Um áramótin voru felldir  niður tollar á varahlutum fyrir reiðhjól. Sömuleiðis féllu niður tollar á fatnaði og skóm, þar á meðal sérstökum fatnaði og skóm fyrir reiðhjólamenn. Tollar á varahlutum í reiðhjól hefðu þó ekki fallið niður núna um áramótin nema vegna þess að fulltrúi í nafni Landssamtaka hjólreiðamanna, Arnaldur Gylfason félagi í Fjallahjólaklúbbnum fór á fund í fjármálaráðuneytinu haustið 2014 og óskaði eftir niðurfellingu tolla á varahlutum. Hann fékk góðar viðtökur í ráðuneytinu.

Frá 1. mars 2013 hafa reiðhjól verið tollfrjáls. Rafmagnsreiðhjól undanþegin gerðarviðurkenningu fyrir ökutæki eru einnig tollfrjáls en það eru rafmagnshjól sem þarf að stíga til að fá afl úr rafmótor en sem hætta að gefa afl við 25 km hraða. Ljós fyrir reiðhjól hafa verið tollfrjáls í nokkurn tíma.

Það er ljóst að niðurfelling tolla skiptir talsverðu máli fyrir þá sem setja saman sín hjól sjálfir og fyrir þá sem nota reiðhjól mikið. Þrátt fyrir fjölgun þeirra sem nota reiðhjól til samgangna og æfinga hefur fjöldi seldra reiðhjóla  ekki aukist undanfarin ár. Sala á varahlutum, íhlutum og allskonar fatnaði  hefur stóraukist á sama tíma. Ljóst er að margir þeirra sem hjóla búa sig betur á allan hátt og halda hjólum sínum vel við. Þetta getur verið umtalsverður kostnaður hjá sumum.

Hjólhesturinn 25. árg. 1. tbl. mars. 2016