Þá er veturinn að skella á og reiðhjólið sem líkamsþjálfunartæki fyrst að sýna sýnar bestu hliðar. Það er alveg ástæðulaust að koma því fyrir í geymslu. Það eru aðeins gamlar kreddur að hjólið sé ónothæft þó að sé hálka, snjór og kuldi. Til eru nagladekk og skjólgóð föt og yfir stóra skafla er alltaf hægt að teyma hjólið. Helsta vandamál vetrarhjólreiða eru meira og minna stjórnlausir bílar sem innihalda bílstjóra með afskaplega takmarkað útsýni. Það ætti því fyrst og fremst að leggja bílnum þar sem þeir geta valdið ómældum skaða. En hvað um það, það er ekki skynsemin sem knýr fólkið út í bílana heldur slæmur ávani. Hér á eftir kemur uppskrift af því hvernig best er að takast á við vetur konung án þess að þurfa að leggja sig í mikla hættu gagnvart bílaumferð, sóðaskap sem henni fylgir, kulda, vosbúð og láta hjólið koma sem best undan vetri.

Fatnaður.


Margir gera þau reginmistök að kappklæða sig þegar hjólað er að vetrarlagi. Það á ekki að vera markmiðið að klæða sig svo vel að ekki finnist fyrir kuldanum þegar fyrst er lagt af stað, það mun aðeins framkalla mikinn svita. Mikilvægast er að vera með góða húfu undir hjálminum. Hún þarf ekki að vera þykk heldur ná niður fyrir eyrun og geta andað svita. Hægt er að mæla með þunnu þéttu fleece efni. Í klúbbhúsi hafa verið til heimagerðar eyrnahlífar sem festar eru við böndin á hjálminum. Henta þær vel fyrir hitastig niður undir frostmark sem er mjög algengt hitastig á suðvesturhorninu.

Nú er úrval ýmissa hjólreiðavettlinga af ýmsum tegundum og gerðum fáanlegir í verslunum sem virka vel í meðalhita vetrarmánuðanna. Hinsvegar eru til stýrishanskar sem reynst hafa einstaklega vel og ekki spillir að þeir eru íslensk framleiðsla. Þessir hanskar eru fóðraðir með fleece og vatnsheldu efni að framanverðu. Þeir halda betur hita en nokkrir fingravettlingar svo að í verstu veðrum getur þú verið í grifflum undir þeim. Það gefur þér möguleika á því að vera ekki með nein vettlingatök við stjórn á gírum og bremsum. Hanskar þessir munu vonandi fást í flestum hjólreiðaverslunum og í klúbbhúsi nú þegar blaðið er komið út.

Auðvitað er það einstaklingsbundið hversu mikið þarf að klæða sig en allir ættu að reyna að komast af með sem minnst. Innst fata er hægt að mæla með efnum sem draga ekki í sig raka, en hleypa honum vel í gegn. Næst á eftir mætti vera þunn fleece- eða ullarpeysa og þar yfir flík úr öndunarefnum, eins og GoreTex. Þar skiptir hönnunin miklu máli. Ekki má flíkin blakta eins og flagg í vindi og ekki er nóg að hún sé gerð aðeins úr öndunarefnum, heldur þurfa að vera stillanleg öndunarop á ermum, undir handakrikum og aftan á baki svo fínstilla megi loftstreymi. Þetta er jafnsjálfsagt og það þykir að hafa stillanlega miðstöð í bílum. Oft nægir að vind- og vatnsheld efni séu aðeins að framanverðu. Mikilvægt er að flíkin sé þakin endurskini eða í áberandi lit, því bílstjórar hafa mjög takmarkað útsýni og því verður að leita allra leiða til að vera vel sýnilegur.

Ef hjólreiðarnar eru teknar virkilega alvarlega þá er hiklaust hægt að mæla með því að vera í hjólastuttbuxum með klofbót innst fata. Næst fata er mjög erfitt að mæla með öðru en buxum frá Mt. Equipment Co-Op. Þær eru gerðar úr teygjanlegu Lycra efni en með GoreTex að framanverðu sem vind og regnhlíf. Einhverra hluta vegna eru fáir sem framleiða buxur með þessu sniði og því hefur klúbburinn boðið skírteinishöfum þær til kaups í klúbbhúsinu okkar. Sjaldnast gerast veður svo válynd að það þurfi að vera í "heilum" buxum, þ.e. allar úr GoreTex. Þær hafa flestar þann galla að anda ekki nógu vel, vera of víðar og taka því á sig of mikinn vind.

Í Reykjavík nota bílar nagladekk og götur eru saltaðar, því getur sóðaskapurinn verið alveg með eindæmum mikill. Þar sem við búum við þetta sóðalega fyrirkomulag þá þurfum við líka að verjast því. Það er gert með skó- og legghlífum. Þær eru fáanlegar í ýmsum gerðum í jafnmörgum hjólreiðaverslunum, en að staðaldri hafa þær verið fáanlegar í Erninum frá Agu-sport. Þær geta komið fyllilega í stað stígvéla í flestum tilfellum. Hægt er að fá þær í tveimur stærðum, önnur lág sem hlífir skóm og önnur há sem hlífir skóm og upp eftir fótleggjum. Eini galli þessara skóhlífa eru að þær anda ekki svo að undir þeim getur myndast raki frá svita. Hikið ekki við að fara milli verslana og leita að besta fatnaðinum. Allar hjólreiða og útilífsverslanirnar eru meira og minna með hjólreiðafatnað eða hafa verið með hann. Gleymið svo ekki félagsskírteininu því afsláttur er umtalsverður en breytilegur milli verslana.

 vetrarhjól

Vetrarhjólið.


Eitt það besta sem hægt er að gera bæði hjóli og eiganda er að vera með góð bretti framan og aftan og ALVÖRU aurhlíf (drullusokk) á frambretti. Brettin geta verið ærið misjöfn en hiklaust er hægt að mæla með brettum frá ESGE eða sambærilegri gerð. Kostur þeirra er að auðvelt er að útbúa aurhlíf á frambrettið auk þess sem festingar eru úr ryðfríu stáli og brettin þola frost án þess að brotna. Aurhlífar sem seldar eru með brettum eru gagnslausar því þarf að sníða þær sjálf(ur). 30. október n.k. geta klúbbmeðlimir fengið að sníða aurhlíf á hjólin sín þeim að kostnaðarlausu. Aurhlíf er gerð úr hæfilega þykku PVC efni sem fæst í Seglagerðinni Ægi og heftað við frambrettið. Bretti ein og sér ná því aldrei að hlífa drifbúnaði og skófatnaði því gera aurhlífar í raun útslagið um það hvort hjólreiðamaður sé ekki alltaf holdvotur og hjólið endist betur.

Nagladekk eru fáanleg í þremur gerðum frá Nokia. Dekkið sem reynst hefur best í Reykjavík er 1,9 tommu breitt. Breiðara dekkið er 2,2 tommur en það hentar best til vetrarferðalaga eða á þungum tveggjamanna hjólum. Hvorug þessara dekkja henta vel í miklum snjó því er bundin von við nýtt dekk frá Nokia sem er með betra munstri og er að koma á markaðinn fyrir þennan vetur. Það gæti reynst vel þó sérstaklega á framhjólið sem ætti aldrei að renna til, því þar sem framhjólið fer, fylgir afturhjólið ávalt í kjölfarið. Nokia dekkin eru dýr eða frá 3-5 þús. kr. en þau geta enst í marga vetur. Þau eru þung og hafa mikla mótstöðu en öryggið sem þau veita er margfalt þýðingarmeira. Sjaldnast er hægt að tala um að hjólreiðadekk eigi að hafa flot á snjó þar sem þau eru of mjó. Þarf að ganga út frá því að dekkið skeri sig í gegn um snjó og krap, niður á fastan klaka þar sem naglarnir taka við og halda hjólinu stöðugu. Því henta mjó dekk og gjarðir mjög vel íslenskum aðstæðum, allavega í krapið í henni Reykjavík. Því fylgir líka sá kostur að hjólin ausa minna upp drullu, gefa betra pláss undir bretti og hlífa betur gjörðum og bremsupúðum.

Ljósið er mikilvægasti öryggisbúnaður reiðhjólsins. Síðastliðinn vetur birtist í Hjólhestinum prófun slíkra ljósa. Því miður virðist það vera plága hvað margir reyna að spara sér aurana þegar kemur að ljósabúnaði. En það er erfitt að mæla með öðrum ljósum en Cateye HL-NC200 eða Cateye HL 500/2 með BA500 rafhlöðupakka sem fæst í Erninum, eða Smart Twin Halogen sem fæst í Hvelli. Látið ykkur ekki detta í hug að nota græn blikkljós sem framljós. Þau eru aðeins til að hafa með venjulegum framljósum og til að bjarga málum um stund ef pera springur í framljósi. Xenon framljósin með blikkandi flass peru eru líka ágæt í að ná athygli bílstjóra.

Eitt af bestu afturljósunum er Zéfal XF supervision og fæst það í Markinu. Er það með góðan hliðargeisla sem er mjög mikilvægur. Galli blikkljósa almennt er sá að rafhlöðurnar mega ekki fara niður fyrir 1,4 volt hver um sig svo að ljósstyrkurinn minnki ekki umtalsvert. Því er ráðlegast að skipta reglulega um rafhlöður t.d. á tveggja mánaða fresti. Gömlu rafhlöðunum þarf ekki að henda því þær má nota í vasaútvarpið þar til þær klárast endanlega.

Magnús Bergsson.

Mynd © Guðrún Ólafsdóttir

© Hjólhesturinn 3. tlb. 6. árg október 1997.