"Það er fullt af konum sem hjóla af alvöru og þær þurfa góð hjól." sagði Georgena Terry og sló hnefanum í borðið þegar konur fóru að sækja hana heim og kvarta yfir hjólum sem pössuðu illa og meiddu. Hún stóð við orð sín og hóf framleiðslu á hjólum sérsniðnum þörfum kvenna. "Fertug kona með hnakk sem meiðir vill ekki tala um það við 16 ára afgreiðslustrák, og hann vill ekkert heyra um slíkt."

 

Terry Precicion

Á markaði með vörum eins og Horneez (stýrisendar sem líkjast getnaðarlimum) og The hand job (barkafesting löguð sem hönd að rúnka barkanum) sker Terry Precision Cycling for Women sig úr hópnum.

Í stað "rífum og tætum" slagorða kynnir Terry vörur sínar með svona texta; "Blómin munu ilma betur... þau taka eftir breytingunni í vinnunni... keðjuhlekkir í stað perla. Þú munt fyllast orku - auka við sjóndeildarhring þinn og fyrirtækisins þíns. Launabónusinn hjálpar til við að fjármagna ævintýralegt hjólaferðalag í Chile þar sem framandi fararstjórinn (helmingi yngri en þú) heillast af kálfunum þínum."

Terry Precicion er trúlega fyrsta fyrirtækið sem einbeitir sér aðallega að framleiðslu hjóla og fylgihluta sérsniðna að þörfum kvenna. Fyrirtækið var stofnað 1986 og er hugarfóstur Georgena Terry. Hún er nú 45 ára með gráðu í verkfræði, hafði gott starf hjá Xerox, elskaði hjólreiðar, var heilluð af logsuðu og dreymdi um að verða eigin herra.

Hún yfirgaf öruggan starfsframann í stórfyrirtækinu og lærði að smíða hjólastell í kjallaranum heima hjá sér. Konur fóru að sækja hana heim og kvörtuðu yfir hjólum sem pössuðu illa og meiddu. Meðan önnur fyrirtæki hundsuðu konur eða hentu saman málamynda "kvenhjólum" sem voru bara smækkuð karlahjól, sá Terry markaðstækifæri og Terry Precision varð til.

Helsta auðkenni Terry er götuhjól með 24 tommu framdekk og venjulegt 26 tommu afturdekk. Það er hannað svo konum, sem eru gjarnan styttri en karlar, finnist þær ekki of teygðar. Terry hjól eru ekki fyrir alla - sumum líkar ekki hvernig hjól með lítið dekk lætur að stjórn - en fyrir aðra er þetta bænheyrn.

Hjólin hennar koma með hlutum eins og stuttum stýrisstömmum og sveifum og sérstök stýri fyrir smáar hendur.

Nýlega fór Terry líka að framleiða fatnað fyrir konur sem eru ekki eins og hönnuð af karlmanni á fullkominn þríþrautarkropp draumadísarinnar sinnar. Hún framleiðir einnig sérsniðna og fóðraða kvenhnakka sem seljast grimmt.

Helsta hindrun Terry eru hjólaverslanir. Hún hefur um 2200 umboðsmenn í Bandaríkjunum en af þeim hafa aðeins 100 hjólin hennar á lager og um 300 fötin. "Starfsfólkið er oft bara ungir krakkar sem eru of óreyndir fyrir viðskiptavinina," segir Terry. "Fertug kona með hnakk sem meiðir vill ekki tala um það við 16 ára strák, og hann vill ekkert heyra um slíkt."

"Það er auðvelt að selja Terry hjól," segir Patti Breher sem rekur hjólreiðaverslun. "Sum hjólafyrirtæki reyna að svara þörfum kvenna, en þau ganga ekki jafn langt. Til dæmis sé ég stundum stutta stöng á stellinu en svo langan stýrisstamma og karlahnakk."

En áhrif Terry eru víðtækari en sölutölur sína. Með því að standa sig í samkeppninni og blómstra hefur hún sannað að það er markaður fyrir vörur sérsniðnar þörfum kvenna og neytt aðra til að gera meira fyrir konur en að sína smá lit.

"Ég man þá tíð að einu valkostir kvenna voru sérsmíðuð hjól eða að troða öllum sætispóstinum niður í stellið," rifjar gamalreyndur blaðamaður upp.

"Að þjóna konum sérstaklega var brandari. En Georgena Terry sló hnefanum í borðið og sagði, ´Það er fullt af konum sem hjóla af alvöru og þær þurfa góð hjól.´"

Nú eru vörur Terry loksins fáanlegar í a.m.k. einni verslun á Íslandi.

Þýtt úr Bicycling, maí 1996, Páll Guðjónsson.

© Hjólhesturinn 2.tlb. 5.árg. 1996.