Hvernig reiðhjól hentar mér best?


Það vorar og veður batna, margir fara að huga að reiðhjólum sínum, pumpa í dekkin, þurrka rykið, smyrja og fara út að hjóla. Aðrir fara í hjólabúðirnar til að velja sér eða sínum ný reiðhjól. Kemur þá í ljós að mikill frumskógur er þar og erfitt að fóta sig á þeim stígum. Þá eru skoðanir manna afar skiptar á því hvers konar hjól henti hverjum. Grein þessari er ætlað að hjálpa þér við val á réttu reiðhjóli fyrir þig og þína notkun.

Best er að finna út hvar þín notkun mundi helst vera. Aðalega á götum og stígum,til fjalla,í ferðalög, til vinnu, leiks eða í blandaða notkun. Næst væri að átta sig á hversu mikil notkunin muni verða og svo hversu mikla peninga þú vilt nota í hjól.  

Helstu hjólagerðir:
Götuhjól:

Götuhjól eru með hátt stell, oftast 3-7 gírum og eru gerð fyrir reista ásetu svo hjólandinn hafi góða yfirsýn til umferðar og umhverfis. Dekk eru mjó og með tiltölulega sléttu munstri svo þau renni betur á götum og stígum. Þau eru oftast með fótbremsu að aftan og alltaf með handbremsu að framan. Oftast koma þau með brettum, ljósum, bögglabera og breiðum hnakk. Dekkjastærð er yfirleitt 700cc eða 28". Stærð stells er valin með því að standa klofvega yfir stönginni og skal þá vera hægt að koma tveimur fingrum milli stangar og klofs, það eru um það bil 4 cm. Konur geta auðveldlega valið stellstærð á karlastelli þó svo þær kaupi pilsstell.

Fjallahjól:

Fjallahjól eru með lágu stelli, 21-24-eða 27 gíra og gerð fyrir framhallandi ásetu svo hjólandinn hafi góða sýn á stíga og slóða. Í reynd eru gírarnir 7-8 eða 9 og drifin 3 þar sem afturtannhjólin eru gírar en framtannhjólin eru drif. Á flestum fjallahjólum eru handbremsur bæði að framan og aftan, til í ýmsum gerðum. Þó eru til hjól með diskabremsum, mest eru það keppnishjól eða dýrari tegundir. Yfirleitt koma fjallahjól án nokkurs aukabúnaðar og því þarf að bætavið hlutum til hjólin verði löglega búin. Dekk á fjallahjól eru til í mörgum mismunandi gerðum og munstrum, svo sem gróf fyrir fjallaferðir, götumunstruð dekk, nagladekk fyrir veturinn og fleiri munstur. Fullorðins fjallahjól hafa 26" dekkjastærð en stellin geta verið misstór, yfirleitt frá 14" og allt upp í 22". Hæð stells er valin með því að standa yfir stöng á hefðbundnu stelli og skal þá komast hnefi milli stangar og klofs, um það bil 10 cm.  Séu stellin óhefðbundin í laginu má finna rétta stærð á hefðbundnu stelli. Stýri eru oftast bein og lág en rétt breidd þeirra skal vera sem næst axlabreidd hjólandans. Hnakkar eru almennt mjóir og frekar harðir en þeim má skipta út, einnig fást sérstakir kvenhnakkar sem henta ásetu kvenna.

Stígahjól - Hybrid:

Stígahjól eru með stelli sem líkist fjallahjólastelli en er heldur hærra, það er blendingur eða millistig milli götu og fjallahjóla. Það er gert fyrir álútari ásetu en götuhjól en reistari en fjallahjól. Þau eru fjölgíra eins og fjallahjólin en hafa stærri drifhjól(framtannhjól) fyrir meiri hraða á götum og stígum. Oft hafa þau sérstaklega lágan brekkugír (megarange). Dekkjastærð er sem á götuhjólum, handbremsur framan og aftan og góð götumunstruð dekk. Afar mismunandi er hvaða búnaður fylgir.

Mikilvægt er að hjól sé af réttri stærð

Mikilvægt er að hjól sé af réttri stærð fyrir hvern og einn, einnig að hæð sætis, halli þess og fjarlægð frá stýri sé rétt. Sé hjólið og hlutar þess rétt stilltir og stærð hjólsins rétt verða hjólreiðar léttari fyrir líkamann og ánægjulegri.
Auk framangreindra hjóla eru til fleiri gerðir og afbrigði svo sem götu keppnishjól (racer), brunhjól (downhill) og fleiri, en um þau fjalla ég ekki hér.
Í stað þess að kaupa t.d. ódýrt fjallahjól og þurfa svo að aðlaga það bæjarþörfum með kaupum á nýjum hnakk, reistari stýrisstamma og fleiru er heppilegra þegar hægt er að fá hjól tilbúið á götuna og sniðið að þínum þörfum.

Þegar kaup eru gerð og þú færð hjólið afhent skaltu athuga eftirfarandi:

1. Haltu framhjólinu milli hnjánna og athugaðu að ekki sé hægt að snúa stýrisstammanum til hliðar. Stýrisstammi er festing stýris við hjólið.
2. Lyftu hvoru hjóli um sig snúðu því, athugaðu hvort gjörðin strýkst við, sé svo er annaðhvort gjörðin skökk eða bremsurnar rangt stilltar.
3. Taktu í bremsuhandföngin og vertu viss um að bremsupúðarnir nemi báðir við gjörðina, eftir að hafa togað þau inn um 1-2 cm.
4. Taktu í frambremsuna og ýttu hjólinu fram og til baka, smellir og tikk heyrist ef höfuðlegur(HEAD SET) eru ekki fastar, láttu þá festa þær strax.
5. Taktu í bremsuhandföngin og athugaðu hvort stýrisstöngin geti snúist í festingunni eða hvort bremsuhandföngin geti snúist. Það er hættulegt ef laust er.
6. Lyftu afturhjólinu, prófaðu hvort afturskiptir og svo framskiptir færa keðjuna snurðulaust milli tannhjóla. Ef svo er ekki þarf að stilla upp á nýtt.
7. Losaðu sætisfestinguna og athugaðu hvort sætisstöngin færist liðugt upp og niður. Ef svo er ekki þarf að smyrja hana.
8. Kannið hvort pedalarnir (ástigið) sé vel fast á stigsveifunum. Alltaf er öfugur skrúfgangur á vinstra ástigi.
9. Prófaðu að hjóla og athugaðu skiptingar og bremsur. Ískri í bremsum eru þær ekki rétt stilltar. Smyrja þarf reglulega: skipta, keðjur og tannhjól.
10. Mundu eftir hjálmi, lás og bjöllu, bótum og pumpu. Athugið að þrjár gerðir ventla geta verið í slöngum reiðhjóla,venjulegir reiðhjólaventlar, bílslönguventlar (schraeder) og franskir ventlar (presta), margar gerðir af pumpum geta verið fyrir fleiri en eina gerð af ventlum.
Athugið að skipta þarf reglulega um bremsupúða og stilla þá er þeir slitna. Einnig þarf oft að stilla ólar á hjálmum því þær vilja renna til við notkun. Hjálmar skulu vera CE merktir og framleiddir samkvæmt staðli sem heitir EN 1078. Einnig eru hjálmar aldursmerktir.

Til eru þumalputtareglur við stillingar á hæð hnakks og fjarlægð frá stýri:

A. Hæð hnakks, pedalar settir í lóðrétta stöðu, hæl stigið á neðri pedalann og skal fótur þá vera beinn þegar hæð er rétt. Vegna þess að ástig er með tábergi en ekki hæl kemur létt sveigja á hnéð svo átakið verð sem léttast.
B. Fjarlægð frá stýri, pedalar hafðir í láréttri stöðu, stigið á með tábergi (venjulegt ástig) og skal þá vera lóðlína af framanverðu hné í miðjan pedala á fremra fæti.
C. Hnakkur, hnakk má auðveldlega færa fram og aftur, upp og niður. Hver og einn þarf að finna réttan halla er hentar hans ásetu. Athugið að kona á karlhnakki þarf gjarnan að láta hnakknefið halla nokkuð niður.