Það verða margar spennandi ferðir á dagskránni 2013, bæði nýjar og gamlar. Ferðirnar verða auglýstar nánar á vef og póstlista ÍFHK þegar nær dregur ásamt öðru í fjölbreittri starfsemi klúbbsins. En hér er stutt kynning á því markverðasta:

18.-19. maí: Eurovision - Nesjavallaferð

Þessi rótgróna ferð verður endurvakin, nema nú er hjólað niður að Úlfljótsvatni á laugardegi, 50 km leið frá Reykjavík, Nesjavallaleið, upp að Henglinum, niður að Þingvallavatni og að Úlfljótsvatni, þar sem gist verður í bústöðum með heitum potti.  Hjóluð sama leið til baka á sunnudeginum.

25. maí: Hafnarfjörður - óbyggðir

Dagsferð. Hjólað verður frá Sundhöll Hafnarfjarðar eitthvað upp fyrir bæinn, að Hvaleyrarvatni og skoðaðir fáfarnir slóðar.  Lengd ferðar fer eftir veðri og vindum og verður nokkuð byrjendavæn, búast má við allt að 50 km, 3-4 tímum.  Svo verður endað í heitu pottunum í Sundhöll Hafnarfjarðar við Herjólfsgötu.

07-08 056w.jpg

31. maí - 2. júní: Skorradalur

Helgarferð.  Hjólað í kring um Skorradalsvatnið á laugardegi, gisting og nánari útfærsla ákveðin síðar.  40 km hringur, nokkuð auðveld hjólaleið, en á smá kafla þarf að leiða hjólin yfir grýttan mel.  Þessa leið má finna í Hjólabók Ómars Smára, Vesturland.

14. - 16. júní.  Snæfellsnes norðanvert

Hjólaðar verða tvær dagleiðir, um Berserkjahraun og Vatnaleiðin, gamla og nýja.  Gist á tjaldsvæðinu við Stykkishólm.  Farið í sund eftir átökin á laugardegi.

07-22 166w.jpg

12. - 14. júlí: Kerlingafjöll - Setur

Helgarferð með trússi. Mjög krefjandi fjallahjólaferð. Farið á föstudagskvöldi upp í Gíslaskála í Svartárbotnum á Kili. Hjólað fyrri daginn frá Gíslaskála upp í Kerlingafjöll. Þaðan norður fyrir Kerlingafjöll að skálanum Setur undir Hofsjökli um 45 km leið. Seinni daginn hjólað niður með Þjórsá í Gljúfurleit langleiðina niður í Hólaskóg, allt að 90km. Falleg, mjög krefjandi hjólaleið um sanda, hraun, gróðurvinjar og árvöð.

Kerlingafjöll

26. - 28. júlí: Þakgil og Þjórsárdalur

Ekið til Víkur, þaðan sem ferðin hefst frá tjaldsvæðinu, rangsælis 40 km hring upp af bænum.  Áð í Þakgili, síðan hjólaður stuttur spotti eftir árfarvegi Kerlingardalsár, landslagið er ákaflega fallegt á þessum slóðum, eins og bakgarðurinn á Þórsmörk.  Gist á vel búnu tjaldsvæði í Vík.  Næsta dag verður hjólað í Þjórsárdalnum, 20-40 km leið, fer eftir veðri, vindum og ástandi ferðalanga, hvaða dagleið verður fyrir valinu, en ekki ólíklegt að kíkt verði í Gjána eða hjólað í gegn um Þjórsárdalsskóg.

IMG_7640w.jpg

11. ágúst: Uxahryggir - Dagsferð

Farið verður á bílum að þjónustumiðstöðinni við Þingvallavatn.  Þaðan verða fólk og reiðhjól trússuð upp eftir Uxahryggjavegi, þar verður hjólað fjarri almannaleiðum, og svo hjólað niður að þjónustumiðstöðinni og snæddur ís áður en fólk fer aftur í bæinn.

IMG_7828w.jpg

23. - 24. ágúst: Landmannalaugar - Hella

Vinsælasta hjólaferðin okkar undanfarin ár.  Endanleg útfærsla þetta árið liggur ekki fyrir, kannski verður farið uppeftir á föstudagskveldi og hjólað á laugardegi niður í Dalakofann, Krátatindsleið eða einhver önnur leið hjóluð að þessu sinni.  Frá Dalakofa er svo hjólað niður að Hellu, skellt sér í sund og að því loknu keyrt í bæinn.

08-25 205w.jpg

20. - 22. september: Þórsmörk - haustlitaferð.

Hjólað inn í Bása og gist þar í skála Útivistar, farangur verður trússaður inneftir.

 

Myndir: Páll Guðjónsson, Hrönn Harðardóttir og Jón Örn Bergsson.
Ath. Myndum er raðað af handahófi og eiga ekki endilega við ferðina næst viðkomandi mynd.