„Á ég að skella mér í ferð með Fjallahjólaklúbbnum?  Það væri nú gaman að hjóla Nesjavellina.  Hef ekki komið þangað síðan ég var smápolli í bíltúr með pabba og mömmu.  Hjól?  Nei, ég hef nú ekki hjólað eftir fermingu en fékk gjafabréf frá vinnufélögunum í hjólreiðaverslun.  Kannski leynileg ábending um að nú þurfi að bæta líkamsástandið.  Stjáni á lagernum fékk rakspíra og undirhanda svitalyktareyði í jólavinaleiknum.  Það ætti að segja honum eitthvað karlanganum.“

Ef þú hefur ekkert hjólað í mörg ár, þá er kannski best að byrja í ræktinni, taka 20 mínútna rólegan hjólatúr á þrekhjóli og auka smám saman viðnámið.  Þó að fólk sé í góðu gönguformi, þá leynast víða vöðvar sem maður hefur ekki hugmynd um og þrjggja til fjögurra klukkutíma hjólatúr getur sko framkallað harðsperrur frá helvíti.  Og sáran bossa.  Það þarf líka að herða afturendann smám saman.  Að byrja að hjóla úti um hávetur eftir langt hlé er ekki sniðugt.  Hálka og sandur á stígum getur orsakað fall hjá fólki sem áttar sig skyndilega á hvað það er gaman að hjóla hratt.  Víííí... búms.  Um leið og snjóa leysir og búið að sópa stíga, þá er upplagt að rífa fram reiðskjótann og taka létta hringi í sínu nánasta umhverfi.  Taka þátt í Hjólað í vinnuna.  Í byrjun maí hefjast kvöldferðirnar okkar.  Öll þriðjudagskvöld kl. 19:30 frá Húsdýragarðinum, aðalinngangi.  Þangað er upplagt að mæta, kynnast félögunum í Fjallahjólaklúbbnum og kanna formið fyrir ferðir sumarsins.  Við hjólum í einn til tvo klukkutíma eftir veðri og kíkjum stundum á kaffihús.

Ég byrjaði að hjóla aftur eftir langt hlé árið 2008.  Vinnustaðurinn minn flutti niður í miðbæ Reykjavíkur og ég sat pikkföst í langri röð ökutækja á leiðinni heim.  Horfði svo á hvern hjólreiðamanninn á fætur öðrum hjóla viðstöðulaust fram hjá og hverfa út í buskann.  Þegar snjóa leysti um vorið birtist gamalt reiðhjól undan skaflinum við húsið.  Einhver hafði greinilega gefist upp á miðri leið og fleygt hjólinu frá sér.  Það var kolryðgað, en samt vel hjólafært og eftir að hafa hjólað fram og aftur í götunni ákvað ég að prófa að hjóla í vinnuna;  ca fjóra kílómetra.  Í kjölfarið fór ég að hjóla með strákunum mínum í Elliðaárdalnum og eftir að ég uppgötvaði Fjallahjólaklúbbinn hef ég verið óstöðvandi og er nú fararstjóri;  sé um þriðjudagskvöldferðirnar og verð fararstjóri í tveimur helgarferðum í sumar.

Já, en þú ert þá í góðu formi, ekki satt?  Ja, ég veit ekki alveg hvað segja skal.  Ég er nefnilega miðaldra gigtveik húsmóðir í rúmum meðalholdum.  Nýkomin úr aðgerð þar sem skipt var um hnjáliði.  Ég hef ekkert hjólað í marga mánuði og er búin að vera rúmliggjandi í fjóra mánuði af síðustu sex.  Núna fer ég í ræktina þrisvar í viku og hjóla þar í 20 mínútur.  Í mars mun ég útskrifa mig úr rúmlegunni og hefja markvissa þjálfun utandyra.  Þessi pistill er skrifaður í byrjun febrúar.  Ég hjóla ekki hratt og ef það verður brekka á vegi mínum, þá stíg ég bara af baki og leiði hjólið upp brekkuna.  Þá virkar hjólið eins og göngugrind og léttir mér sporin.  Það má vel vera að ég hafi hjólað með þennan Hjólhest til þín.  Eða einhver annar félagi í Fjallahjólaklúbbnum.  Við berum nefnilega út sjálf í sum hverfi, til að spara póstburðargjöld og upplifa ánægjuna af því að koma á nýjar slóðir.  Veist þú hvar Mjóahlíð er?  Eða Þjórsárgata?  Ég þekki Reykjavík eins og lófann á mér núorðið.  Á reiðhjóli.  Ég villist endalaust á bíl.

Ég segi stundum í gamni og alvöru að reiðhjólið sé minn hjólastóll.  Ég get ekki gengið langar vegalengdir, en ég get farið í dagsferðir á hjólinu.  Það er nefnilega mun auðveldara og léttara að hjóla en ganga.  Æ,  þar fór víst alveg harðjaxlabragurinn af mér.

Hrönn Harðardóttir

Myndir: Hrönn Harðardóttir, Geir Harðarson og Anna Magnúsdóttir.

Birtist fyrst í Hjólhestinum mars 2018.