Eftirfarandi pistill birtist í Morgunblaðinu 21. September 2000. 

 

Umræðan | 21. september 2000
Bílleysisdagur
Bíla má hvíla - á morgun

Í viðhorfskönnun sem var gerð eftir daginn, segir Árni Þór Sigurðsson, kom fram að nær allir, eða 97%, voru ánægðir með að slíkur dagur var haldinn.

Á MORGUN 22. september verður haldinn evrópskur dagur án bíla í 643 bæjum og borgum í Evrópu. Frakkland reið á vaðið með að halda sérstakan bíllausan dag árið 1998. Ári síðar tók Ítalía einnig þátt í deginum sem þá náði til 158 borga í þessum löndum. Í öllum þessum borgum notuðu íbúar almenningssamgöngur eða fóru ferða sinna fótgangandi eða á hjóli. Notkun almenningssamgangna jókst að meðaltali um 10%, hávaði minnkaði og loftgæði jukust.
Með Evrópudeginum 22. september 2000 er ekki verið að úthýsa bílum úr borginni heldur hvetja fólk til þess að hugsa upp á nýtt hvernig við notum þá og hvaða aðrir möguleikar eru fyrir hendi til þess að komast leiðar sinnar, svo sem að ganga, hjóla eða nota almenningssamgöngur. Hvatinn að deginum er að sífellt fleiri Evrópubúar hafa áhyggjur af loftmengun, hávaða og umferðaröngþveiti í borgum. Samkæmt könnun sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lét nýlega gera höfðu 70% Evrópubúa meiri áhyggjur af loftgæðum árið 1999 en 1994.

Borgir fara ýmsar leiðir á morgun til þess beina athyglinni að vandamálum sem vaxandi umferð skapar. Sumar taka frá svæði þar sem fótgangandi og hjólandi vegfarendur hafa forgang, svo sem hluta miðborgar eða miðborgina alla svo að borgarbúar geti notið hennar án bílaumferðar, endurheimt miðborgina sína. Aðrar velja t.d. þá leið að vekja athygli á vandamálum sem bíllinn skapar í borgarumhverfinu til þess að hafa áhrif á viðhorf fólks og að fá borgarbúa til þess reyna vistvænni ferðamáta.

Samtökin "Borgir án bíla" (Car Free Cities), sem Reykjavík tók þátt í að stofna, eru meðal þeirra aðild eiga að Evrópudeginum. Samtökin ná nú til um 70 borga í Evrópu. Reykjavík var í fararbroddi þegar haldinn var sérstakur dagur í borginni í ágúst 1996 með yfirskriftinni "Bíla má hvíla". Á þeim degi og á undan var höfðað til borgarbúa um að þeir skildu bílinn eftir heima í einn dag og bent á áhrif umferðar einkabíla á umhverfið og heilsuna og kostnað heimilanna vegna rekstrar bílsins. Í viðhorfskönnun sem var gerð eftir daginn kom fram að nær allir eða 97% voru ánægð með að slíkur dagur var haldinn.

Reykjavík vill nú aftur vera með í þessu verkefni. Að þessu sinni með því að vekja athygli á Evrópudeginum sem erlendis ber yfirskriftina "In town without my car!" en stefna að því að taka þátt af fullum krafti árið 2001 og þá hugsanlega með beinum aðgerðum. Í því efni kæmi til álita að loka hluta miðborgarinnar fyrir umferð einkabíla að því gefnu að almenn samningar næðust um slíkar aðgerðir við hagsmunaaðila þar, svo sem kaupmenn og atvinnurekendur.

Reykjavíkurborg vill hvetja starfsmenn sína, sem og aðra Reykvíkinga, sem vanalega fara til vinnu eða skóla á einkabílum, til þess að nýta aðra möguleika en bílinn á þessum tiltekna degi. Vaxandi umferð í borginni, slys og áhrif á umhverfið er okkur öllum áhyggjuefni og vandamál sem við munum þurfa í vaxandi mæli að taka á. Árangurinn í þeim efnum byggist fyrst og fremst á víðtækri samstöðu ríkis, sveitarfélaga, fyrirtækja, stofnana, félagasamtaka og einstaklinga. Evrópudagurinn "Bíla má hvíla" er viðleitni til að vekja fólk til umhugsunar um þessi mál.

Höfundur er formaður skipulags- og umferðarnefndar Reykjavíkur.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 21. September 2000.