Á opnu húsi á fimmtudaginn verður sýnt kvikmynd sem tekin var í hjólaferð um Karpatafjöllin 2011. Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. Klúbbhúsið Brekkustíg 2 opnar kl 20:00 og myndin fer í gang um kl 20:20. Nánar um myndina:

Við félagarnir, ég, Óli bróðir og Tómas Sölvason höfðum aðeins hjólað inn í Úkraínu, er við fórum um sjö lönd austur-Evrópu sumarið 2009.

Því var auðvelt að fá þá í þessa ferð,síðan fjölgaði í hópnum og við urðum átta með Igor farastjóra okkar frá Úkraínu.         

Við flugum til Warsaw en byrjuðum að hjóla frá Lviv í Úkraínu upp í Karpatafjöllin er liggja 100km fyrir sunnan borgina.

Igor sá um að panta fjallahótel en við settum það sem skilyrði að það væri sauna á þeim. Hótelin voru nokkuð góð og kostuðu um 3000kr ísenskar nóttin með morgunmat. Hjólað var í fimm til átta tíma á dag en yfirferðin nokkuð misjöfn eftir aðstæðum.

Eftir tíu daga  héldu allir heim nema ég og Tómas Sölvason sem hjóluðum áfram inn í Rúmeníu og enduðum eftir þrjár vikur aftur í Lviv.

Þetta svæði sem við fórum um er ótrúlega fallegt,fjöllin rúmlega 2000 metra há og mikil sveitasæla. Oft höfðum við það á tilfinningunni að við værum komnir aftur í aldir. Við vorum með þrjár HD myndavélar í ferðinni og reyndum m.a. að mynda gamla tímann og auðvita náttúru landsins. Eins og einhver góður maður sagði  "sjón er sögu ríkari" og því vona ég að sem flestir komi og sjái myndina:    Hjólað um Karpatafjöllin 2011.  

Hjálmar Kr Aðalsteinsson.