Sesselja TraustadóttirVor 2010, skólar á höfuðborgarsvæðinu, hraustir krakkar, fallegt land og skemmtilegar ferðaleiðir. Vegna alls þessa ákváðu Hjólafærni á Íslandi og SEEDS að bjóða öllum unglingadeildum á höfuðborgarsvæðinu að hjóla með í vorferð í Bláfjöll árið 2010.

Hjólreiðar hafa verið stundaðar á Íslandi í meira en 100 ár en upp úr miðri síðustu öld lögðu skipulagsyfirvöld ofuráherslu á notkun einkabílsins í landinu og fólkið gleymdi að hjóla. Sem betur fer hefur eitthvað gerst í hugum fólks. Nú fjölgar daglega þeim lífsglöðu Íslendingum sem átta sig á því hversu frábært farartæki hjólið er. Og fyrir heilbrigða og hrausta krakka er fátt meiri áskorun en ánægjuleg hjólaferð, t.d. tveggja daga skálaferð í Bláfjöll þar sem hjólað er um fegurstu útivistarsvæði höfuðborgarsvæðisins; Elliðaárdal, Heiðmörk, Lækjarbotna, Bláfjöll, Tvíbollahraun og um Hvaleyrarvatn.

Tímanlega fyrir ferð verða skólarnir heimsóttir; farið vandlega yfir ástand hjólsins og rætt um atriði eins og að hjóla í hóp, útbúnað, ábyrgð og skyldur hjólreiðamanna. Svo verður lagt í hann árla dags; áð á nokkrum stöðum; heitt súkkulaði í Heiðmörk og hádegissnarl í Lækjarbotnum. Hækkun í landslaginu verður um 200 m og leiðin í Bláfjöll er tæpir 40 km. Heimleiðin er aðeins lengri; lækkun hröð en töluvert hjólað á malarvegi! Þá liggur leiðin um

Tvíbollahraun með áningu við Hvaleyrarvatn. Svo fer það eftir legu skólanna hvort farið er eftir strönd höfuðborgarsvæðisins eða fundin önnur leið heim á skólalóð. Ferðin kostar aðeins 2.500 kr. fyrir hvern nemanda og í fyrstu bókunarviku voru pöntuð 300 af þeim 800 plássum sem í boði eru í 10 ferðum.
Breiðablik, hjólaverkstæðið Kría, Waldorfskólinn í Lækjarbotnum og Skógrækt Reykjavíkur eru einnig á meðal þeirra sem standa að skipulagi ferðanna. Allar nánari upplýsingar eru á www.hjolafaerni.is

 

Ævintýraklettur

 

Ævintýraklettur á miðri leið; heilt ævintýr sem flestir hafa ekið fram hjá án þess að kanna hversu magnaður hann er.

 

Hjólafærni á Íslandi
 
Seeds

 

Birtist fyrst í Hjólhestinum, fréttabréfi ÍFHK mars 2010.