Hjólhesturinn 7. árg. 3. tbl. okt. 1998
Það var óvissuástand í klúbbnum þegar Hjólhesturinn kom út í október 1998. Klúbburinn var við það að missa húsnæðið sitt og gekk illa að finna nýtt. Ýmsar hugmyndir voru á lofti, m.a. bygging 1200 m2 fjölnotahúsnæðis nálægt Öskjuhlíðinni sem líklega endaði undir boltafélag þegar það var byggt. Einnig var kjallarinn í Tónabæ skoðaður þar sem 365 starfar nú. Stjórnin auglýsti eftir húsnæði og gekk svo langt að lofa að „vera þægur leigjandi, stunda ekki svæsnar svallveislur né heldur hafa gæludýr“ !


Björn Finnsson sem hafði stýrt vikulegum þriðjudagskvöldhjólaferðum í fimm mánuði yfir sumarið skrifaði þessa vísu til þeirra sem ekki komu með:

Allir þeir sem ekki komu með
og ekki gátu sálu sinni léð
sumarstund í hjólagleði.
Munu geta magnað sína sál
svo borið geti á bál
böl og leti.

Þessar ferðir sem Finnur byrjaði með eru enn einn af föstu liðunum í starfsemi klúbbsins og byrja 1. maí næstkomandi.

Alda Péturs formaður var enn með pistla í Útrás á Rás 1 sem við birtum í Hjólhestinum og fjallaði einn þeirra um hversu frumstæðar aðstæður voru á leiðinni úr Reykjavík að Esju. Þar vantaði vegöxlina fyrir utan hvítu línuna og vantar enn þó reyndar hafi verið kláraður stígur upp í Mosfellsbæ síðasta vetur, 14 árum seinna. Undirritaður skreytti frásögnina með myndum af aðstæðum við Grafarvogsbrú þar sem hjólaleiðin var lokuð í yfir ár ef ég man rétt meðan leiðin var lagfærð því engin var hjáleiðin. Þó margt hafi breyst má minnast á lokaðar leiðir meðfram Suðurlandsbraut og Laugaveg í vetur þar sem vel hefði mátt loka annarri akreininni og búa til framhjáleið meðan nýr hjólastígur var byggður. Öldu fannst svo mörg málefnin sem hjólreiðamenn þurftu að berjast fyrir að hún velti því upp hvort ekki ætti að stofna stjórnmálaflokkinn Hjólaflokkinn.  Fimmtán flokkar eru taldir upp á framboðsvef RÚV í dag en ekkert bólar á Hjólaflokkinum.

Hún gekk betur ferðin til Nesjavalla sem einnig var fjallað um. Hún hefur verið fastur liður síðan og yfirleitt um sömu helgi og Eurovision söngvakeppnin. Undirritaður skrifaði svo um fyrstu ferð ÍFHK í Veiðivötn sem hentar einstaklega vel til hjólreiða. Forsíðumyndin er tekin í þeirri ferð þar sem Steini „smókur“ hjólar með fjölskyldunni.

Jón Örn Bergs skrifaði skemmtilega ferðalýsingu af ferð sinni með Pétri Magnússyni eftir línuveginum meðfram Búrfellslínu sem var myndskreytt með teikningum Jóns sem höfðu einkennt Hjólhestinn fram að þessu.

„En fyrst var farið í smá sokka- og naríuþvott, því óþefurinn ætlaði allt lifandi að drepa. Meira að segja flugurnar þoldu ekki við, þegar við týndum til plöggin og rákum þau í bað. Í leiðinn var svo tekinn smá “melluþvottur” þar sem vatnið í krananum var rétt mátulega volgt til þesskonar þvotta. Við köstuðum nú kveðju og báðum að heilsa, en rétt í þann mund sem við vorum að leggja af stað heyrðust drunur miklar og óhljóð barst okkur til eyrna. Var þar komið ríðimannafélag Rangæinga, -eða eitthvað þannig, og renndi í hlað með tilheyrandi “hobbhobb!” og “yrrdann!” og “hvar er flaskan?” sem að lokum endaði í kakófónískum „söng”. Við yfirgáfum samkvæmið á þeim orðum að við værum víst Íslendingar, hvað sem þeir sögðu, og við værum ekki ruglaðir að vera á hjólum, við lékum okkur þó ekki með matinn,eins og sumir...“

Einnig var fjallað um vöntun á góðum hjólastæðum og hvernig þau ættu að vera. Þetta vandamál er viðvarandi á Íslandi en þó hefur orðið hugarfarsbreyting á stöku stað eins og við Landsspítalann. Í grein Öldu var minnst á að „þeir starfsmenn sem komu hjólandi þurftu að láta hjólin liggja eins og hráviði út um allt, til hliðar við aðalinnganginn, þar sem ekki var hægt að læsa þeim við neitt hvað þá verja þau fyrir rigningu og snjó.“
Magnús Bergs fór yfir það hvernig væri best að búa sig undir vetrarhjólreiðarnar og skoðaði ljósabúnað verslana þann veturinn.
Einnig fengum við pistla frá HFR og LHM.
Blaðið má lesa hér: Hjólhesturinn 7. árg. 3. tbl. okt. 1998
Páll Guðjónsson