Hjólum lagt við Bíó ParadísÞessi mynd var tekin síðasta dag tilraunaverkefnis með hjólamerkingar á Hverfisgötu. Það var margt jákvætt við þetta verkefni enda lýstu Landssamtök hjólreiðamanna yfir ánægu sinni með verkefnið. Það virðist þó alveg hafa farið frá hjá fréttamiðlunum sem fengu þá fréttatilkynningu fyrir utan Fréttablaðið sem birti hana.

Þvert á móti komu hinar furðulegustu fréttir í fjölda fréttamiðla sem opinberuðu í besta falli mikla fáfræði og fordóma fjölmiðla eða kraftmikinn áróður í þágu einkabílisma hjá ósjálfráða fjölmiðlum.

Borgin fór í þessar merkingar á Hverfisgötunni með stuttum fyrirvara og talaði ranglega um hjólastíg í fréttatilkynningu sinni. Hjólastígur eða hjólabraut er leið sem er aðskilin akbraut og önnur umferð er ekki leyfð. Þarna er ekkert slíkt á ferðinni heldur er um hjólarein upp Hverfisgötu að ræða og nokkra ráðgefandi hjólavísa niður ásamt hjólaboxum við nokkrar stöðvunarlínur.

gissur-sigurdsson.jpgFréttamaður Bylgjunnar Gissur grínaðist mikið með "hjólastíginn" í morgunfréttunum 30 sept. Hann talaði um að það hefði verið málað svo mikið þarna á Hverfisgötunni að hann hefði haldið að hann væri kominn í Lególand og síðan að bíllinn hefði unnið þarna varnarsigur. "Menn muna það að í vor voru sagaðir niður stöðumælarnir með miklum látum en nú hefur verið fallið frá þessu. Ég veit til þess að íbúar þarna og hagsmunaaðilar voru mjög óhressir með þessa breytingu..." Síðan hélt hann áfram og staðfærði frétt af mbl.is upp í símtal við mann sem kannski lýsti fyrir honum myndbandinu sem má sjá hér: mbl.is - Hjólreiðastígur til vansa 

Þetta er málflutningur Morgunblaðsins þar sem verkefnið er skotið á kaf áður en það byrjar með rangfærslum og neikvæðni. Aðrar fréttir virðast mikið til byggja á þessari bull umfjöllun því ekki byggja þær á viðtölum við hagsmunasamtök hjólreiðafólks eins og Landssamtök hjólreiðamanna eða Fjallahjólaklúbbinn.

Reyndar segir þarna eigandi verslunarinnar 2001 að umferð hjólafólks hafi verið mjög mikil fyrir, meðan Gissur fréttamaður Bylgjunnar talaði um að þarna hjólaði varla nokkur maður og þessi "hjólastígur" hefði ekki breytt neinu með það.

Hjólamerkingarnar komu 20. ágúst sem varla telst vor á Íslandi og engir staurar voru sagaðir niður þó gjaldmælarnir sívinsælu fengu frí í mánuð.  Fréttamaðurinn Gissur virðist heldur ekki þekkja til niðurstaðna talninga sem voru framkvæmdar í október fyrir ári milli 7:00-19:00 á þriggja vikna tímabili. Þá reyndist hlutfall hjólandi í Austurstræti vera 11%. Talning í Suðurhlíð sýndi hlutfallið 10.43% og meira segja við Bíldshöfða var hlutfallið hátt í 6%. Þessar talningar fóru fram löngu eftir hásumarið og verkefni eins og Hjólað í vinnuna.

capturembl.jpg

Í umfjöllun mbl.is og sumra annarra er talað um að þessi hjólarein ætti að vera norðanmegin í sólinni þó hún sé sýnd böðuð í sól !!

Ekki tók betra við þegar fréttamaður RÚV Lára Ómarsdóttir fékk áhuga á hjólamerkingum á "bíllausa deginum". 22. sept.

Í fréttinni sáust þrjár mismunandi merkingar, hjólavísar, hjólamerki á hjólastíg / hjólabraut og hjólarein en enginn greinarmunur var gerður á þeim í fréttinni. Lára hjólar eftir bílastæði og út á götuna að hjólavísi sem henni finnst vera á miðri götunni.

Hjólað eftir bílastæði

Hjólað eftir ómerktu bílastæði og síðan að hjólavísi þar til hliðar

Hjólað yfir hjólavísi

Ef bílastæðin hefðu verið máluð eða full af bílum þá hefði hún kannski áttað sig á því að hjólavísirinn er í öruggri fjarlægð frá kyrrstæðri bifreið þó hurð hennar væri skyndilega opnuð. Svona leiðir tíðkast víða erlendis og í evrópskum leiðbeiningum um hönnun hjólabrauta og -reina er þá talað um "advisory lane". Hjólavísarnir vísa þá hjólreiðafólki öruggustu leiðina og staðsetninguna jafnframt því að beina athygli bílstjóra að því að þarna séu hjólreiðamenn á ferð. Með þessu skapast gott samspil milli þeirra sem velja þessa mismunandi fararmáta. En þar sem merkingarnar eru aðeins leiðbeinandi gefa þær hvorugum meiri rétt, bílar mega aka yfir merkin og hjólreiðamenn mega hjóla út fyrir svæðið. Bæði ökutækin hafa sama rétt á akbrautum samkvæmt lögum eftir sem áður.

capture8.jpg


Í frétt RÚV var talað við upplýsingafulltrúa Umferðarstofu, Einar Magnús Magnússon. Líklega var hann að tala um hjólavísana þegar hann sagði að þessar merkingar þýddu ekki neitt en ekki grænu hjólareinina á Hverfisgötu sem sást bak við hann á meðan.

Hjólarein

Hjólarein eftir Hverfisgötu merkt með hjólamerki og hjólaskilti og öðru merki sem bannar að leggja.

Hjólarein er allt annar hlutur en leið merkt hjólavísum. Ef hún er afmörkuð með deililínu eins og  auðkennd með hjólamerki þá "skal ökumaður nota þá rein sem ökutæki hans er ætluð" eins og segir í umferðarlögum. Þannig eru sérreinar strætisvagna og leigubíla merktar í dag og hafa þær enga frekari lagastoð. Græna hjólareinin sem máluð var tímabundið upp Hverfisgötuna var ekki með hvítri deililínu en þó voru þar víðast hvítu bílastæðamerkingarnar sem aðgreindu svæðið frá akreininni.

 

capture13.jpg

Hjólastígur eða hjólabraut er aðskilinn akbraut og hjólamerkin segja til um akstursleið.
Fyrir ofan sést hjólabraut með einstefnu en fyrir neðan umferð í báðar áttir.
Hjólastígur / hjólabraut hefur aldrei verið á Hverfisgötu þrátt fyrir ítrekaðan fréttaflutning um slíkt.
 

 hjólastígur / hjólabraut

 Lára Ómarsdóttir gerði þó heiðarlega tilraun til að leiðrétta sig daginn eftir í frétt sem var kynnt með orðunum "engin lög eða reglur eru til um sérstakar akreinar fyrir hjólreiðamenn og því ekki hægt að búa hjólreinar meðfram vegum landsins." Þó kom ekki fram í fréttinni að það sama á við um sérreinar strætisvagna sem þó eru víða á höfuðborgarsvæðinu.

Stöð 2 kom síðan með enn eina bull fréttina af “ónýttum hjólreiðastíg” 3. nóvember. Kolbein Þórðarson fréttamaður sló því þar fram að hjólreiðamenn nýttu sér ekki “hjólreiðastíginn” af því þeir teldu öruggara að hjóla hinu megin. Í sömu setningu og fréttamaðurinn sagði hjólreiðamenn ekki virðast nýta sér þetta í nægilegum mæli benti hann á að bílstjórar láti eins og stígurinn sé hreinlega ekki til og sýndi myndir af kyrrstæðum bifreiðum á grænu hjólareininni undir skilti sem sagði að þar mætti ekki leggja. Hefði ekki verið eðlilegra að hann gagnrýndi að þetta ólöglega athæfi  fengi að viðgangast frekar en að finna að því að hjólreiðamenn hjóli ekki eftir hjólarein með kyrrstæðum bifreiðum?



Einnig var talað við Jón Gnarr borgarstóra í fréttinni sem virtist ekki vita betur en eftir Hverfisgötu lægi “hjólastígur” þar sem væri hjólað í báðar áttir öðru megin Hverfisgötunnar og viðraði hugmynd um að flytja hann hinu megin. Fréttamaðurinn sagðist hafa eftir ónafngreindum hjólreiðamönnum að þeim fyndist öruggara að hjóla norðanmegin við gangstéttina” því “hjólastígurinn tæki enda sem þýddi að hjólreiðamenn færu út í miðja umferð við lok stígsins”. Ónafngreindu hjólreiðamennirnir hljóta að hafa talað um að hjóla á gangstéttinni því ekki má hjóla við gangstétt á móti umferð, sem er það sem fréttamaðurinn lýsti. Hjólareinin er ekki heil upp Hverfisgötuna þar sem það lá fyrir frá upphafi að þetta væri tilraunaverkefni sem að ætti bara að standa yfir í mánuð. Því var ekki farið í dýrar framkvæmdir svo sem að breyta hellulögnum þar sem þær voru í veginum eða riðla til akreinum sem fyrir voru. Slíkt þyrfti auðvitað að gera eftir allri leiðinni ef um alvöru varanlega hjólarein væri að ræða.

Í fréttum var mikið gert úr hvarfi nokkurra bílastæða af Hverfisgötu þó næg stæði séu í nágrenninu og tvöfalt fleiri stæði séu að jafnaði auð í bílastæðahúsum við Hverfisgötu. Ekki fylgdi fréttunum að bílastæðahúsin loka kl. 20 og svo ekki er hægt að leggja þar á kvöldin með tilheyrandi álagi á stæði við íbúðarhús í hverfinu.

Þessir fjölmiðlar RÚV, Morgunblaðið og Stöð 2 / Bylgjan ættu að leita til Landssamtaka hjólreiðamanna þegar fjallað er um málefni hjólreiðamanna. Það er líklegt að það kæmi eitthvað vitrænna úr því en sú óvandaða umfjöllun sem lýst er hér að ofan. Landssamtök hjólreiðamanna voru ánægð með þessa óvæntu tilraun með hjólarein þrátt fyrir ýmsa annmarka enda þarf stundum að prófa sig áfram til að finna bestu lausnina. Hverfisgata er með 30 km hámarkshraða og hreint ekkert erfitt að hjóla eftir henni, eftir sem áður. LHM hefur lengi bent á hvernig öruggast er að hjóla eftir slíkum götum og það falska öryggi sem oft fylgir hjólreiðum eftir gangstígum að ekki sé minnst á ógreiðfærar leiðir og óþægindi sem gangandi geta orðið fyrir af völdum hjólreiðafólks á þröngum gangstéttum.

Á næstunni stendur til að opna hjólarein eftir hluta Suðurgötu og hafa Landssamtök hjólreiðamanna þegar fagnað þeirri ákvörðun. Vonum að fréttamenn fjalli faglega um þá breytingu.

Að lokum er hér tengill á frétt borgarinnar af endapunkti tilraunarinnar með hjólarein upp Hverfisgötu.

Þegar undirritaður tók þessar myndir við Bíó Paradís sást glöggt að það voru fjölda margir sem komu hjólandi í bíó og öll “hjólastæði” full. Fjöldi reiðhjóla þarna var nálægt fjölda þeirra bílastæða sem fóru undir tilrauna-hjólareinina, það fer bara mikið minna fyrir þeim.

Hjólum lagt við hjólarein