Matur á ferðalögum 


Mér datt í hug að setja á blað nokkur atriði sem að ég hef lært á mínum ferðalögum. Því að það eru ekki allir til í að lifa á bjúgnakaffi eða súrum bjúgum við að upplifa fegurð landsins okkar (tilvitnun í Magga Bergs).

Ég safna að mér öllum stærðum og gerðum af plastdollum með góðum lokum. Hafið aldrei með ykkur glerílát og helst ekki járndósir. Kaupið mat sem tekur í mesta lagi 10-15 mín að sjóða (núðlur, pasta og hrísgrjón) Margir eru hrifnir af þurrmatnum og brauðinu sem endist endalaust. Þurrkaðir ávextir er góðir sem millimálabitar. Einnig hægt að borða súkkulaði. Drykkir: Ég hef með mér nóg af vatnsbrúsum. Hita vatn í morgundrykkinn og set á lítinn hitabrúsa til að nota um miðjan daginn og notast svo við Sviss miss eða te. Athugið samt að ekki er gott að nota Sviss miss bréfin á löngum ferðalögum því að þau nuddast í sundur. Betra að kaupa stóran dunk og hella yfir í plastdós. Gott að taka með sér orkuduft sem að er hrært út í vatn til að sleppa við að bera með sér vökva. 
Matur: Ég tek með mér í morgunmat rúgbrauð, flatkökur eða annað orkuríkt sem að molnar ekki. Sem álegg er fínt að hafa ost í sneiðum, smurost í túbum, hnetusmjör eða annað handhægt.
Um miðjan dag finnst mér fínt að borða brauð eða nota heita vatnið í núðlu eða bollasúpu svo finnst mér kakóbolli alveg ómissandi. 
Um kvöldið: Á mínum ferðalögum er það aðalmáltíðin. Ég kaupi fljótsoðin hrísgrjón (fæ stundum erlendis hrísgrjón sem að taka bara 7-10 mín suðu) oft er ég með grytepakka og set hluta af pakkanum útí hrísgrjónin.Nota gryte sem krydd og er þá með t.d. tvo mismunandi pakka í ferðalaginu. 
Ef ég fer hálendisferð þar sem að ekki er verslað daglega þá hef ég með mér vacumpakkaðan mat til að borða fyrstu tvo dagana pylsur eða bjúgu sem ég brytja út í hrísgrjónin eða núðlurnar. Ég persónulega er lítil pasta kona en borða alltaf eitthvað af tilbúnu pastaréttunum sem tekur bara 3-5 mín að elda og hef lært af mér reyndara fólki að gott er að hafa kringlóttu ostana t.d. papriku eða pepperone ost (eða bara sneið af áleggsostinum) og setja smá bita út í pastað þá hverfur þetta gervibragð. 
Að lokum eru það núðlusúpurnar sem er fljóteldaðar. Ég hef undanfarið eldað þær í of miklu vatni og notað kryddið eftir smekk en bætt út í sojahakki sem þarf að vera örskamma stund í bleyti. Þá verður þetta meiri matur finnst mér, gott að setja allt mögulegt út í t.d. lauk og grænmeti). Ég nota þetta sem grunn í eldamenskunni hjá mér á óbyggðarferðum mínum en svo fer þetta allt eftir smekk manna. En ég setti þetta á blað til að fólk fái hugmyndir því að ég er mjög oft spurð út í þessi mál. 
Ég hef einnig farið langar hjólaferðir erlendis þar sem að maður kemst í bakarí um hádegið og í búð daglega. Þá er mikið eldaður venjulegur matur á prímusnum með kalkúnakjöti, pylsum (allskonar), fiski og grænmeti. Að ógleymdum ávöxtum sem fást oft við veginn. 

Svitafíla í fötum!!! 

Margir kvarta yfir svitafýlu í fötum og að hún festist í efnunum þó að búið sé að þvo. Á mínu heimili kalla ég þetta kattarhlandsfýlu. Vinur minn rakst á ráð við þessu í erlendu hjólablaði: Það var að setja matarsóda eða natron eins og það heitir á erlendu máli í þvottahólfið með þvottaefninu. Þetta hefur gefist vel og nú þarf ekki að henda peysunum.

Svartir blettir 

Ég hef í mörg ár notað tjöruhreinsirinn Sám turbo 2000 sem fæst á bensínstöðvum til að setja á olíu og smurbletti ef ég fæ þá í fötin og þá ekki síst í hjólajakkana.Svo set ég bara flíkina í þvottavélina á ullarprógramm. Ég nota þetta líka á föt krakkanna en það kemur smá tjöruhreinsislykt af fötunum svo að gott er að þvo þau tvisvar. Annað sem að ég hef líka heyrt en ekki reynt er að penslasápa sem fæst í málingabúðum sé góð á allt mögulegt. Ráð frá reyndri húsmóður!

Alda Jóns