Ein af merkilegri hjólakonum okkar tíma, Unnur Sólrún Bragadóttir, sendi frá sér í vikunni ljóðabókina ”kærleikskitl ljóð – óbærileg lífshamingja” þar sem finna má þetta skondna ljóð hennar um Hjólhestinn. Unnur Sólrún er best þekkt í röðum hjólafólks fyrir stofnun og rekstur sinn á Hjólaríinu í Snælandsskóla. Þar koma nemendur skólans saman og tæta sundur hjól. Svo er tekið til við að pússa og mála og að lokum eru sett saman ný hjól úr því sem eitt sinn beið á Sorpu eftir að verða urðað með öðrum málmum.

 

 

Hjólhestur


Á farartækjum ýmis konar ferðumst við öll.

Flugvél nota margir, háloftanna tröll,

bílar eru algengir í óhófi þá nýtum,

allt of lítið göngum ef til framtíðar lítum.


Reiðhjólið er frábært mér finnst það engu líkt.

Fáðu þér í einum grænum endilega slíkt

það brunar með þig áfram á ótrúlegum hraða

orku þína notar og engum veldur skaða.


Þú sem ert að hjóla að þér útilofti andar

útivist og ánægju á snjallan hátt þar blandar.

Ekki ertu að menga svo mikið er víst

á milli staða hljóðlega þú einfaldlega skýst.

    Unnur Sólrún Bragadóttir

 

 

Um leið og við óskum Unni Sólrúnu til hamingju með ljóðabókina sína, hvetjum við hjólafólk til þess að kíkja á heimasíðuna hennar um Hjólaríið: http://hjolari.homestead.com/index.html