Núna í vetur standa Landssamtök hjólreiðamanna fyrir verkefni þar sem sjálfboðaliðar telja reiðhjól við grunnskóla og framhaldsskóla landsins. Af því tilefni óska samtökin eftir þátttöku almennings í verkefninu.

Markmið verkefnisins er að safna upplýsingum um hjólreiðar í skólum um land allt. Einnig að kanna aðstöðu til hjólreiða og áhrif veðurs og færðar á hjólreiðar barna í grunn- og framhaldsskólum. Þessar upplýsingar eru í dag hvorki til fyrir landið né fyrir flest sveitarfélög. Það er í raun mjög lítið vitað um hjólreiðar barna og engar ferðavenjukannanir hafa verið gerðar fyrir landið allt.

Tölfræðilegar upplýsingar verða teknar saman um þessi mál og birtar á vef Landsamtakanna og vísað til þeirra í umfjöllun samtakanna. Þær verða líka aðgengilegar öllum sem vilja fjalla um þetta málefni.

Nú þegar hefur verið talið í 40 skólum um land allt, í flestum oftar en einu sinni. Samtals hefur verið talið í 90 skipti. Meðalfjöldi reiðhjóla í skólum í þessum 90 talningum voru 45 hjól en miðgildið var 21 hjól. Hámarksfjöldi talin í einum skóla voru um 210 hjól í Langholtsskóla í Reykjavík 2. september 2016 en þar eru nemendur um 640 í 1.-10. bekk, sem þýðir að þriðjungur nemenda komu á reiðhjólum í skólann þann dag. Árstíðasveiflur og áhrif veðurs á hjólreiðar sjást líka mjög vel í mörgum skólum. Í Nesskóla í Neskaupstað þar sem eru 210 nemendur voru 40 reiðhjól 5. október en 3 reiðhjól 19. desember eins og sjá má á meðfylgjandi línuriti.

Við hvetjum alla sem vilja leggja verkefninu lið að taka þátt. Núna er að koma sá árstími þegar hjólreiðar aukast á ný eftir hálku, snjó og vetrarveður og verður gaman að fylgjast með næstu mánuði. Til að taka þátt má einfaldlega nota þennan tengil: Reiðhjól talin við skóla.

Gott er ef sjálfboðaliðar telja a.m.k. einu sinni í mánuði og það er allt í lagi að byrja núna á vormánuðum. Grunnupplýsingar eins og nemendafjölda og fjölda hjólastæða þarf bara að skrá einu sinni fyrir hvern skóla. Skólum og framhaldsskólum er að sjálfsögðu velkomið að taka þátt eða hafa samband. Saman getum við safnað mikilvægum upplýsingum um hjólreiðar barna og haft áhrif á það að börnin okkar fái að tileinka sér þennan holla og skemmtilega lífsstíl. Þá er skemmtilegt að setja myndir af reiðhjólum við skóla á samfélagsmiðla eins og Twitter, Instagram eða Facebook með myllumerkinu #reiðhjólviðskóla og #samgönguhjólreiðar.

Nánari upplýsingar:
Póstfang LHM: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
Heimasíða LHM: www.lhm.is

*Birtist fyrst í Hjólhestinum mars 2017