Fyrir ári síðan var lesendum Hjólhestsins lofað grein um rafala á reiðhjól (dínamo). Heyrst hefur, að þeir væru til óþurftar og skemmdu grindur og dekk. Í því er töluverður sannleikur, þar til komið er að nafrafölum. Helstu kostir þeirra er að þeir tapa aldrei gæðum sínum við mismunandi skilyrði, t.d. í snjó og rigningu, eins og hefðbunu rafalarnir. Það er auðvelt að kveikja og slökkva á framljósinu. Einstakega lítð tap vegna núnings. Ekkert slit í rafal eða á dekki. Gersamlega hljóðlaus. Langlífur án viðhalds.

Snemma í sumar hitti ég þýskt hjólreiðafólk þar sem ég rak augun í ansi bústið og verklegt naf undir hjólum þeirra, hannað fyrir diskabremsur! Var það engin ofskynjun að þarna var á ferðinni "Schmidts Orginal Nabendinamo" sérsmíðað fyrir diskabremsu. Ég hafði áður rekið augun í góða dóma um þessa rafala en hafði þó takmarkaða trú á framleiðslunni þar sem ég hélt að þarna væri á ferðinni enn eitt "dínamodraslið" sem þó að sögn tímarita hafði betri nýtni en áður þekktist. Það var því kærkomið að fá að berja það augum og gera sér ljóst að þarna var á ferðinni þýsk hágæðaframleiðsla.

Þetta varð ást við fyrstu sýn og eftir að hafa fengið hjá Þjóðverjunum ýmsar handhægar upplýsingar s.s. síma og fax númer hjá Schmidts og hvers vegna Schmidts nafið væri betra en eftirlíkingin frá Union (MARWI) ákvað ég að verða mér úti um eitt.

Schmidts Orginal Nabendinamo fékk ég í hendur um mitt sumar. Með því fylgdi ljós frá Lumotec sem lítur ekki beinlínis út fyrir að vera merkilegt en átti eftir að koma verulega á óvart. Í fyrstu var mér brugðið því ég gat ekki séð annað en að ekki væri hægt að komast að legunum til að smyrja þær. Ég reyndi því að sprauta óblönduðu Militec olíubæti undir gúmmifóðringuna meðfram öxlinum en allt kom fyrir ekki, olían virtist ekki renna í nafið. Á því var sú skýring að þetta naf á að vera viðhaldsfrítt enda með tveimur lokuðum iðnaðarlegum 629 2RS1 og pakkdósir fyrir utan þær. Ef svo ótrúlega vildi til að legurnar færu þá er ætlast til að nafið verði sent til framleiðanda. Flangsarnir sem teinarnir eru þræddir í eru úr póleruðu 6082 áli. Seglarnir eru samarium-kobalt og eru 26 talsins. Öxullinn er 10mm gegnboraður úr hertu ryðfríu stáli og þyngdin er 610 gr. fyrir utan hraðtengi.

 

 

dyn-naf4.jpg

 

 

Þá kom að því að nafinu var skellt undir hjólið. Í þetta skiptið varð ferðahjólið fyrir valinu. Þar sem ég hafði verið að leita að sólarrafhlöðum til að hlaða rafhlöður fyrir ferðaútvarpið datt mér í hug að nýta rafalinn til þess arna. Þar sem ég vildi ekki heldur missa möguleika á því að hafa ljós á hjólinu þegar það stöðvaðist eða þegar komið væri í tjaldið þurfti líka 6 volta rafhlöður. Rafallinn þurfti því bæði að hlaða inn á 6 og 3 volta rafhlöður. Þannig gat ég sloppið við að burðast með hleðslutæki og þungar 4 Ah rafhlöður sem ég hafði áður haft meðferðis. Þurfti ég því að mæla nafið hátt og lágt svo hanna mætti réttan búnað. Í ljós kom að hann getur gefið út ótrúlega háa spennu eða allt að 130 volt (peak to peak). Það var þó ekkert að óttast því þessi toppur var alveg afllaus. Hámarks afköst reyndust vera tæplega 5 wött eða 700mA á 7 voltum RMS. Afköst rafalsins á 15 km hraða er 65% af fullum afköstum. Samrýmsist það þýskri reglugerð StVZO. Margir sem hafa notað 6 og 10 Watta rafhlöðuljós myndu segja að þetta væri fremur daufur ljósabúnaður. En svo er ekki, þó svo ljósið hafi ekki ofurbjartan brennipunkt þá dreifir Lumotec ljósið ljósinu á hæfilega stóran og jafnan flöt framan við hjólið. Það er reyndar svo góður ökugeisli að deila má um það hvort það sé betra en fyrrgreind 6-10W rafhlöðuljós. Til hliðanna eru ekki áberandi línur, sem því miður eru allt of sýnilegar á mörgum reiðhjólaljósum. Línur þessar leiða oft til svima og þreytu þegar hjólað er í þoku eða langar vegalengdir á óupplýstu landsvæði. Ljósið sést vel frá hlið og umhverfis ljósspegilinn er endurskinshringur sem virkar mjög vel þegar bíll ekur á móti. Ljósið er því frábært öryggistæki, jafnvel þegar peran tekur upp á því að springa.

 

 

dyn-naf3.jpg

 

 

En gekk það upp að láta rafalinn hlaða rafhlöður um leið og ljósið var í gangi? Svarið er já, en auðvitað var var lítil afgangsorka til að hlaða þegar kveikt var á ljósinu . Því var rafallinn látinn hlaða á daginn þegar ekki þurfti að nota ljósið. Rafhlöðurnar voru Ni-Cad., annarsvegar 3 volt 0.6 mAh og hinsvegar 6 volt 1,8 Ah. Þar sem prófunin fór að mestu fram á vegslóðum á Sprengisandi og Kjöl komst hraðinn sjaldan yfir 20 km/klst. Því reyndist erfitt að ná fullri hleðslu á rafhlöðurnar fyrir útvarpið eftir að hafa drollað á hálendinu í tæplega viku tíma. Um leið og komið var til byggða var hægt að auka hraðann og hleðsluna. Töluvert tap var í búnaðinum eða "deiliboxinu" því að það var ekki búið til úr heppilegustu íhlutunum, en í megin dráttum er það afriðill og viðnám til að skammta hleðslustrauminn í 3 volta rafhlöðuna. Ljósadíóður sem sögðu til um hvort spenna kæmi frá rafal, sýndu hleðslustraum á 3 volta rafhlöðu, hvort spenna kæmi frá rafhlöðu og hvort spenna væri að ljósi. Varistorarnir voru til að taka háspennupúlsa og hlífa búnaði. Skiptirofi stjórnaði því hvort ég vildi láta ljósið lýsa aðeins með rafal eða rafal og rafhlöðu eða aðeins hlaða rafhlöður, auk þess að geta minnkað hleðslustrauminn á 3 volta rafhlöðu ef ég færi mikið yfir 40km hraða. Sá möguleiki reyndist þó óþarfur auk möguleikans á að keyra ljósið aðeins á rafhlöðum sem ég hélt að nýttist þegar klífa þyrfti brattar brekkur því í raun finnur maður ekkert fyrir því þegar rafallinn vinnur á fullum afköstum. Skiptirofinn hefði hinsvegar mátt bjóða upp á þann möguleika að tengja ljósið beint inn á riðstraumin frá rafalnum svo ljósið nýttist án tengsla við rafhlöðu þegar hjólið væri teymt á gönguhraða og spara þyrfti rafhlöðu. Þar sem rafallinn er bæði afllítill og vinnur á mjög lágri tíðni á fullu álagi er ekki hægt að nota margfeldið 1,4 til að fá raunspennu eftir afriðun eins og við útreikninga á spennugjöfum, heldur féll spennan u.þ.b. 1,4 volt við að fara í gegn um þennan búnað. Þessu fylgir kostur sem er sá að peran fær þá ekki meira en uppgefna 6 volta spennu sem gefur henni lengra líf. Ókosturinn er hinsvegar sá að hjóla þarf hraðar til að fá sambærilega birtu án afriðunar.

 


ljos-04.jpg

Ólin bak við ljósið heldur þrífót fyrir myndavélina á ferðalögum og einnig glittir í hitabrúsafestinguna á stellinu

   

ljos-07.jpg


Útbúnaður til að hlaða rafhlöður með rafalinum meðan hjólað er á daginn


 

ljos-06.jpg


Framljósið á bögglaberanum

   
ljos-05.jpg

 

Skiptirofinn

 

Í huga margra er þessi einfaldi búnaður flókinn og margir skilja líklega ekkert í því sem sagt hefur verið. Þessi búnaður á heldur ekkert heima á venjulegu reiðhjóli enda er allt það sem flækir málið aðeins til þess fallið að mynda veika hlekki og það er ekki það sem hönnun reiðhjóls á að ganga út á. Því var alltaf sá möguleiki fyrir hendi að aftengja búnaðinn og tengja ljósið beint inn á rafalinn án milliliða. 

En hvar er hægt að fá þessa rafala? Því miður eru þeir ekki seldir hér á landi þar sem þeir eru töluvert dýrari en hefðbundnir flöskurafalar. Miðað við nísku almennings við kaup á nothæfum ljósum, þá væri líklegt að að þeir seldust aldrei. Úti í þýskalandi kostar Schmidt rafallin 330 DM eða rúmlega 13.000 kr með ljósi en þá á eftir að teina hann í gjörð. Union, Marwi rafallinn er á sama verði. Shimano framleiðir ódýra nafrafala í Nexus línunni og ættu þeir að kosta hér á landi u.þ.b. 5-6 þús kr.

Þar sem verslanir sýna þessu ekki áhuga er sú hugmynd í gangi að klúbburinn bjóði meðlimum Schmidt rafala til kaups á góðu verði. En ef af því á að verða þá verða áhugasamir að hafa samband við klúbbinn í síma/fax 562 0099 eða This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Magnús Bergsson.

© Hjólhesturinn 3. tlb. 6. árg október 1997.