Eins og áður hefur komið fram í Hjólhestinum er nú verið að byggja upp net hjólreiða- og göngustíga um Bretland sem mun innan 8 ára spanna 10000 km og liggja innan 3. km frá heimilum 20. milljóna Breta. Eftirfarandi er að mestu bein þýðing á kynningarefni Sustrans (Sustainable Trans-port) sem stendur að uppbyggingu hjólanetsins (National Cycle Network) með stuðningi Millenium (árþúsund) nefndarinnar, lottópeninga, samtaka bifreiðaeigenda auk fjölda annarra. Það væri vonandi að íslenskir stjórnmálamenn hefðu jafn ábyrga framtíðarsýn en stæðu ekki í endalausri uppbyggingu vegakerfisins sem aftur kallar á aukna umferð eins og margsannað er. í könnun eftir hvíldardag bílsins í haust kom í ljós að mikill meirihluti Reykvíkinga vill draga úr einkabílanotkun en finnst vanta betri aðstöðu fyrir göngur og hjólreiðar og aukna þjónustu almenningsvagna.

Hjólanetið

Samgöngur hafa mótað sögu mannkyns frá upphafi. Á seinni helmingi þessarar aldar hafa margir vanist því að það sé sjálfsagt að geta farið hvert sem er, hvenær sem er. Nú er það hins vegar viðurkennt víða að þetta mikla frelsi er dýrkeypt. Aukið frelsi fyrir suma getur þýtt minna frelsi fyrir aðra, svo sem þá sem ekki hafa aðgang að bílum. Sumir ókostir snerta okkur öll, börnin okkar geta ekki leikið sér úti vegna umferðarinnar, og frelsi okkar til að anda að okkur hreinu lofti og njóta kyrrðar er takmarkað.

1994 lýsti Konunglega umhverfismengunarnefndin sífellt aukinni umferð sem „trúlega mestu umhverfisvá sem Bretland stendur frammi fyrir.“ Hjólanetið gefur okkur tækifæri til að takast á við þessi og önnur mál fyrir upphaf nýs árþúsunds. Það mun verða táknrænt upphaf framtíðar með sjálfbærum valkostum fyrir einstaklinga og samfélög. 10.000 km hjólanetið verður hins vegar ekki bara táknrænt. Það mun skapa grunnbyggingu um allt land að óslitnum, hágæða, öruggum og fallegum leiðum um allt Bretland. 4000 km verða kenndir við nýtt árþúsund (Millenium routes) og eiga að verða tilbúnir fyrir árið 2000 og hinir 6000 km verða tilbúnir fyrir 2005. Meðan á uppbyggingu hjólanetsins stendur og á eftir verður ýtt undir uppbyggingu annarra leiða og tengingu þeirra við hjólanetið samhliða auknum vinsældum hjólreiða og skilningi á gildi öruggra leiða.

Hjólanetið verður varanlegt og sí stækkandi tákn nýs árþúsunds, sem varðar alla. Það verður byggt upp af leiðum án vélknúinna farartækja sem hjólafólk, göngufólk og fólk í hjólastólum deila með sér og leiðum með rólegri umferð. Það mun skapa að minnsta kosti eina hágæðaleið gegnum flestar stærri borgir Bretlands og ýta undir frekari uppbyggingu göngu- og hjólastíga. Það mun ná til úthverfa og út fyrir byggð og þar með auka aðgengi að sveitum, náttúru og ferðamannastöðum.

Hjólanetið mun takast á við sjálfbæra þróun með raunhæfum hætti. Það mun ýta undir öruggan samgöngumáta sem mengar ekki og eykur hreysti. Það mun höfða til barna og aldraðra, til einstaklinga og fjölskyldna, til hraustra og fatlaðra, til fólks óháð bakgrunni, stöðu og tekjum. Hjólreiðar og göngur er nokkuð sem næstum allir geta stundað, notið og haft hag af. Um 20 milljónir manna munu búa innan 3 km frá hjólanetinu eða 10 mínútna hjólreiðaferðar.

Þörfin fyrir öruggar aðstæður

Samgönguráðuneytið spáir að miðað við núverandi þróun muni bílaumferðin tvöfaldast fyrir árið 2025, og dreifbýlisnefndin spáir þreföldun í dreifbýlisumferð. Það er almennt viðurkennt að þessi þróun er ekki sjálfbær með tilliti til heilsu, umhverfís, kostnaðar samfélagsins og áhrifa á efnahagslífið.

Það kann að koma á óvart að í Bretlandi eru fleiri hjól en bílar, eða meira en 21 milljón hjóla, en fæst þeirra eru notuð reglulega. Breskur hjólreiðamaður er tífalt líklegri til að láta lífið eða slasast, miðað við hvern hjólaðan kílómeter en danskur kollegi hans. Breskum gangandi vegfarendum farnast næstum jafn illa. Dauðshlutfall breskra barna sem ganga í umferðinni er 31% yfir meðaltali Evrópusambandsins.

Áætluð notkun

Alls staðar þar sem Sustrans hefur skapað öruggar aðlaðandi leiðir hafa þær verið mjög vínsælar. Á 30 km leið milli Bristol og Bath eru ferðir nú yfir 1 milljón á ári. Hjólanetið verður notað til ferða til vinnu, skóla, verslana og ferðalaga.

Miðað við núverandi notkun, þéttleika byggðar og fleiri þátta spáum við að á hjólanetinu verði yfir 100 milljónir ferða árlega, með mestri notkun í byggð. Um 60% verða ferðir til vinnu, skóla og verslana, en um 40% afþreying. Gangandi 55% og hjólandi 45%. Hátt hlutfall hjólaferða verða ferðir sem áður voru ekki farnar á hjóli.

Kostirnir:

Loftmengun og náttúran

Loftmengun fer oft yfir viðmiðunarmörk Alþjóðaheilbrigðismálastofiiunarinnar (World Health Organization) í mörgum breskum borgum. Sjötta hvert barn þjáist af astma. Skipti yfir í hjólreiðar 
myndu minnka eitraðan útblástur bíla sem eiga sinn þátt í loftmengun þannig að öll þjóðin bæri hag af. Mikilvægt er líka að breytingin myndi hjálpa til við að koma jafnvægi á gróðurhúsalofttegundina CO2, sem stjórnvöld og margar sveitastjórnir hafa beitt sér fyrir.

Sveitin og dýralífíð

Víða eru fagrar sveitir okkar, ströndin og þjóðgarðar í hættu vegna umferðar vélknúinna ökutækja. Hjólanetið mun gera þessi svæði aðgengileg óvélknúinni umferð, og hægja á utanbæjarumferðinni. Hjólanetið mun opna leiðir gróður- og dýralífs að hjarta borganna og þannig færa sveitasæluna að dyrum skóla og heimila, og gefa fólki kost á að kynnast náttúrunni.

Hagur úthverfanna

Hjólanetið mun ýta undir manneskjulegri hönnun, þar sem fólk skipar fremri sess en bílar og meira verður um svæði án umferðar eða með rólegri umferð. Það mun hleypa nýju lífi í niðurnídd eldri borgarhverfi með endurnýjun vatna- og járnbrautaleiða. Skúlptúrar, list og saga viðkomandi svæða verður samofin netinu. Aukning hjólreiða og gangandi fólks mun gera göturnar öruggari fyrir alla.

Heilsa og hreysti

Víðtæk könnun árið 1992 leiddi í ljós að yfir 80% þjóðarinnar, í öllum aldursflokkum, hreyfir sig ekki nóg. Fagmenn eru sammála um það að hjólreiðar og ganga er ákjósanleg þjálfun. Hvoru tveggja draga úr hættu á hjartasjúkdómum, háum blóðþrýstingi, streitu, offitu og vinna gegn mörgum öðrum sjúkdómum. Ólíkt mörgum öðrum íþróttum er slysahættan lítil, nema í tengslum við bílaumferð. Þeir sem hjóla til vinnu eru jafn hraustir og menn 10 árum yngri sem ekki hjóla til vinnu. The British Medical Association mælir eindregið með hjólreiðum af heilsufarsástæðum. Árin sem bætast við ævina í formi betri heilsu vegna hjólreiða eru tuttugufalt fleiri en þau sem tapast vegna umferðarslysa, þrátt fyrir háa slysatíðni í umferðinni. Hjólreiðar og göngur hafa annan stóran kost, þær falla vel inn í daglegt líf fólks. Hjólanetið mun því verða stór þáttur í bættri heilsu almennings.

Græn ferðaþjónusta

Hjólanetið verður helsta uppspretta grænnar ferðaþjónustu. Við áætlum að innlent hjóla- og göngufólk muni eyða um 200 milljónum punda (20 milljarðar í.kr.) árlega í beinum tengslum við Hjólanetið og erlendir ferðamenn 150 milljónum í viðbót (15 milljarðar í.kr.). Nigel Adams hjá ferðamálaráði Wales taldi þetta verkefni koma betur út úr arðsemisútreikningum en nokkurt annað sem hann hefði séð. Arður af ferðamennsku hjólafólks dreifist mjög jafnt um efnahagslífið á hverju svæði fyrir sig, svo sem í verslunum, krám, gistihúsum, hótelum, hjólaleigum og víðar.

Ferðamennska á hjólum fer vaxandi í Evrópu með tilkomu hjólaneta í Danmörku, Þýskalandi, Hollandi, Belgíu, Sviss og víðar. Rannsóknir í Evrópu gefa til kynna að ferðamenn á hjólum eyði meira en ferðamenn á bílum og krefjist betri þjónustu. Tengingar hjólanetsins við hafnir munu draga til sín ferðamenn frá þeim löndum þar sem hjólreiðar eru þegar orðnar vinsælar, til breskra ferðamannaslóða og borga.

Bættur efnahagur

Hjólanetið mun skapa þúsundir starfa, þar af mörg sem ekki krefjast sérstakrar menntunar eða langrar þjálfunar og henta því vel ungu fólki. Við áætlum 600 verkamannastörf árlega öll tíu árin og yfir 50 ný störf fyrir verkfræðinga og sérfræðinga í samgöngumálum. Við spáum einnig 5000 nýjum störfum að jafnaði við ferðaþjónustu, smásölu, skemmtanaiðnað og 100 störfum til viðbótar við eftirlit og viðhald.

Önnur jákvæð áhrif á efnahagslífið eru meðal annars: færri umferðarteppur, þegar fólk skiptir frá bílnum í hjólreiðar og göngur; betri heilsa - þeir sem hjóla til vinnu taka færri veikindadaga og nota má eitthvað af þeim 2,5 milljörðum punda (250 milljarðar í.kr.), sem árlega fara í umferðarmannvirki, til annarra hluta í samfélaginu.

Tækifæri fyrir sjálfboðaliða

Þau verða mörg bæði meðan á uppbyggingunni stendur og á eftir. Sjálfboðaliðar munu hjálpa til við að hreinsa rusl, viðhalda heimkynnum dýra og stunda garðyrkjustörf. Það verða verkefni fyrir atvinnulausa, fanga, fólk á reynslulausn, hópa frá skólum og fleiri. Við höfum langa og góða reynslu af slíkum verkefnum.

Kostirnir fyrir börn

Það bitnar verst á börnum þegar umferðin er hættuleg. Hjólreiðar og göngur barna hafa stórminnkað síðustu 20 ár og nú hjóla aðeins 3% barna í skóla, samanborið við 60% í Hollandi. Hættulegar umferðargötur loka börn hvert frá öðru og frá félagslífi og stuðla þannig að lífsstíl hreyfingarleysis og sjónvarpsgláps þar sem foreldrarnir taka sess einkabílstjóra.

Allt hjólanetið er hannað til að vera öruggt skynsömum 12 ára börnum án eftirlits. Og sá hluti sem er án bílaumferðar, um helmingur netsins, ætti að vera öruggur yngri börnum.

Kostirnir fyrir aldraða

Göngur og hjólreiðar eru mikilvægar samgönguaðferðir fyrir aldraða sem hafa síður efni á að reka einkabíl. Hjólanetið, með aflíðandi brekkum, öruggum þverunum, bekkjum og annarri aðstöðu mun skapa aðlaðandi og öruggt umhverfi, aðgengilegt öldruðum.

Kostirnir fyrir fatlaða

Meirihluti hjólanetsins verður aðgengilegur fólki í hjólastólum; með aflíðandi brekkum, halla í staðinn fyrir tröppur, aflíðandi könntum og sléttu hörðu yfirborði. Bíllausu hlutarnir munu einnig koma sjónskertum, heyrnardaufum og viðkvæmu fólki til góða. Hlið til að halda mótorhjólum frá munu hleypa flestum gerðum hjólastóla í gegn. Við vinnum með Fieldfare Trust til að tryggja sem best aðgengi fatlaðra.

Gangandi vegfarendur

Næstum allt hjólanetið mun nýtast gangandi fólki. Bíllausu hlutarnir verða yfirleitt 2. til 3. metra breiðir, hannaðir með öryggi bæði gangandi og hjólandi fólks í huga með upphækkuðum merkingum til að skilja að umferðina þar sem hún er mest.

Hjólanetið mun opna alveg nýjar gönguleiðir fyrir gangandi eins og til dæmis gegnum London. Það hefur þegar sýnt sig hve bíllausu leiðirnar eru vinsælar meðal göngufólks.

Sérstakt átak verður við kynninguna til að ýta undir góða umferðarhegðun hjólreiðamanna gagnvart gangandi vegfarendum. Í löndum þar sem hjólreiðar eru algengari, blandast umferð gangandi og hjólandi vegfarenda vandræðalaust og göngufólk á afskekktari stígum hefur síður áhyggjur af  öryggi sínu.

Sjá internet vef Sustrans http:// www.sustrans.org.uk/
Inngangur og þýðing Páll Guðjónsson.

Birtist fyrst í Hjólhestinum febrúar 1997.