Ársþing LHM var haldið fimmtudaginn 25. febrúar í húsnæði Fjallahjólaklúbbsins að Brekkustíg 2. Dagskrá var hefðbundin samkvæmt lögum félagsins. Fundargerð verður sett á vef LHM.

Meðal annars kynnti Morten Lange formaður ársskýrslu stjórnar og lagðir voru fram endurskoðaðir reikningar fyrir LHM og verkefnið Hjólafærni.

Gerðar voru nokkrar lagabreytingar. Breytingarnar eru kynntar á vef LHM ásamt nýjum lögum.

Ný stjórn var kjörin. Stjórnin skipti með sér verkum á fyrsta fundi sínum. Hana skipa Árni Davíðsson formaður (ÍFHK), Ásbjörn Ólafsson varaformaður (ÍFHK), Guðný Katrín Einarsdóttir ritari (ÍFHK), Haukur Eggertsson gjaldkeri (Hjólamenn) og Arnaldur Hilmisson meðstjórnandi (HFR). Varamen voru kjörnir Morten Lange frá­farandi formaður og Magnús Bergsson. Stjórnin og verkefnisstjórar eru kynntir á vef LHM.
Páll Guðjónsson kynnti endurskoðað stefnumótunarskjal. Það var rætt nokkuð og gerðar smávægilegar athugasemdir og efnisatrið skjalsins samþykkt. Samþykkt var sérstök ályktun ársþingsins. Allt er þetta birt á vef samtakanna.
Árni Davíðsson kynnti hugmyndir að nokkrum starfsnefndum og gátu menn skrifað sig á blað til þáttöku í þeim.

Starfsnefndir LHM

Á Ársþingi LHM skráðu menn sig til starfa í starfsnefndir. Með starfsnefndum er reynt að virkja fleiri til starfa innan LHM og dreifa ábyrgð og störfum á fleiri. Þetta er lýðræðislegt fyrirkomulag.
Oft hefur viljað brenna við að mál koma upp skyndilega og hefur stjórn LHM þá þurft að bregðast við og láta önnur mál bíða og frestast. Starfsnefndirnar eiga að vinna í haginn fyrir samtökin og ná frumkvæðinu í sínum verkefnum. Vonandi eiga mál síður eftir að daga uppi með þessu fyrirkomulagi og betri tími að gefast fyrir stefnumótun og að stefnufesta samtakanna að verða meiri.
Starfsnefndirnar eiga ýmist að vinna að tímabundnum verkefnum eða hafa umsjón með langtímaverkefnum. Þótt allar starfsnefndirnar séu ekki virkjaðar eru þær gagnlegt yfirlit yfir þau verkefni sem stjórnin hefur verið að fást við. Á fyrsta fundi stjórnar var ákveðið að virkja eftirfarandi starfsnefndir.

1.    Tímabundin starfsnefnd um gerð lausna eða staðla fyrir reiðhjól.
Á að útbúa samantekt um mögulegar lausnir fyrir reiðhjól til samgangna í íslensku umhverfi í þéttbýli og dreifbýli.
Einnig að gera verklagsreglur um val á lausnum og útbúa samantekt um annan aðbúnað, s.s. hjólastæði.
Vegagerðin vinnur nú að gerð staðla/leiðbeininga um lausnir fyrir hjól og mun hlutverk nefndarinnar því hugsanlega vera að koma sjónarmiðum LHM að og tryggja að mikilvæg atriði gleymist ekki.
2.    Tímabundinn starfsnefnd um legu hjólaleiða á höfuðborgarsvæðinu.
Á að útbúa leiðakerfi fyrir reiðhjól sem nær yfir allt höfuðborgarsvæðið með stofnbrautum fyrir hjól auk tengibrauta.
3.    Föst starfsnefnd um einstakar framkvæmdir og skipulagstillögur.
Á að halda utan um og annast afgreiðslu á umsögnum og tillögum LHM við einstakar framkvæmdir og skipulagstillögur. Gert er ráð fyrir að margir verði í þessari nefnd og að menn vinni í teymum.
4.    Ferðaþróunarnefnd.
Á að vinna að framgangi hjólreiða í ferðaþjónustu.

Beðið var með ákvörðun um fræðslu­nefnd, alþjóðanefnd, ritnefnd og slysanefnd enda voru ekki nægilega margir skráðir til að setja þær í gang. Verkefnin eru þó ekki gleymd og unnið að mörgum þeirra. Ákveðið var að stefnumótunarnefnd yrði ekki sett á laggirnar enda yrði það verkefni stjórnar að móta framtíðarstefnu LHM.
Starfsnefndirnar verða betur kynntar á vef LHM: lhm.is. Enn vantar fólk í þær svo þeir sem hafa áhuga geta skráð sig í nefnd að eigin vali.

Birtist í Hjólhestinum, fréttabréfi ÍFHK, mars 2010