Ég var talin svolítið spes þegar ég flutti til Íslands 16 ára gömul. Ég hjólaði allra minna ferða og gerði vinum mínum lífið „leitt“ því bíllinn var þeirra eini valkostur og því „urðu“ þeir að sækja mig. Ekki var í boði að hjóla niður Laugaveginn(„rúnta“) og fara í bíó á hjóli :) Ég var einfaldlega ekki jafn töff og þau að eignast bíl á 17 ára afmæli mínu, enda vissu foreldrar mínir auðvitað langt á undan mér og mörgum öðrum að hljólið er sjálfsagður ferðamáti (sérstaklega innan bæjarmarka).

Ég hef alltaf hjólað. Þegar ég sest uppá hjólið mitt erum við eitt. Mér líður eins og fuglinum fljúgandi, sama hvernig viðrar. Þegar á móti blæs líður mér jafnvel enn betur því þá veit ég að líkaminn þarf að vinna meira og ég kemst í betra form. Það er hálfgerð alsæla fyrir mig að hjóla, sérstaklega í dag þegar ég fékk mótvind í bakið eftir erfiðan vinnudag og gat brunað fram úr umferðinni með uppáhalds lagið mitt í ipodnum. Ég hlakka til að hjóla í vinnuna og í skólann sem gerir það að verkum að það er auðveldara fyrir mig að vakna á morgnanna. Í gær tók ég og kærastinn minn okkur til og fórum u.þ.b. 10 km á eina og sama hjólinu (við reiddum hvort annað til skiptis og vöktum mikla lukku). Ég hef ekki skemmt mér svona vel lengi.

Þeir sem nota þá afsökun að geta ekki hjólað á Íslandi vegna brekkna hafa ekki prófað að hjóla. Kannski finnst sumum það ekki vera fyrir alla en það er svo sannarlega fyrir alla (stóra sem smáa). Þetta er sjálfstæðasti fararmátinn (á dekkjum) út um allan heim og orkugjafinn er líkamsforði en ekki óendurnýjanleg auðlind. Þannig er þetta nánast ókeypis ferðamáti með lítið startgjald og ódýrt viðhald. Einnig er auðveldara að ferðast um þröngar/umferðartepptar götur. Ég veit þetta af góðri reynslu þar sem ég bjó í Svíþjóð til 16 ára aldurs, þar sem hjólasamgöngur eru miklu sjálfsagðari en á Íslandi.

Fólk sem kvartar undan því að eiga ekki fyrir lífinu en eru samt að borga af bíl gætu því hugsað sig um tvisvar.

Hjólið hefur auk þess góð áhrif á brjósklos og bakvandamál sem ég hef. Það virkar miklu betur en nokkur sjúkraþálfun sem ég hef prófað. Ég hef jafnframt sannfært sjúkraþjálfara um að hjólið sé beta en sundið fyrir bakið.

Ég er þakklát foreldrum mínum fyrir að hafa hamrað á því að ég tæki hjólið í stað þess að verða keyrð fram og til baka, þrátt fyrir ákveðið mótlæti af minni hálfu til að byrja með. Allir foreldrar ættu að taka það sér til fyrirmyndar. Það léttir líf fólks að gefa börnunum sínum það frelsi að hjóla leiða sinna og er ekki tilgangur foreldrahlutverksins að stuðla að sjálfstæði barnanna?

Það gleður mig því óheyranlega mikið að sjá aukningu hjólreiða á götum Reykjavíkur, hugsanlega í tengslum við „hjólað í vinnuna“ átakið, en vonandi... vonandi... vonandi... fellur fólkið kylliflatt fyrir þessum ferðamáta og mun halda áfram að nota hjólið eins og sjálfsagðan hlut.


Birtst fyrst á Hamragrill.is - endurbirt með leyfi höfundar