Íslenski fjallahjólaklúbburinn er kominn í jólafrí. Þar af leiðandi verður ekki opið hús næstu tvö fimmtudagskvöld.
8. janúar 2015 verður kaffihúsakvöld eins og okkur einum er lagið.

Hátíðarkveðjur og óskir um að sem flestir fái notið þeirrar hreysti, hamingju og hagkvæmni sem hjólreiðum fylgja.

Íslenski Fjallahjólaklúbburinn
-25 ára starf til eflingar hjólreiða á Íslandi-

Til að fagna væntanlegum sólstöðum ætlum við að hittast í Klúbbhúsinu fimmtudaqinn 4 desember og eiga saman notalega kvöldstund. Í boði er eðal-kaffi Arnalds, vöfflur, piparkökur, jólaglögg og fleira góðgæti. Klúbbhúsið opnar að venju kl 20:00, viðgerðaaðstaðan opin á neðri hæð, kaffi og setustofan á efri hæð verður sett í hátíðabúning.
-Húsnefnd

Aðalfundur ÍFHK verður haldinn 30. okt. kl. 20 Brekkustíg 2.
Hér með er jafnframt auglýst eftir framboðum til stjórnar klúbbsins. Þeir sem hyggja á framboð, sendi tilkynningu í netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Framundan er hjólaráðstefnan; Hjólum til framtíðar 2014; okkar vegir – okkar val. Það væri okkur í Hjólafærni og Landssamtökum hjólreiðamanna, kært að hafa þig með okkur í salnum, nú eða úti að hjóla og jafnvel að snæða með okkur góðan mat. Einnig verður ráðstefnan send út beint á netinu. Þrír fyrirlesarar koma erlendis frá en auk þeirra eru fjölmargir innlendir fyrirlesarar.

Helgina 20.-21.september næstkomandi er fyrirhuguð haustlitaferð Fjallahjólaklúbbsins í Þórsmörk. Áætlað er að hjóla frá Seljalandsfossi inn í Goðaland að Básum, skála Útivistar og til baka næsta dag. Gist verður eina nótt í skálanum í Básum.

Óvissu og afmælisferð Fjallahjólaklúbbsins verður farin um næstu helgi, 23-24 ágúst en klúbburinn er 25 ára á þessu ári.  Mæting við Olís bensínstöðinni Norðlingaholti kl 8:00 og fólk, hjól og farangur verður ferjað úr bænum eitthvert upp á hálendið.  Hvert það verður veit víst enginn, né hver mun leiða hópinn en það verður gist í skála með hvítu postulíni, etið ket og drukkið öl.  Kannski mætir einhver með gítar, kannski einhver með harmoniku en orgel eru vinsamlega afþökkuð. 

Kæru félagar, líkt og undanfarin ár hefur Reykjavíkurmaraþon farið þess á leit við okkur að aðstoða við framkvæmd hlaupsins þann 23. ágúst næstkomandi. Áhugasamir klúbbfélagar óskast til að hjóla á undan og eftir hlaupurum í öllum vegalengdum hlaupsins.

Allir ættu að geta fundið vegalengd / hraða eftir áhuga og getu hvers og eins. Fjallahjólaklúbburinn hefur lengi veitt aðstoð sína á þessum skemmtilega degi og þetta er mikilvægur þáttur í fjáröflun klúbbsins.

Hjólaferðin hefst á Sandártungu í Þjórsárdal, laugardaginn 26 júlí kl 12:00.  Hjólað um línuveg og skógarslóða.  Ca 30 km.  Erfiðleikastig 5 af 10.  Um kvöldið er sameiginleg máltíð og kvöldvaka, gist í Hólaskógi í svefnpokaplássi.  Takið sundföt með, aldrei að vita nema Þjórsárlaug verði mátuð.

Lagt af stað laugardaginn 10 maí kl 11:00 frá Olís Bensínstöðinni við Norðlingaholt.  Hjólað eftir Suðurlandsvegi, beygt inn á veg nr. 431, Hafravatnsveg.  Þaðan farin Nesjavallaleið upp með Henglinum, niður að Þingvallavatni og áfram til Úlfljótsvatns, þar sem gist verður í góðum bústöðum með heitum potti.  Leiðin er 50 km, að mestu á malbiki.  Allar tegundir af reiðhjólum henta, nema racer.  Fólk þarf að hafa með sér nesti til tveggja daga, það verður sameiginleg máltíð á laugardagskvöldi (innifalið í verði), drykkjarföng að eigin vali, rúmföt (lak, sængur og koddaver), tannbursta og sundföt.  Trússbíll tekur farangur og aðrar pjönkur, möguleiki á að fá aðstoð upp Hengilinn ef brekkurnar taka um of í.  Það er sjónvarp í bústöðunum og hægt að fylgjast með Eurovision keppninni sem er á laugardagskvöldið. 

Hjólateljari var settur upp síðasta sumar við nýja hjólastíginn meðfram Suðurlandsbraut, rétt hjá gatnamótunum við Kringlumýrarbraut. Hann telur þá sem hjóla framhjá og sýnir hversu margir hafa hjólað hjá yfir daginn og yfir árið. Talningin er líka birt á heimasíðu framleiðandans og hægt er að kalla fram niðurstöður úr teljaranum í sólarhring eða mánuð aftur í tímann á heimasíðunni.

Hjólreiðahópur Almenningsíþróttadeildar Víkings var stofnaður vorið 2013. Síðan í haust hefur hann haldið úti æfingum í öllu veðri, með- og mótvindi, sólskini, snjó og hálku. Hópurinn hittist ávallt á fimmtudögum kl. 18:00 við Víkingsheimilið. Æfingar eru fjölbreyttar og misjafnt er hvort hjólaður er hringur um bæinn eða gerðar hjólaþrekæfingar s.s. brekkuhjólreiðar eða hjólasprettir. Að auki er aðstaða til styrktarþjálfunar í Víkingsheimilinu og nýtti hópurinn sér það í vetur þegar veður var sem verst. Æfingarnar eru einstaklingsmiðaðar þannig að hver og einn tekur þátt á sínum forsendum. Engin krafa er gerð um aldur eða útlit hjóls og því geta allir áhugasamir hjólarar verið með. Það eina sem þarf er áhugi á hjólreiðum.

Hjólhesturinn 2014

Við viljum hvetja fólk að borga sem fyrst því þá getum við sent nýtt félagskírteini með Hjólhestinum og sparað klúbbnum auka póstburðargjöld. Glænýr Hjólhestur er kominn úr prentsmiðjunni, óvenju stór og pattaralegur enda stútfullur af efni. Endilega reynið að ganga frá greiðslu fyrir helgi svo þið verðið með í fyrstu dreifingu.

Vinna við fréttabréfið okkar Hjólhestinn er komin á fullt og auglýsum við nú eftir efni. Það er laust pláss fyrir ferðasögur, reynslusögur og ýmisskonar pistla.

Það væri t.d. gaman að heyra frá einhverjum sem byrjaði nýlega að nota hjólið sem samgöngutæki og heyra hvað dreif viðkomandi af stað og hver reynslan hefur verið. Það má líka fjalla um ferð með klúbbnum eða aðrar skemmtielgar hjólaferðir.

Íslenski fjallahjólaklúbburinn er kominn í jólafrí. Þar af leiðandi verður ekki opið hús næstu tvö fimmtudagskvöld, 26. og 2. janúar. Opið hús næst 9. janúar.

Stjórnin óskar félagsmönnum gleðilegra jóla og sendir jafnframt sólstöðukveðju. 

Næsta fimmtudagskvöld 5. desember er okkar árlega aðventukvöld.
Hrönn verður á vöfflujárninu og býður upp á gómsætar vöfflur.
Með þeim má gæða sér á gæðakaffi frá kaffifasistanum sem verður á kaffivélinni.
Komið og njótið góðrar stemmningar með okkur.

Fjallahjólaklúbburinn

Opið hús fimmtudaginn 28.11.2013, viðgerðaaðstaðan opin, heitt á könnunni á efri hæðinni.  Kl 20:30 hefst myndasýning.  Sýndar verða myndir og hreyfimyndir frá þriðjudagskvöldferðunum og helgarferð í Skorradal.  

Aðalfundur ÍFHK verður haldinn 31. okt. kl. 20 Brekkustíg 2.
Hér með er jafnframt auglýst eftir framboðum til stjórnar klúbbsins. Þeir sem hyggja á framboð, sendi tilkynningu í netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

9. grein: Stjórn félagsins skal kjörin á aðalfundi til eins árs í senn. Stjórnina skipa 5 menn: Formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi. Einnig skal kjósa endurskoðanda og formenn nefnda.

Ennfremur er auglýst eftir tillögum lagabreytingum.

Helgina 21.-22.september næstkomandi er fyrirhuguð haustlitareiðhjólaferð Fjallahjólaklúbbsins í Þórsmörk. Áætlað er að hjóla frá Seljalandsfossi inn í Goðaland að Básum, skála Útivistar og til baka. Gist verður eina nótt í skálanum í Básum.

Nánari ferðalýsing: Fyrirhugað er að sameinast í einkabíla við bensínstöð Olís, Norðlingabraut kl 9:00 laugardagsmorgun þann 21. september. Reiðhjól og farangur verður fluttur á kerru með fylgdarbíl. Ekið verður sem leið liggur austur fyrir fjall, yfir Markarfljótsbrú gegnt Seljalandsmúla að Seljalandsfossi þar sem bílar verða skildir eftir. Hjólað verður eftir grýttum slóða um það bil 150 m hækkun inn að Básum með viðkomu í Stakkholtsgjá. Fara þarf yfir nokkrar ár og læki á leiðinni og kemur fylgdarbílstjóri til með að aðstoða við að fara yfir ár ef þess gerist þörf. Leiðin inn að Básum er um 30 km löng. Stoppað verður við Stakkholtsgjá og þeir sem hafa áhuga á að ganga inn 1-2 km langa gjána gefinn kostur á því. Gönguleiðin er mögnuð inn 100 m djúpt gil eftir árfarvegi og tekur um það bil eina klukkustund að ganga fram og til baka.

Þá er þriðjudagskvöldferðunum okkar lokið að sinni.  Það var Sigrún Lundquist sem vann mætingabikarinn, mætti í 15 af 17 ferðum sumarsins.  Hákon J. Hákonarson gaf Fjallahjólaklúbbnum farandbikar sem vinningshafinn hampar ár hvert.  Í september verður haldið myndakvöld með myndum úr þriðjudagsferðunum, fjölsóttust var Viðeyjaferðin okkar, 32 þátttakendur á öllum aldri, en flesta þriðjudaga mættu á bilinu 10-15 manns.  Ekki var ákveðið fyrirfram hvert yrði hjólað, en veður, vindar og óskir þátttakenda réðu för hverju sinni.  Við þökkum öllum sem hafa hjólað með okkur í sumar og vonumst til að sjá sem flest aftur næsta sumar.