla upp brekkuna, hún var ein ástæða þess að við hjóluðum leiðina suður í stað norðurs. Auk þess að styttra er að skutla bíl á suðurlandi fyrir heimferðina.

Nú var aðeins ein smá brekka upp í móti eftir, eftir að farið er yfir Grjótá. En hún var nú ekki neitt miðað við það sem á undan var gengið. Þess má geta að Grjótá var þurr, ekkert vatn í henni bara pollur undir brúnni. Við hittumst öll efst eftir þessa brekku og ákváðum, að mig minnir, að það myndi vera frjálst fall að Geysi þar sem við ætluðum að ljúka ferðinni. Þaðan er ekkert voðalega langt í malbik, en þó lengra en við ætluðum, mikið var nú gott að komast á það.

Nú var kominn töluverður mótvindur þannig að leiðin að Gullfossi ætlaði aldrei að taka enda en hafðist þó að lokum. Við Guðrún vorum töluvert á undan Kollu og Jóni og þurftum því að bíða þar í smá stund. Þegar  þau komu var ákveðið að þarna myndi ferðin enda nema fyrir okkur Jón. Við brunuðum niður á Geysi til að ná í bílinn. Það voru um tíu km.

Við vorum búin að ákveða að fá okkur að borða á Gullfossi þegar við kæmum til baka með bílinn. Ætluðum að fá okkur almennilegan mat. En þegar við komum þangað, rúmlega hálf sjö, var búið að loka! Þá var ákveðið að við færum á veitingastað á Laugarvatni. En eftir langa bið og eftir að hafa komist að því að biðin myndi verða miklu lengri nenntum við ekki að bíða þar lengur og enduðum á því að fá okkur pylsur og ís á bensístöðinni. Þessi dagur endaði í rúma 63 km og tæpa sjö tíma á Gullfoss. Auk þess bættust um tíu km hjá okkur Jóni sem tók um tuttugu mínútur að hjóla, ef ég man rétt. Heildarvegalengdin var 177 km að Gullfossi og þá um 187 km hjá okkur Jóni niður að Geysi.

Þetta var fín og skemmtileg ferð þó vegurinn hefði mátt vera betri. Þegar ég keyrði hann árið áður fann ekki fyrir því hvernig vegurinn var. En það er ekkert að marka það á þungum bíl á stórum dekkjum sem búið er að hleypa úr og keyrt þannig að maður finni ekki fyrir þvottabrettunum. En gaman að vera búin að ákveða eitthvað svona og láta veður stjórna því hvort farið verður eða ekki. Ef ég myndi fara þetta aftur myndi ég taka þetta á fjórum dögum og gista á Hveravöllum, sem er nokkurn vegin í miðju leiðarinnar. Svo mætti jafnvel bæta degi við og fara í Kerlingarfjöll.

Skoðið myndir úr ferðinni á Flickr síðu Grétars: Kjölur, júlí 2020.

© Birtist í Hjólhestinum mars 2021.