Á haustin hefjast haustútsölur í reiðhjólaverslunum og þar má gera góð kaup á reiðhjólum og fylgihlutum þeirra, og hjólafatnaði ýmisskonar. Haustið er nefnilega rétti tíminn til að kaupa sér reiðhjól, þá eru þau ódýrust. Ekki er þó ráðlegt að kaupa hjól handa börnum á haustin, því hjól sem passar barninu í haust getur verið of lítið næsta vor.

Og það eru ekki bara verslanir hérlendis sem bjóða haustafslátt á vörum sínum, það er einnig gert erlendis. Nýjasti verslunarmáti hjólreiðafíkla er póstverslun gegnum internetið. Þannig er, að ýmsar þær vörur fyrir hjólreiðafólk sem sjá má í erlendum tímaritum, eru ófáanlegar í reiðhjólaverslunum hérlendis. Oftast reynist ekki markaður fyrir ákveðna vöru, það eru einfaldlega of fáir kaupendur að einhverjum sérvarningi. Stundum er þó hreinu áhugaleysi verslunareigenda um að kenna, þeir vilja selja okkur eitthvað sem við viljum ekki kaupa.

Þá er í mörgum tilfellum hægt að fá vöruna erlendis frá, yfirleitt með skömmum fyrirvara, þökk sé nútíma póstþjónustu, og stundum ódýrari en ef hún hefði verið pöntuð gegnum verslun hérlendis. Það eina sem þarf, er aðgangur að tölvu með internettengingu, og ekki sakar að eiga kreditkort. Greiðsla með þeim er fljótari og ekki síður öruggari en póstávísun. Munið bara að reikna toll, vörugjöld og virðisaukaskatt inn í vöruverð áður en pantað er.

Dæmi um góða vefslóð fyrir þá sem áhuga hafa á hverskonar útivist og hreyfingu er: www.rei.com  R-E-I er skammstöfun fyrir Recreational Equipment International, sem á íslensku mætti þýða sem heimsverslun með útivistarbúnað. Á þessari vefsíðu er hægt að slá inn leitarorð yfir hinn fjölþætta búnað er tengist útivist, og fá upplýsingar um ýmsa framleiðendur, vörumerki og verð. Ég hvet allt útivistarfólk sem hefur tök á að skoða Vefinn að kíkja endilega á þessa heimasíðu.

 

Foreldraröltið

Ein er sú starfsemi sem hefst með skólabyrjun og kallast foreldraröltið eða foreldra-gæslan, og er oftast skipulagt í samvinnu við félagsmiðstöðvar eða skóla. Foreldraröltið er nokkurskonar eftirlitsgönguferðir lítilla hópa eða hóps foreldra um eigið hverfi eða bæjarhluta. Markmiðið með foreldraröltinu er að hafa auga með útivist barna og þó einkum unglinga, að kvöld og næturlagi.

Foreldraröltið hefur marga góða kosti, auk þess að ná góðu sambandi við börnin og unglingana, þá veitir það fólki tækifæri til að kynnast nágranna sínum og er auðvitað kjörið tækifæri til hreyfingar og útivistar. En ég tel að það megi bæta foreldraröltið enn frekar, með því að nota reiðhjól í bland við hesta postulanna. Kostir þess að nota reiðhjól við foreldraröltið, eru þeir sömu og reiðhjólalöggan hefur umfram hina gangandi eða akandi löggæslu. Maður kemst hraðar yfir á reiðhjóli en gangandi, fer því yfir stærra svæði á sama tíma en væri maður gangandi. Og betri yfirsýn næst yfir það svæði sem farið er um, en ef setið væri í bíl.

Svona kvöldhjóltúr með foreldraröltinu er líka afar holl hreyfing, við erum að nota aðra vöðva en við göngu og áreynsla er einnig minni á liðamót. Því er rólegur hjóltúr góð hreyfing fyrir þá sem setið hafa á skrifstofunni allan daginn, sem og slökun fyrir hina sem þurfa ganga eða standa við vinnu sína.

Heit sturta og kakóbolli fullkomna svo sæluna að loknum kvöldhjóltúrnum. En nú fer vetur að nálgast. Er þá ekki alveg ómögulegt að vera hjólandi? Nei , slíkt þarf ekki að vera.

Heimir H. Karlsson.

 

© Hjólhesturinn 3.tlb. 8.árg. 1999