Afmælishátíð Fjallahjólaklúbbsins var haldin með pomp og prakt 27. júlí.  Við ákváðum að hafa þetta aðeins veglegra en pylsuhátíð vestur í bæ.  Leigðum bústað uppi í Heiðmörk og buðum upp á grillveislu, kaffi, köku, bjór, rautt, hvítt og gos.  

Veislan hófst kl 14, þá lögðum við af stað hjólandi frá Olís Norðlingaholti og leiðin lá í Norska bústaðinn, Thorgeirsstaði í Heiðmörk.  Planið var að fara ekki alveg beina leið, heldur næra sig á náttúrunni sem er rétt fyrir utan borgarmörkin.  Hjóla upp að Geitarhálsi, en Magnús Bergsson, annar af stofnendum Fjallahjólaklúbbsins hóf ungur sína ævintýraþrá með því að hjóla út úr borginni inn á þetta fallega svæði.

 

Hér má sjá Alfreð og Gísla, hinn stofnanda Fjallahjólaklúbbsins beygja inn á Hólmsheiðina. 

 

Ekki er kílómetrafjöldinn að slá nein met, 16 kílómetrar, en við vorum samt rúma 3 tíma að hjóla þetta.

 

Það er alveg hægt að hjóla fullt þarna á góðum malarvegum en það er líka hægt að fara vegleysur og einhverjar brekkur má finna þarna ef menn leita þær uppi.

 

Ég var búin að lofa að villast aðeins með mannskapinn, og það varð náttúrulega raunin.  En ferðafélagar mínir voru vopnaðir snjallsímum með GPS og lóðsuðu okkur öðru hvoru inn á rétta braut.  

 

Veðrið?  Ekkert að því en kannski var ég í allt annari hjólaferð en félagar mínir í Fjallahjólaklúbbnum.  Nah, ég er bara svona heitfeng.  Um leið og þau voru búin að klæða sig í peysur og regnstakka, þá braust sólin aftur fram úr skýjunum.

 

Þegar við komum í bústaðinn beið okkar dýrindis grillveisla.  Geir, yfirgrillmeistari sá um að galdra fram kræsingarnar ásamt dyggri aðstoð Tryggva.

 

Þorgerður, núverandi formaður Fjallahjólaklúbbsins er lengst til vinstri.  Hjóla-Hrönn, sú er þetta ritar er lengst til hægri.  Nú þarf bara að passa að myndin speglist ekki í prentun, þá er ekkert að marka skrif mín lengur.

 

Frá vinstri, Páll Guðmundson, ritsjóri og vefumsjón, Gísli Haralds og Magnús Bergsson.   

 

Kvöldið leið við glaum og gleði.  Ungviðið grillaði sykurpúða á meðan reynsluboltarnir sögðu hreystisögur frá fyrri tíð.

Í upphafi skyldi endinn skoða.  Ég efast um að félagana Magnús og Gísli hafi órað fyrir því, að Íslenski fjallahjólaklúbburinn myndi vaxa og dafna eins og hann hefur gert.  Tæpir 2.000 aðilar hafa verið félagsmenn á einum eða öðrum tímapunkti og í dag eru virkir félagar um 650.  Þ.e. félgsmenn og fjölskyldumeðlimir þeirra, sem hafa greitt félagsgjaldið.  Röðin í grillið hefði getað náð niður í byggð, en það mættu 27 manns og fögnuðu 30 ára afmæli Fjallahjólaklúbbsins.

 

Birtist fyrst í Hjólhestinum, mars 2020.