Hvað ungur nemur, gamall temur. Ég fann Fjallahjólaklúbbinn fyrir tæpum áratug. Ég hef farið óteljandi ferðir með klúbbnum, kynnst urmul af skemmtilegu fólki og átt ófáar gleði- og gæðastundir með hjólafólki á öllum aldri. Þegar ég var beðin um að koma inn í ferðanefnd, þá taldi ég að ég hefði ekkert þangað að gera, ég þekki ekkert af hjólaleiðum eða gististöðum. En smám saman lærir maður af öðrum og nú hef ég skipulagt fjölmargar hjólaferðir fyrir Fjallahjólaklúbbinn.

Ég er að vestan og ákvað að slá saman tveimur ferðum, fyrst fór ég að heimsækja fjölskylduna á Ísafirði, svo var planið að koma við í Heydal á leiðinni suður, hjóla tvær dagleiðir upp úr Hjólabók Ómars Smára með félögum úr Fjallahjólaklúbbnum og eiga notalega stund í Heydal. Aðstaðan þar er býsna góð, tjaldsvæði, veitingastaður, heitir pottar, sundlaug og sumarbústaðir.

En við búum á Íslandi og veðrið setti strik í reikninginn. Það spáði brjáluðu veðri seinni daginn og nokkrir aðilar hættu við vegna veðurs. Þar eð ég var hvort eð er fyrir vestan ákvað ég að halda plani, mæta og við gætum þá bara dólað okkur í heita pottinum, legið í sófanum í bústaðnum og sagt hreystisögur af ævintýraferðum fyrri ára.

Ég átti jafnvel von á að ég yrði ein með syni mínum í ferðinni. Já, börnin munu landið erfa, sonur minn, tvítugur er farinn að feta í hjólför móður sinnar og ákvað að koma með í ferðina. Ég var búin að prófa þolið hjá honum og vissi að ef dagleiðin væri honum um megn, þá ætti hann í engum erfiðleikum með að rölta um, skoða fjöru og fjall á meðan hann biði eftir að ég sækti hann á bíl að hjóladegi loknum. Og við vorum búin að fara í 20km prufurúnt á Ísafirði, svo mér þótti líklegt að hann myndi ráða við og klára daginn. Sem hann gerði með prýði og sóma. Veðurguðirnir voru í essinu sínu, það var logn og ágætis hiti. Stuttbuxnaveður. Fyrri dagleiðin var Mjóifjörður. Ég var búin að mæla dagleiðina á ja.is og hafði smá áhyggjur að við yrðum búin með 30 km hringinn á hádegi. En þetta teygðist upp í 37 með spottanum að Heydal og við vorum öll sammála um að dagleiðin væri bara mjög temmileg og hefði alls ekki mátt vera lengri, þá hefðum við öll legið rotuð uppi í bústað eftir daginn. Eftir að hafa skolað ferðarykið af okkur í heitu pottunum var farið í sparidressið og út að borða.

Í ferðinni voru fjórar konur og svo sonur minn, sem hélt heiðri karlmannanna á lofti. Stella, gestgjafinn í Heydal tók okkur opnum örmum, þar var hlaðborð sem svignaði undan bragðgóðum veisluréttum og kvöldið leið við glaum og gleði.

Næsta dag lá leiðin suður, en vindhraðinn var bara og aðeins 30 metrar á sekúndu. Það var prýðis veður í Heydal og við hefðum átt að hjóla eitthvað í nágrenninu, frekar en reyna við Gilsfjörðinn. Þegar við komum þangað var ekki stætt og ekki hjólafært. Ef maður er í útivistarferð, þá er alltaf hægt að ganga og það er hægt að fara í sund. En ég var því miður ekki göngufær vegna stoðkerfisvandamála, svo við leystum upp ferðina, til að fólk gæti fengið sér hreyfingu að eigin vali og nýtt sunnudaginn í skemmtilega útiveru. Gilsfjörður fer ekki langt og verður án efa hjólaður einhvern tíma seinna.

Myndir:
Hrönn Harðardóttir, Elfa Jónsdóttir og Þorgerður Jónsdóttir


Birtist fyrst í Hjólhestinum, mars 2019.