Þetta er nýja klúbbhúsið okkar að Brekkustíg 2 á horni Framnesvegar.  Við fengum húsið afhent 25. mars og var það ekki í góðu ástandi, vægt til orða tekið, rétt fokhelt. Þar sem allar breytingar verða að fást samþykktar í Bygginganefnd Reykjavíkur hefur Gunnlaugur Jónasson arkitekt séð um öll mál sem viðkemur þeirri nefnd og teikningum sem við þurfum að leggja fram.

Gísli Haraldsson, einn af stofnendum klúbbsins, hefur haft yfirumsjón með allri smíðavinnu og reyndar unnið hana að stórum hluta sjálfur. Hann hefur sett dyr á stóru bílskúrshurðina sem var, sett upp salernisaðstöðu, smíðað stiga upp á loftið og er enn að.

Halldór Garðarsson vann alla pípulagningavinnu og gaf okkur þar að auki pípulagningaefni fyrir 70.000kr og gerðu klúbbmeðlimir honum smá greiða í staðinn og yfirfóru og þrifu hjól sem hann notar í hjólaferðirnar sem hann býður upp á. En hann sér reyndar um flestar stærri hjólaferðir erlendra ferðahópa hérlendis.

Einnig hefur fólk verið duglegt að mæta í smíðavinnu, taka til, mála, brjóta upp gólfið fyrir frárennslisrörin og steypa aftur yfir, slétta gólfið uppi, brjóta upp fláa í gólfinu, leggja rafmagn og koma með græjur til að háþrýstiþvo, keyra burtu drasli, ryksuga og yfirleitt græjur til að vinna með.

Öllu þessu vaska liði viljum við þakka kærlega fyrir frábært framlag í þágu klúbbsins og láta það um leið vita að allar þær stundir sem í þetta hafa farið eru fyrir gott málefni og klúbb sem verður öflugri með hverju árinu.  Skoðið hér myndir af húsinu eins og það var þegar við tókum við því og svipmyndir af uppbyggingunni þar og fyrstu myndirnar eftir að við komum okkur fyrir á efri hæðinni

Það voru uppi miklar efasemdir um staðsetningu þessa húss og verður að segjast eins og er að staðsetningin gæti verið betri en mikið var búið að leita og þetta er það besta sem var í boði, enda virðist þetta geta orðið framtíðarhúsnæði en ekki bráðabirgðalausn. Það er nefnilega mikið rask og umstang við að þurfa að standa í stöðugum flutningum. Svo er bara spurning hvort við ættum að reyna að opna útibú og hverfadeildir víðar um höfuðborgarsvæðið, Breiðholt, Hafnarfirði, Mosfellsbæ...?

Þegar húsið verður komið í topp stand eru uppi hugmyndir um öflugra unglingastarf innan klúbbsins t.d. með opnu húsi á laugardagseftirmiðdögum þegar fólk er ekki að hugsa um heimavinnu og uppáhalds sjónvarpsþættina sína en það náðist ekki að skipuleggja það fyrir þetta sumar.

Vorhefti Hjólhestsins fór í póst 1. júní og hér sést vaskur hópur vera að pakka honum niður.

Við gerðum þetta heima hjá formanninum í þetta skiptið. Páll prentar límmiðana og Alda var með stórglæsilegar veitingar, enda kann hún fleira fyrir sér en að stýra klúbbnum.

 

Það er að koma sumar og fólk verður þá á faraldsfæti eða -hjóli. Mestur kraftur klúbbsins hefur farið í klúbbhúsið og Hjólaþingið í vor, sem tókst mjög vel.

Fjáröflunar- og kynningarnefndin sem hefur staðist væntingar, safnað augýsingum og kynnt klúbbinn víðsvegar, t.d. á fjölskyldudögum í Perlunni, tveimur ráðstefnum í Ráðhúsinu, baráttufundi Hálendishópsins í Háskólabíó og víðar.

Ritnefndin hefur komið Hjólhestinum til ykkar og Páll Guðjóns hefur verið mjög duglegur að koma öllum nýjustu fréttum klúbbsins á heimasíðuna okkar. Einnig vann hann bækling sem dreift var á Hjólaþinginu og sýnir ástand stígakerfis höfuðborgarinnar og ákveðinnar neikvæðrar þróunar sem hefur orðið þar í sambandi við stórframkvæmdir. Þetta efni má skoða á heimasíðunni ásamt myndum af nokkrum lagfæringum sem komu strax í kjölfar ráðstefnunnar. T.d. er nú búið að merkja framkvæmdasvæðið við mislægu gatnamótin sem er verið að smíða við Miklubraut og opna leiðirnar undir Gullinbrú.

Svo vonum við að Ferðanefndin hafi komið með einhverjar ferðir sem henta ykkur félagar góðir. Skoðið hér dagskrána og meira um ferðirnar

Það má segja að þessi grein hafi verið smá dagbók klúbbsins þó að allt sé þetta á heimasíðunni okkar. Þið vitið þá hvað búið er að gera, þið sem ekki hafið séð framkvæmdir og það er alveg orðið óhætt að heimsækja nýja klúbbhúsið að Brekkustíg 2

Fyrir hönd stjórnar ÍFHK
Alda Jóns