Samgöngusamningar  - Breyttar reglur fyrir 2019

Það er ekki bara gott fyrir heilsuna og umhverfið að hjóla í vinnuna það er líka gott fyrir budduna. Og til að hvetja fólk ennfrekar til að hvíla bílinn er hægt að semja um aukagreiðslur frá vinnuveitanda allt að hámarki samtals 8.000 kr. á mánuði og fá borgað fyrir að hjóla í vinnuna. Af 8.000 kr. launum fara um 3.000 kr. vanalega í skatt en beint í þinn vasa með þessu fyrirkomulagi.

Skilyrði er formlegur samningur milli launagreiðanda og launþega um nýtingu á almenningssamgöngum eða vistvænum ferðamáta vegna ferða launþegans til og frá vinnu sinnar og/eða vegna ferða í þágu launagreiðanda. Nýting slíks ferðamáta þarf að vera sem nemur a.m.k. 80% af heildarfjölda ferða fyrir 8.000 kr. hámarkið eða 4.000 kr. á mánuði nemi vistvænar ferðir a.m.k. 40% af heildarfjölda ferða, og er það nýtt ákvæði fyrir 2019. 

Með vistvænum samgöngumáta er átt við að nýttur sé annar ferðamáti en með vélknúnum ökutækjum samkvæmt skilgreiningu umferðarlaga, t.d. reiðhjól eða ganga.

Vinnuveitandinn hagnast líka á þessu fyrirkomulagi bæði í fækkun veikindadaga starfsmanna og minni þörf á dýrum bílastæðum fyrir starfsfólk.

Sjá samantekt á vef Landssamtaka hjólreiðamanna ásamt uppkasti að samning sem má hafa til hliðsjónar: lhm.is/samgongusamningar

Páll Guðjónsson

Birtist fyrst í Hjólhestinum, mars 2019.

Mynd: Designed by Freepik