Það er nú svo með mig að mest hef ég gaman af að ferðast um á hjólinu og reyndar gangandi með bakpokann líka. Held ég að besta tilfinningin sé að koma þreytt í skála eða slá upp tjaldi eftir vel heppnaða ferð úti í náttúrunni, þar sem andar Eyvindar og Höllu svífa um. Og það verð ég að segja að oft hef ég hugsað að gaman væri að vera sjálfri sér nóg og þurfa ekki að snúa til baka í stressið og mengunina. En um leið fær maður sér Sviss Miss kakó með einum tappa af rommi útí og súkkulaðihúðaðar rúsínur með, þann lúxus höfðu þau Eyvindur og Halla líklega ekki.

Það má segja að þessi ferðamáti gönguferðir og hjólreiðar fari vel saman þegar kemur að ferðabúnaðinum því í báðum tilfellum þarf að hugsa vel um að hafa dótið létt og fyrirferðarlítið og að hafa sem minnst rusl að bera til byggða aftur og hjálpar þá lítið að hafa farið á ótal Tupperware kynningar.

Er það nú svo að fyrstu ferðirnar eru til að fá reynslu, til að vita hvort maður vill fara í fleiri hjólaferðir eða bakpokaferðir og vera með allt til alls á hjólinu eða í bakpokanum, en eitt ráðlegg ég fólki og það er að hjóla ekki með bakpoka sem einhver þyngd er í.

Ég hef bæði farið í hjólaferðir og gönguferðir og fékk ég útbúnaðinn lánaðan í fyrstu ferðirnar svo að ég væri ekki að fjárfesta í útbúnaði sem ég hefði svo kannski ekki nokkun áhuga á að nota nokkurntíma aftur.

Erum við fjölskyldan oft búin að hlæja að okkar fyrstu ferð til Þingvalla þar sem við hjónaleysin fórum með 3ja ára dóttur okkar á hjólum fyrir 6 árum. Eftir að hafa hjólað í Heiðmörk og til Hafnafjarðar í stuttum æfingaferðum var lagt af stað. Var stelpan í sæti á þverstönginni og farangurinn í svörtum ruslapokum bundinn með baggaböndum á bögglaberana, við áttum ekki lítinn prímus og var því ákveðið að hafa með sér grillkol, og kjöt með tilheyrandi kartöflusalati,heilan súrmjólkurlíter og múslí í morgunmat svo var kókómjólk í fernum og kex og súkkulaðirúsínur í pökkum. Þetta var dágóður matarpakki fyrir utan öll fötin sem voru ekkert út flísefnum eða léttum efnum eins og í dag heldur heilu ullarpeysurnar og þykkir utanyfirjakkar, svo vorum við auðvitað í bómullarbolum því að þá var sagt að ekki væri gott að vera í þessum gerfiefnum næst líkamanum.

Núna reynslunni ríkari vitum við til dæmis að ekki er gott að hjóla í þykkum jökkum heldur er betra að vera í þunnum peysum og reyta af sér eina og eina spjör eftir því hversu heitt okkur verður og ekki er gott að hafa bómullar efni næst líkamanum því það heldur svitanum í sér og orsakar óþægindi og kuldahroll ef maður stoppar svo ekki sé nú minnst á svitapestina svona ef fleiri eru með í för og núna förum við ekki með mat í pakkavís heldur er hægt að blanda flest út í vatn og eitthvað tekið með sem þarf stuttan suðutíma.

Það bjargaði miklu að við fengum lánað lítið og létt tjald annars er líklegt að stóra súlutjaldið hefði verið fest með baggaböndum eins og allt annað. Komumst við nú loks af stað í Þingvallaferðina og hjóluðum út úr bænum enn þegar við vorum hálfnuð upp í Mosfellsbæ sofnaði sú stutta og var lögð upp á vatnsstokkinn sem er meðfram veginum og leyft að sofa í klukkutíma svo að sjá má að ekki þýðir að skipuleggja allt ferðalagið of nákvæmlega.

Engu að síður tókst þessi ferð í alla staði vel og var alveg passleg byrjun að hjóla til Þingvalla, gista yfir nótt og hjóla svo til baka daginn eftir. Vorum við fljót að sjá hvað var nauðsynlegt og hvers við gátum verið án af útbúnaðinum. Höfum við verið að bæta við smátt og smátt í gegnum tíðina því að ekki er hægt að segja að vandaður útbúnaður eða fatnaður sem ætlaður er til útivistar sé ódýr.

Á þessu ferðalagi hittum við hjón frá Akureyri sem voru hjólandi með son sinn sem var að mig minnir um 11 ára aldur og voru dagleiðirnar valdar eftir upplagi en ekki kílómetrafjölda og hafði það reynst vel. Höfðu þau tekið Norðurleiðarrútuna yfir Holtavörðuheiðina frá Akureyri og hjólað um Snæfellsnesið og einhverjar fáfarnar leiðir til Þingvalla. Var mjög gaman að hitta íslendinga sem höfðu ferðast á hjólum því þessi Þingvallaferð okkar var undirbúningsferð fyrir Kjalferð sem við fórum síðar þetta sumar og fór dóttir okkar með stóran hluta leiðarinnar. Einnig gerðumst við djarfari, keyptum okkur aftanívagn og drógum stelpuna um Holland og Belgíu í mánaðarhjólatúr ári síðar svo að segja má að við höfum farið hægt af stað en fært okkur upp á skaftið.

Vil ég hvetja alla að láta hugmyndir sínar og drauma rætast hvað varðar göngu og hjólaferðir því fátt er hollara fjölskyldunni og heilsunni en samveran og útiloftið.

Munið bara að fara stutt fyrst og læra á ykkur sjálf og útbúnaðinn, svo er bara að DRÍFA SIG.

Góða ferð,

Alda Jónsóttir

Upphaflega flutt í þættinum Útrás á RÚV