UMFERÐARVEFURINN
Ísland - Reykjavík

Staða hjólreiðafólks í Reykjavík hefur farið snarbatnandi ár frá ári undanfarið. Þar ber fyrst að geta átaks borgarinnar í að fjarlægja kanta sem gerðu stígakerfið t.d. ófært fötluðum í hjólastólum á um 2000 stöðum og reyndar fannst bara ein gata í borginni, í úttekt Sjálfsbjargar í Reykjavík, sem gat talist þokkalega fær á hjólastól.

Einnig má minnast á stórskemmtilega stíga meðfram suðurströndinni og upp í Breiðholt og meðfram norðurströndinni.
Þessir stígar eru þó aðallega hannaðir sem göngu- og útivistarstígar og nýtast ekki sérlega vel til samgangna, t.d. þegar sjávarrokið stendur yfir suma þeirra á veturna.
Hjólreiðafólk og hjólastólafólk þarf að komast ferða sinna allan ársins hring, eftir öruggum leiðum og þess vegna þarf staðsetning stíganna að vera vel út hugsuð og á veturna þarf að ryðja snjó af stígum fljótt og vel. Hindranir eins og kantar og hlið eiga ekki að loka stígunum.
Stígar liggja til allra átta - nema beint Á hjólastól að versla í matinn
Eitt það albesta sem gert hefur verið er sú stefna sem sett hefur verið fram í Aðalskipulagi Reykjavíkur og vitnað er í annarsstaðar í þessum bækling. En það er tvennt sem vantar enn. Annað er að það sé unnið eftir skipulaginu en myndirnar á næstu síðum sýna að þar má bæta verulega úr.
Hitt snýr að Alþingi og það er að setja hjólavegi og hjólastíga inn á vegalög. Flestar aðalleiðir um borgina heyra undir ríki en ekki borg og þar sem hjólavegir eru ekki í vegalögum segist Vegamálastjóri ekkert mega gera fyrir hjólreiðafólk, þó reyndar hafi verið samið við ríkið að standa undir kostnaðinum við sumar af nýju göngubrúnum. Á sama tíma er búið að leggja töluverðan pening í reiðvegi fyrir hestafólk.  Reiðvegirnir geta tæplega talist hluti af samgöngukerfinu þó þeir nýtist ágætlega til útivistar.


Þessar síður eru ekki tæmandi úttekt á aðstæðum hjólreiðafólks heldur aðeins nokkrar ábendingar um atriði sem mætti færa til betri vegar.  Við vonum að þeim verði vel tekið og að þær megi nýtast til að gera Ísland hjólavænna í framhaldinu svo almenningur geti nýtt sér þennan holla, hagkvæma og umhverfisvæna valkost í samgöngumálum með öruggum hætti.

Næsta síða

Allar myndir © Íslenski fjallahjólaklúbburinn.

Texti: Páll Guðjónsson

©ÍFHK Mars 1999.

Til baka á yfirlit