radstefna.jpgFramundan er hjólaráðstefnan; Hjólum til framtíðar 2012; rannsóknir og reynsla. Hún verður haldin í Iðnó 21. september frá kl. 9 - 17.

Í ár leggjum við áherslu á það sem efst ber á baugi í heimi hjólavísindanna og reynslu þeirra sem hafa eflt hjólreiðar í sínu nærumhverfi.

Til landsins koma virtir vísindamenn með fyrirlestra m.a. frá Bretlandi og Finnlandi. Einnig verða innlendar hjólatengdar rannsóknarniðurstöður og rannsóknir kynntar auk þess sem farið verður yfir reynslu einstaklinga, fyrirtækja og sveitarfélaga af eflingu hjólreiða.

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra, Jón Gnarr borgarstjóri og Dr. Ari Kristinn Jónsson rektor HR munu ávarpa ráðstefnuna. Þorsteinn Hermannsson samgönguverkfræðingur, verður fundarstjóri dagsins.

Þetta er önnur ráðstefna Hjólafærni á Íslandi og Landssamtaka hjólreiðamanna sem haldin er í Evrópsku samgönguvikunni. Á síðasta ári héldum við Hjólum til framtíðar og nú er það Hjólum til framtíðar 2012; rannsóknir og reynsla. Á næsta ári, 20. sept. 2013, verður það Hjólum til framtíðar 2013; réttur barna til hjólreiða.

Hjólum til framtíðar 2012; rannsóknir og reynsla, er samvinna fjölmargra aðila. Hjólafærni á Íslandi og Landssamtök hjólreiðamanna vinna ráðstefnuna í góðri samvinnu við Reykjavíkurborg, Vegagerðina, Landlæknisembættið, Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og fleiri góða aðila.

Skráning á ráðstefnuna er hér; Hjólum til framtíðar 2012; skráning.

Sjá nánar á vef Landssamtaka hjólreiðamanna: Hjólað til framtíðar .