Gleðilegt hjólasumar góðir áheyrendur
Þegar sól hækkar á lofti,sprettur fram hjólreiðafólk af öllum stærðum og gerðum og bætist við þann hóp fólks sem hjólar allan ársins hring. Finnst mér þetta mjög ánægjuleg sjón og eins hvað aðgengi hjólafólks hefur batnað með tilkomu stíganna hér í borg.

Reyndar er mín draumsýn að fólki sem notar hjólið sem samgöngutæki verði gefinn betri valkostur en lítill partur af göngustígunum til að komast leiðar sinnar, eins og til dæmis hjólarein eða hjólavegi eins og það heitir í Aðalskipulagi borgarinnar.

Þar er gert ráð fyrir samgönguneti um alla borgina sem ætti að nýtast hjólreiðafólki til samgangna en víða er þó gert ráð fyrir að fólk sé að hossast á gangstéttum og stígum þar sem oft er erfitt að komast ferða sinna óhindrað vegna hlykkja, kanta og gangandi vegfarenda.

Á gangstéttum erum við hjólreiðamenn gestir en gangandi eiga réttinn. Ef við hefðum sérstakar reinar eða hjólavegi fyrir okkur væri hægur vandinn að skjótast meðfram Miklubrautinni, vestan úr bæ, upp á höfða eða í Grafarvoginn. Ekki síst vantar tengingar við nágrannabæjarfélögin, þær eru í algjöru lamasessi.

Það er fínn fjölskyldurúntur að hjóla í kaffi til Fíu frænku í Hafnafirði eða Garðabæ og er þá hægt að hossast vatnsendaveginn en eftir að hafa belgt sig út af kaffi og kökum og fengið smá hrós fyrir framtakið vill maður hafa minni hossing og væri þá gott að geta hjólað eftir stíg til baka en ekki í umferðinni eins og nú er, ekki síst ef börnin eru með í för.

Ég tel að svona hjólavegir yrðu til þess að auka öryggi í umferðinni, fólk hjólaði meira og gæti jafnvel fækkað niður í einn bíl á mörgum heimilum því að það er með hjólafólk eins og aðra það þarf í og úr vinnu á sem skemmstum tíma, skreppa í bankann og vera á síðustu stund að ná í börnin á dagheimilið, þetta tilheyrir á Íslandi í dag ásamt söngnum um að fara ekki á hopp-sa-sa eins og sonur minn segir þegar við erum að hjóla upp og niður kantsteina eða eftir slæmum stígum

Þó ég hafi hjólað í mörg ár reyndi ég það fyrst í vetur að það er alveg hægt að hjóla allan ársins hring hér í Reykjavík. Þegar eldra barnið óx upp úr barnastólnum fékk ég mér tengivagn aftan í hjólið og þannig kemst öll fjölskyldan um á reiðhjólum. Meira að segja skelltum við okkur til útlanda um árið og hjóluðum um Evópu í nokkrar vikur, og var það mjög vel heppnuð fjölskylduferð, en kannski tala ég meir um það seinna. Vagninn nýtist líka stórvel í stórinnkaupaleiðangra í Bónus og svoleiðis.

Á vorin þegar hjólið er tekið fram er ekki nóg að pumpa bara í dekkin og skella sér á hnakkinn, það er mjög gott að yfirfara hjólið aðeins, athuga bremsurnar og gírana, setja olíu á keðjuna (og aðra staði með pílu á myndinni) og athuga að hækka sætið hjá krökkunum sem líklega hafa stækkað frá síðasta hausthjólatúr.

smyrja.JPG

Mjög oft sér maður fólk með sætið vitlaust stillt og ætla ég að reyna að útskýra hvernig hæðin er fengin rétt þó að stillingin á hnakknum sé misjöfn eftir fólki. Þegar þú situr á hjólinu, í þeim skóm sem þú hjólar í, með annan pedalann alveg niðri og með hælinn á pedalanum stillir þú hæðina á hnakknum þannig að fóturinn verði alveg beinn (sjá mynd).

hnakkhae.JPG

Eins og flestir vita eru konur og karlar ekki eins byggð, vilja konurnar breiðari og styttri hnakka sem henta betur breiðari mjaðmagrind kvenna, meðan karlarnir vilja oftast húka á örmjóu priki.

Svo er það mín reynsla að ég vil láta hnakknefið vísa frekar niður en upp og hefur oft verið gert grín að því hvort ég renni ekki fram af hnakknum, (svona góðlátlegar ábendingar frá eiginmanninum og félögum). Ég sagði frá þessari áráttu minni varðandi hnakknefið á kvennafundi hjá Íslenska fjallahjólaklúbbnum og komst að því að ég var ekki eitthvað vansköpuð heldur átti þetta við um fullt af konum.

Þó að innanbæjar þurfi nú kannski ekki sérstakan hjólafatnað er hann þó þægilegri og jafnvel nauðsynlegur á lengri ferðum og í slæmum veðrum.

Núna eru farin að fást hjólaföt sérstaklega hönnuð fyrir konur þar sem t. d sniðið er öðruvísi og bótin sem er í klofinu er ekki með saumum sem særa á viðkvæmum stöðum eins og er á karlabuxunum. Er þetta mikil framför frá því þegar við þurftum að láta okkur lynda hjólaföt hönnuð á karla.

Ég hvet fólk til að hvíla bílinn nú aðeins, í sumar að minnsta kosti. Velja hollari og ódýrari valkostinn og fara út að hjóla. Bæði sér til skemmtunar með fjölskyldunni eða bara í vinnuna.

Alda Jónsdóttir

Upphaflega flutt í þættinum Útrás á RÚV