Fimmtudaginn 10 sept. var haldið svokallað kompukvöld sem heppnaðist vonum framar. Markmiðið er eins og áður hefur komið fram að félagsmenn og aðrir geti komið með hjólagræjur af öllum toga og selt eða skipt. Rúnar í Markinu kom með landburð af allskonar dóti allt frá dekkjum til dempara og allt þar á milli. Það var mikið gramsað og pælt og seldist víst meginþorrinn af öllum dásemdunum. Arnaldur stóð styrkur á kantinum með rjúkandi eðalkaffi sem hann töfraði fram úr himinblárri kaffivél. Nokkuð var um viðgerðir á reiðhjólum á neðri hæðinni og er alltaf nóg af höndum til þess að aðstoða við stórt eða smátt. Margt spennandi er á döfinni m.a. undirbúningsnámskeið fyrir vetrarhjólreiðar þar sem verður farið ítarlega í val á nagladekkjum, ljósum, fatnaði og fleira...fylgist því vel með á næstunni.