Hjólavísar Reykjavíkurborg og Landsamtök hjólreiðamanna hafa undanfarið verið að vinna saman að betrumbótum á sam­göngukerfi hjólreiðamanna í Reykjavík. Ferlið hefur gengið misvel en þó hefur náðst betri árangur nú síðustu misseri en oft áður.

Nýjasta útspilið eru hjólavísar (e.chevrons) sem lagðir hafa verið eftir Einarsnesi í Skerjafirði og eftir Suðurgötu. Skv. bloggi Gísla Marteins eru þessar merkingar fyrst og fremst hugsaðar til að beina hjólandi umferð frá Ægisíðustígnum og upp að háskólanum. Þessi aðferð er víða notuð m.a. í Kanada þar sem ákveðnar götur eru gerðar að hjólavænum götum og reynt að beina sem mestri umferð inn á þær, þannig verða hjólreiðamenn áberandi á þeim götum og minni líkur á slysum af völdum ónærgætinna bílstjóra.

Sitt sýnist hverjum um vegvísana á Einarsnesi og sérstaklega á Suðurgötu en þetta er þó mikil framför. 19. Október síðastliðinn voru svo Langholtsvegur og Laugarásvegur merktir með vegvísum, þarna er loksins komið gott dæmi um raunverulegan samgönguveg fyrir hjólreiðamenn. Stígakerfi borgarinnar liggja flest frá austri til vesturs en þverun bæjarins frá suðri til norður getur oft á tíðum reynst erfið. Það að fara frá Kópavogi niður í Borgartún eða Ármúla er t.d. ansi snúið. Það yrði því mikil búbót ef ákveðnar götur væru merktar sem samgönguæðar hjólreiðamanna. Langholtsvegur og Laugarásvegur eru klárlega slíkar götur, þær eru einnig sérstakar fyrir þær sakir að þar er nú þegar töluverð umferð hjólreiðamanna. Það sem einnig einkennir göturnar, því miður, er hve hættulegar þær er hjólreiðamönnum að öllu óbreyttu. Óteljandi botnlangar ganga inn af götunum sem eru með blindum hornum og stafar hjólreiðamönnum því mikil hætta af ökumönnum sem koma út úr þessum botnlöngum, sérstaklega ef hjólreiðamenn hjóla á gangstéttum. Víða við Langholtsveginn er einnig lagt samhliða götunni og skapast oft mikil hætta þegar ökumenn opna hurðir án þessa að átta sig á aðvífandi hjólreiðamanni. Það að merkja þessa götu hefur því tvöfalt vægi, annars vegar að gera frekar hættulega götu að mun öruggari valkosti og hins vegar sem raunveruleg samgönguæð milli stígakerfa borgarinnar.

Hjólavísar

Reynslan af Hjólavísum

Ég hjóla daglega eftir Langholtsvegi og Laugarásvegi og eftir fimm mánaða reynslu í öllum veðrum og vindum tel ég vera komna ákveðna reynslu á hjólavísana. Til að byrja með fann ég fyrir miklum mun, bílsjórar urðu tillitssamari, ég fékk meira pláss og mér leið sem hluta af umferðinni og ekki eins og óvelkomnum og áður. Með snjónum breyttust vissulega aðstæður töluvert en ég tel samt að flestir hafi verið farnir að átta sig á því að þarna væri eðlilegt að hjóla. Þar sem vegvísarnir voru vel staðsettir voru þeir í slóð ruðningstækjanna og því alltaf frábært færi, annars staðar lentu þeir þó undir ruðningunum sem setti mig út á miðja götu öllum til ama. Í heildina litið tel ég þó þessa aðgerð mjög vel heppnaða, með meiri reynslu á viðhaldi, mokstri og betri merkingum er þarna komin vænleg leið til árangurs.  Vanda þarf valið vel á götum og tel ég Langholtsveg og Laugarásveg vera jafn fullkomnar og Suðurgatan er misheppnuð. Þessari tilraun Reykjavíkurborgar ber því að fagna og óskandi að við sjáum enn fleiri hjólreiðamenn á götum borgarinnar í kjölfarið og í framhaldinu enn fleiri hjólavísa.

 

Hættuslóðir

Stóra vandamál Langholtsvegar og Laugarásvegar er enn og aftur hjólreiðar á gangstéttum. Til að bæta gráu ofan á svart eru gangstéttarnar oft fullar af snjóruðningi sem er ekki ruddur fyrr en fólk er farið til vinnu og því ekki í samræmi við annan snjóruðning.

Við hjólreiðamenn erum ekki heilagir í þessari umræðu. Ótrúlega vanbúið fólk er á ferðinni á hjólum, sérstaklega börn og unglingar, algjörlega ljóslaus og án viðeigandi búnaðar til vetrarhjólreiða í myrkri og kulda. Þarna er virkilega þörf á átaki sem við, hjólreiðamenn, ættum að leiða með fræðslu og sem fyrirmyndir.

Að lokum vil ég skora á Kópavogsbæ að þvera Kópavog á nokkrum stöðum með hjólavísum!

Bárður Örn Gunnarsson

www.graenland.wordpress.com

Birtist í Hjólhestinum mars 2009  

  Bárður Örn Gunnarsson