Ég var orðin algert sófadýr og stefndi hraðbyri í ógöngur með heilsuna. Ég vissi að ég þyrfti að taka mig á. Einn daginn tilkynnti ég því manninum mínum að ég yrði að gera breytingar á lífinu og ég væri bara þannig gerð að til þess að ég næði að standa með mér þyrfti ég að fá dellu. Hjól væri örugglega besti kosturinn fyrir mig, því við hjónin hefðum jú hjólað mikið á yngri árum; „Bjössi, ég ætla að fá hjóladellu“. Þetta var í byrjun maí 2012.

Daginn eftir var Hjólað í vinnuna til umræðu á vinnustaðnum. Ég hélt nú að ég ætlaði að vera með! Ég sendi meira að segja tölvupóst á alla með yfirlýsingu um að ég myndi taka þátt og hjóla alla dagana. Ég sem hafði ekki hreyft mig árum saman; ég sem bjó í Hafnarfirði og vann á þeim tíma í Borgartúni. Átti bara eftir að kaupa hjól.

Sem ég gerði, ég fór í Húsasmiðjuna og keypti hjól af ódýrustu gerð og hjálm. Nú var að standa við stóru orðin. Hjólað í vinnuna var byrjað. Ég þurfti að labba upp hálfa Arnarneshæðina fyrsta daginn. Á leið upp Kópavogshálsinn hélt ég að nú væri komið að því; ég myndi ekki lifa af alla leiðina upp. Ég hundskammaði sjálfa mig. „Hvað er að þér Auður, af hverju kanntu ekki að þegja, af hverju lofar þú svona upp í ermina á þér!“ Og brekkurnar ekki búnar, ég gat ekkert hjólað upp brekkuna milli lífs og dauða. Ég var algerlega búin á því. Ég hjólaði nú samt daglega og seinnipart vikunnar gat ég hjólað upp brekkurnar, hægt en ég komst upp. Framfarirnar voru ótrúlega hraðar. Ég man enn hvernig mér leið þegar ég náði þeim áfanga að hjóla fram úr öðrum hjólamanni, þvílíkur sigur, ég var ekki lengur sú sem hjólaði hægast.

Ég setti mér markmið og fann mér app sem hentaði mér og mældi alla hreyfingu, sem í mínu tilviki var fyrst og fremst að hjóla. Fyrsta árið var markmiðið að hjóla 2012 km. Ég náði því og aðeins betur. Að ná markmiði sínu er góð hvatning til að halda áfram.

Nokkrum hjólum og um tuttugu þúsund kílómetrum síðar er ég enn að hjóla og enn að setja mér markmið. Skil bara ekki af hverju við hættum að hjóla á sínum tíma. Þessi della breytti nefnilega lífi okkar hjóna, því maðurinn minn ákvað að hann þyrfti líka á dellu að halda.

Ég hjóla í vinnuna flesta daga ársins, en nú mun styttra en í Borgartúnið  og mér leiðist orðið að keyra bíl. Þó eigum við ágætis bíl sem er oft gagnlegur. Ég gekk í Fjallahjólaklúbbinn. Það var áskorun að fara í fyrstu ferðina með ÍFHK en það var gæfuspor. Í klúbbnum höfum við hjónin eignast góða vini. Við hjólum og ferðumst saman auk þess að njóta góðs félagsskapar í klúbbhúsinu. Þau eru nefnilega með sömu dellu.

Við seldum gamla fellihýsið okkar og keyptum þess í stað tjald sem passar á hjólið  Núna skoðum við hjónin Ísland töluvert á hjóli. Bíllinn fær alveg að koma með en hjólið er í aðalhlutverki. Við höfum farið á marga staði sem við komumst ekki með fellihýsið. Ég er búin að hjóla upp á fjall, nei fjöll og í sumar  ætla ég upp á nokkur í viðbót, með tjaldið á bögglaberanum.

Við höfum farið í þrjár hjólaferðir erlendis og erum á leið í þá fjórðu. Sonur okkar sem þá var á unglingsaldri kom með okkur í tvær ferðir; þetta er nefnilega afskaplega fjölskylduvænn ferðamáti. Við höfum skipulagt allar ferðirnar sjálf og farið algerlega á eigin vegum, bara fjölskyldan en einnig með góðum vinum, gist í tjaldi og séð heiminn með allt öðrum augum en áður.

Borgin mín breyttist. Ég uppgötvaði að það er ekkert mál að hjóla úr Hafnarfirði í vesturbæinn í Reykjavík. Það er bara hressandi.  Ef einhver hefði sagt mér áður en ég fékk delluna að ég myndi segja þetta, hefði ég sagt viðkomandi að fara og mæla sig; hann væri með hita. Að hjóla er raunhæfur valkostur á Íslandi og það er ekkert mál að taka hjólið með í flug. Þannig er það bara.

*Birtist fyrst í Hjólhestinum mars 2017