Örlygur Fjallahjólaklúbburinn stígur nú á bak hinum þæga en viljuga Hjólhesti í þriðja sinn í ár og kennir ýmissa grasa nú sem fyrr. Ferðasögur í blaðinu eru í algleymingi og tæknimálin fá sinn sess að ógleymdum greinum um samgöngur á reiðhjólum. Allt þetta stuðlar vonandi að auknum hjólreiðum, en það er einmitt markmið klúbbsins samkvæmt lögum félagsins. Nóg um það.

Á liðnu starfsári klúbbsins var líf í tuskunum, farnar voru ferðir út á land, yfir Heljardalsheiði og um Veiðivötn auk þriðjudagsferðanna innan höfuðborgarsvæðisins. Í klúbbhúsinu við Brekkustíg sló hjarta klúbbsins hvern einasta fimmtudag þar sem voru haldin námskeið, fyrirlestrar, kynningar og fleira. Að öðrum ólöstuðum hljótum við sérstaklega að geta fyrirlesturs Jóns Björnssonar um hjólaævintýri sín erlendis. Húsfyllir var á baðstofuloftinu og nýja kaffivélin sem keypt var í vetur fékk að vinna fyrir tilverurétti sínum. Á milli formlegra dagskrárliða á fimmtudögum var opið hús með viðgerðaraðstöðunni og til viðbótar var opið hvern dag í maí, er átakið Hjólað í vinnuna fór fram og leituðu margir aðstoðar klúbbsins vikuna þá. 

Þess skal og getið með sérstaklega mikilli ánægju að útgáfustarfsemi klúbbsins var með óvenjumiklum blóma á liðnu starfsári því að gefinn var út Hjólhestur ásamt fræðslubæklingnum  Hjólreiðar - frábær ferðamáti, í samstarfi við Landssamtök hjólreiðamanna. Bæklingurinn var gefinn út til þess að hvetja fólk til hjólreiða og fræða það um hvernig öruggast og þægilegast væri að stunda hjólreiðar. Var blaðinu dreift í hvorki fleiri né færri en 8 þúsund eintökum um land allt og sent til allra sem hafa skráð sig í klúbbinn frá upphafi.

Af öðrum vettvangi hjólreiða¬menningar¬innar má nefna að könnun á vegum Reykjavíkur¬borgar leiddi nýverið í ljós að 2,2% borgarbúa fara sinnar leiðar á hjóli og þykir okkur ljóst að þetta hlutfall mætti vera mun hærra. Áfram þarf því að hvetja fólk til að nýta sér hjólin og standa áfram að öflugri fræðslu þar sem hindurvitnum er eytt en staðreyndum haldið til haga.  

Nokkur áhugaverð útspil komu frá Reykjavíkurborg s.s. Hjólreiðaáætlun og framkvæmdaáætlun um að leggja 10 km af hjólaleiðum á ári næstu 3 ár. Tilraunaverkefnið með grænu hjólareinina upp Hverfisgötu var hluti af undirbúningi þeirrar framkvæmdar og fyrsta varanlega hjólareinin er komin eftir hluta Suðurgötu þar sem er einstefna fyrir önnur ökutæki. Einnig leit fjallahjólavangurinn í Skálafelli dagsins ljós og vill ÍFHK nota tækifærið hér til að óska hjólafólki og aðstandendum verkefnisins til hamingju með árangurinn. Umfjöllun um Skálafellið er í blaðinu.

Nú er vetur nýgenginn í garð og um leið og við óskum ykkur ánægjulegs lestrar, hvetjum við alla til að nota hjólin í vetur. Sífellt fjölgar þeim sem uppgötva óviðjafnanlega gagnsemi nagladekkja og að viðbættu jákvæðu hugarfari og góðum hjólaljósum eru okkur allir vegir færir.

 

[issuu layout=http%3A%2F%2Fskin.issuu.com%2Fv%2Flight%2Flayout.xml showflipbtn=true documentid=101101033203-7750a783e1cd456d90a7de857c9fea49 docname=2010-3-uppkast username=fjallahjolaklubburinn loadinginfotext=Hj%C3%B3lhesturinn%2019.%20%C3%A1rg.%203.%20tbl.%20n%C3%B3v.%202010 showhtmllink=true tag=cycling width=550 height=426 unit=px]