Veðurstofa Íslands varaði við hættu vegna sjávargangs frá Reykjarnesi allt vestur á Vestfirði þann 21. febrúar síðastliðinn (1996). Þrátt fyrir að betur hafi farið en á horfðist þá brotnaði sjóvarnargarður í Reykjavík, þó nokkrar skemmdir urðu á bryggju og hafnargarði Reykhólahafnar og sjór flæddi yfir veginn í Gilsfjarðarbotni á þriggja kílómetra kafla og skemmdist vegurinn eitthvað enda mun sjódýptin á veginum hafa verið um einn metri.

Ástæðan fyrir að ekki fór verr nú var að veðurhæð náði ekki hámarki fyrr en nokkru eftir háflæði. Gert var ráð fyrir 4,7m sjávarhæð nú, en lítum á hvað gerðist 7.febrúar 1970 þegar sjávarhæð var 4,62m. Daginn eftir sagði í Morgunblaðinu að miklar skemmdir hafi orðið víða í Reykjavík og nágrenni af flóðunum. Sjór hafi flætt inn í kjallara og skilið eftir sig stórgrýti og þara á götum. "Á Álftanesi fóru tún víða alveg á kaf og á bænum Grund flæddi inn í gripahús, kindur drukknuðu og um 300-400 hænsn. Vegir, sem liggja meðfram sjó, urðu víða alveg ófærir og t.d. voru Eiðisgrandi og Ánanaust eins og stórgrýtisurð yfir að líta". Fram kemur að Skúlagatan hafi verið eins og tjörn yfir að líta á flóðinu. "Á strandlengjunni frá Seltjarnarnesi út í Örfirisey skolaði miklu af grjóti á land og varð vegurinn alveg ófær á köflum. Sjórinn slettist upp á hús við Ánanaust og bátar, sem stóðu uppi í kambinum í Örfirisey, við enda verbúðanna, köstuðust til og skemmdust. Bar sjórinn einn þeirra upp á götuna." Að sögn Braga Jónssonar veðurfræðings á Veðurstofu Íslands var veðrið nú, versta veður sem gengið hefur yfir landið frá því lægðin, sem olli snjóflóðinu á Flateyri í október síðastliðnum, gekk yfir.

Því miður megum við búast við mikilli aukningu afbrigðilegs veðurfars í náinni framtíð. Sú kynslóð sem fæðist nú, á eftir að upplifa, á sínu æviskeiði, afleiðingar þess þegar yfirborð sjávar hækkar um allt að 90cm vegna gróðurhúsaáfhrifa þeirrar mengunar sem foreldrar eru að dæla út í andrúmsloftið þessa stundina samkvæmt nýrri frétt í Newsweek 22. jan. 1996.

drukkna.gif

James E. Hansen setti fyrstur manna fram kenningar um gróðurhúsaáhrifin 1981. Jörðin virkar eins og risastórt gróðurhús, gastegundir sem myndast við bruna kolefna, svo sem koltvísýringur, endurkasta innrauðri hitageislun í andrúmsloftinu eins og gler á gróðurhúsi og hitinn á jörðinni eykst. Eftir því sem meiri mengun fer út í andrúmsloftið hitnar meir á jörðinni.

Fjölþjóðleg nefnd um veðurfarsbreytingar á vegum Sameinuðu Þjóðanna komst að þeirri niðurstöðu að hitinn á jörðinni myndi hækka um allt að 3.5°C fyrir árið 2100. Þó að það hljómi ekki ílla verður að gæta þess að um miðja síðustu ísöld fyrir 19.000 árum var hitinn á jörðinni aðeins 5 gráðum lægri en hann er í dag svo það er ljóst að áhrifin eru gríðarleg og þetta mun gerast á líftíma einnar kynslóðar en ekki 19.000 árum.

Þegar Hansen setti fyrst fram kenningar sínar um gróðurhúsaáhrifin var það þvert á kenningar vísindamanna en nú hafa kenningar hans verið sannaðar en enn er deilt um áhrifin sem aukinn hiti mun hafa. Sumir sjá fyrir sér mildari vetur og aukna uppskeru, hitamismunur milli pólanna og miðbaugs minnki og stórviðrum fækki. Hinir spá að landbúnaðarsvæði færist til, orsaki misræmi veðurfars, jarðvegs og úrkomu sem gæti tæmt mörg af forðabúrum jarðarinnar. Yfirborð sjávar hækki um allt að 90cm og kaffæri eyjar og láglendi. Tveir þriðju skóga jarðarinnar breytast í grassléttur. Miðausturlönd og norður afríka megi reikna með miklum þurrkum. Aukinn hiti á norðurpólnum gæti breitt hafstraumum sem nú hlýja Íslandi og vestur evrópu.

"Það vill enginn hugsa þá hugsun til enda að breytingar verði á hafstraumakerfinu" sagði Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóri í umhverfismálaráðuneytinu í frétt í Morgunblaðinu 3.september 1995. Þar sagði að Ísland væri fyrst og fremst byggilegt vegna þeirra aðstæðna í hafinu sem við búum við. Hann talaði um ný og áreiðanlegri reiknilíkön sem spáðu fyrir um allt að 4 gráðu hækkun á hitastigi andrúmslofts jarðarinnar á næstu 40 til 70 árum, þó það kólnaði á vissum svæðum, ef brennsla kolefna eykst með hraða undanfarandi ára. "Þetta eru það stórkostlegar breytingar að þær gætu haft veruleg áhrif hérlendis því hitastigshækkunin gæti raskað hafstraumakerfinu hér við land. Afleiðingin gæti t.d. orðið sú að Golfstraumurinn kæmi ekki að Íslandsströndum en færi eitthvert annað," sagði Magnús.

En það þarf ekki svona miklar breitingar til að veruleg breiting verði á högum íslendinga sem hafa yfir tvo þriðju tekna sinna úr gjöfulum miðum umhverfis landið. Magnús sagði nefnilega að eyðing ósonlagsin kynni að hafa áhrif á lífríki hafsins ekki síður en mannfólkið. Rýrnun ósonlagsins getur haft áhrif á vöxt þörunga, frumframleiðslu hafsins og þar með á stærð fiskstofna.

Skoðum betur spár James A. Hansen. Eftir að Pinatubo gaus á Filipseyjum 1991 spáði hann að hiti jarðarinnar myndi standa í stað þar til þau 20 megatonn kælandi eldfjallaryks, sem fóru út í andrúmsloftið, sjötnuðu. Það gekk eftir og nú lyggur fyrir að hitinn 1995 var sá mesti á jörðinni síðan mælingar hófust. Og með hækkandi hita fylgir afbrigðilegra veðurfar. Öfgarnar munu aukast. Á þurrka svæðum munu þurrkar aukast og á regnsvæðum eykst hættan á úrhelli. Hlýrri höf þýða meiri uppgufun og rakt hlýtt loft, sem eflir snjóstorma, mun aukast yfir Atlantshafi. Hansen telur að minni tími sé til stefnu fyrir aðgerðir en stjórnvöld stóli á.

Á umhverfisráðstefnunni í Rio 1992 hétu stjónvöld iðnríkja að draga úr útstreymi "gróðurhúsa" gastegunda þannig að útblástur yrði ekki meiri árið 2000 en 1990. Því miður er Svíþjóð trúlega eina landið sem getur staðið við það. Bandaríkin treysta á að iðnaðurinn minnki útblásturinn sjálfviljugur, t.d. með því að nota minni orku og framleiða sparneytnari bíla í stað strangra aðhaldsaðgerða eins og orkuskatts, sem myndi minnka orkunotkun. Íslendingar afsaka sig með lífsnauðsinlegum Smuguveiðum sínum en lofa að planta trjám og lúpínu í staðinn. Stjórnmálamenn hugsa pólitískt líf sitt í kjörtímabilum og meiga ekkert vera að því að hugsa um langtímaáhrif eða komandi kynslóðir eins og skuldahalar og menguð náttúra sýnir.

Þótt ekki sé hægt að horfa á einstök óveður eins og þau sem orsökuðu tvö skelfileg snjóflóð hér á síðasta ári og segja að þau séu vegna gróðurhúsaáhrifanna telur Hansen að búið sé að íta svo við veðurkerfunum að það verði augljóst hverjum manni innan tíu ára hvert stefni. Er ekki tími til kominn og líta í eigin barm og skoða hvað við getum gert til að minnka þá mengun sem við völdum hvert og eitt með okkar einkabílum og reyna að hreifa okkur svolítið í staðinn. Letin og hreifingarleysið veldur því að fjölmargir íslendingar láta lífið á ári hverju um aldur fram af hjarta og kransæðasjúkdómum. En letin drepur ekki bara okkur sjálf heldur hefur hún varanleg áhrif á komandi kynslóðir.

 

Páll Guðjónsson

Teikning: Jón Örn Bergsson.

© Hjólhesturinn 1.tlb. 5. árg. Febrúar 1996

Heimildir :

Newsweek 22.jan 1996

Morgunblaðið 21. og 22. febrúar 1996

Morgunblaðið 3. september 1995