havardur-tryggvason.jpg Fyrir um ári síðan tók ég þá ákvörðun að hjóla á komandi sumri góðan hring um landið til að fagna 50 ára afmæli mínu og um leið láta eitthvað gott af mér leiða. Fyrsta hugmyndin var að hjóla hringveginn en eftir nokkrar vangaveltur og reynslutúra í kringum Reykjavíkursvæðið varð ég því afhuga vegna mikillar  umferðar og lélegra vegaxla. Þá datt mér í hug að skoða Vestfirðina og las m.a. tvær ferðasögur í Hjólhestinum sem kveiktu í mér og það varð ekki aftur snúið. Í byrjun var planið að tutla þetta einn með allt á hjólinu, en þegar konan mín Þórunn María Jónsdóttir bauðst til að trússa ferðina ásamt börnunum okkar tveimur, þurfti ég ekki að hugsa mig um tvisvar. Þá hafði ég samband við Hollvini Grensás og bauð þeim að fara þessa ferð til styrktar verkefninu Á Rás fyrir Grensás, sem var þáð með þökkum. Ferðina tileinkaði ég frænda mínum og jafnaldra Kristjáni Ketilssyni, sem hefur verið lamaður eftir bílslys frá 17 ára aldri.

Eftir ágæta líkamsrækt yfir veturinn og ófáar æfingaferðir á Reykjavíkursvæðinu; Reykjavíkurhringir, Hafravatn, Úlfarsfell, Bláfjallahringur, Nesjavellir, Þingvellir o.fl. lagði ég af stað  22. júní í þessa langþráðu hjólreiðaferð. Planið var að hjóla rangsælis hring um þjóðvegi „neðri kjálka“ Vestfjarða, alls um 715 km vegalengd með útúrdúrum og rétt tæplega 5000 metra í klifur. Ég flaug á Ísafjörð og hjólaði þaðan vesturfirðina svokölluðu og kom við í flestum þorpum á leiðinni. Síðan hélt ég yfir á Barðaströnd og þræddi suðurfirði Vestfjarða allt að Gilsfirði en þar fór ég yfir „hálsinn“ á Vestfjarðkjálkanum, Steinadalsheiði, ofan í Kollafjörð við Húnaflóa. Þaðan hélt ég til Hólmavíkur og yfir Steingrímsfjarðarheiði niður í Ísafjarðardjúp og sem leið lá alla leið til Ísafjarðar. Ferðin tók 8 daga.

Kort af leiðinni

 

1. dagur:

(Reykjavík) Ísafjörður – Flateyri – Þingeyri: 73 km

 

Ég lenti á Ísafirði um kl. 10 um morguninn eftir smá seinkun á fluginu. Hjólaði inn í bæinn í viðtal hjá Gylfa hjá Rúv til að kynna ferðina og söfnunina fyrir Grensásdeild. Einnig dreifði ég nokkrum plakötum og hitti nokkra Ísfirðinga og fékk góð ráð hjá þeim. Hjólaði af stað í ferðina miklu um kl. 11.30 sem leið lá um gamla veginn upp á Breiðadalsheiði (620 mys). Það var fínt að hjóla upp gamla veginn, enginn snjór á veginum til að tefja för. Mörg myndastopp í frábæru veðri og meira að segja meðbyr. Niðurleiðin hinu megin var mun erfiðari og ævintýralegri. Kinnin svokallaða var snjóþung og lágu skaflar yfir veginn á nokkrum stöðum. Ég þurfti því að taka mér stein í hönd og höggva spor í klakann undir snjónum til að ég húrraði ekki niður snjóbreiðuna. Það tók því um klukkustund að komast um 100 metra vegalengd. Eftir það var leiðin greið þó gróf væri og töluvert af grjóti sem hrunið hafði á neðri hluta vegarins. Svo tók ég útúrdúr til Flateyrar, hengdi upp plaköt og fékk mér pylsu. Vegurinn yfir Gemlufallsheiði er vel byggður og gott að hjóla hann. Það var mótvindur inn Dýrafjörðinn en lens út. Á Þingeyri hitti ég svo fjölskylduna sem kom á bílnum með ferjunni Baldri með farangur og vistir. Það var gott að komast í sund, borða og í svefnpokann eftir góðan dag.

2. dagur:

Þingeyri – Hrafnseyri – Bíldudalur: tæpir 100 km

 

Lagði af stað 10:30 frá Þingeyri eftir morgunverk í tjaldbúðum. Mjatlaði hægt en örugglega yfir Hrafnseyrarheiði (552 mys) og kom svo við á fæðingarstað Jóns Sigurðssonar, samafmælungs míns, á Hrafnseyri. Hér um slóðir virðast vindar koma úr öllum áttum; með, á móti og aftan úr.... Hjólaði upp á Dynjandisheiði í einni langri törn (500 mys). Vegurinn missir u.þ.b. 150 m hæð og klífur svo aftur upp í  500 mys.  Það var yndislegt að koma af hrjóstugri heiðinni niður í fallega Suðurfirðina og taka pásu í sundlauginni í Reykjafirði. Þar hitti ég nokkra Frakka sem voru að leita eftir erfiðum og ævintýralegum hjólaleiðum. Benti þeim á Breiðadalsheiðina!  Brunaði að lokum inn á Bíldudal, þar sem Bíldudals Grænar voru við það að hefjast. Hristur og hrærður eftir daginn. Hristur af vestfirskum malarvegum og hrærður yfir vestfirskri náttúrufegurð, gestrisni og stuðningi við Á rás fyrir Grensás.

3. dagur:

Þingeyri – Tálknafjörður – Patreksfjörður – Flókalundur : 98,5 km

 

Þriggja heiða dagur í sól og blíðu. Úr sól og grænum baunum á Bíldudal yfir í kótelettur, logn og kvöldsól í Flókalundi. Á leiðinni upp heiðarnar fækkaði ég fötum en í bruninu niður þurfti ég að dúða mig í lambhúshettu, lúffur og vindjakka því vindkælingin var mikil í lágum lofthitanum. Kom við á Tálknafirði og Patreksfirði og hitti hjólahópinn Brellurnar sem nýverið hjóluðu svipaðan Vestfjarðahring. Fékk hjá þeim góðar veitingar og hvatningu. Heildarhækkun dagsins var 1273 m (Hálfdán 500 mys, Miklidalur 369 mys, Kleifaheiði 404 mys). Drjúgar og góðar brekkur allarsaman en 10 metra brekkan upp að tjaldstæðinu í Flókalundi í lok dags var andlega einna erfiðust ! Þreyttur en sæll eftir góðan dag.

4. dagur:

Flókalundur – Djúpidalur: 100 km

 

Vindskafinn dagur. Stífur norðaustanvindur var ríkjandi þennan dag. Vindurinn tók vel í inn firðina og uppá hálsana en ágætis lens var út firðina. Maður fær á tilfinninguna að firðirnir séu mun styttri í aðra áttina. Klettshálsinn (332 mys)  og Ódrjúgshálsinn (160 mys) voru ansi drjúgir með vindinn í fangið. Gott að komast í heita og góða laug í Djúpadal. Það var nánast ógerlegt að koma upp tjaldi í rokinu þannig að við skelltum okkur í svefnpokagistingu og fékk ég góða hvíld.  Þetta var fyrsti dagurinn sem fór yfir 100km!

5. dagur:

Djúpidalur – Bjarkalundur –  Króksfjarðarnes – Steinadalsheiði – Kirkjuból: 88 km

 

Másandi – blásandi. Ég másandi allan daginn, vindurinn blásandi, aðallega á móti mér. Hávaðarok og á köflum „Hávarðarrok“ sem er tveimur r-stigum meira en hitt. Svona verður maður sjálfhverfur af því að hjóla heilu dagana einn. Kröpp byrjun á deginum með Hjallahálsi (336 mys). Kom við á Króksfjarðarnesi í handverkshúsi og þar voru mér færðar nýbakaðar vöfflur og kaffi. Yndisþakkir. Þar hitti ég líka hóp frækinna hjólreiðakappa sem voru nýkomnir úr Gilsfjarðarhringsferð í rokinu. Einhver þeirra réð mér frá því að halda á Steinadalsheiðina (330 mys) en ég lét það sem vind um eyru þjóta. Mjög hvasst var inn Gilsfjörðinn og átti ég í erfiðleikum með að halda mér á veginum. Framan af Steinadalsheiðinni var meira teymt en hjólað, enda vegurinn brattur og laus í sér og vindurinn á móti. Á leiðinni niður eru tvær stórgrýttar ár sem ég þurfti að vaða.  Þetta varð 11 tíma dagur, þeir gerast ekki mikið lengri og engar stéttarfélagspásur.  En dagurinn endaði frábærlega í gistingu hjá Ester og Jóni á Kirkjubóli (við Hólmavík).  Svo renndu í hlað Jónas bróðir og Alex frændi, tilvonandi hjólakappi- stuðningslið að sunnan. Garmin gps tækið gaf upp 88 km eftir daginn. Næst tek ég líka vindmæli með mér og ekki má gleyma vetrarlúffum, vindbuxum og lambhúshettu. Staðalbúnaður fyrir sumarferðir á Íslandi.

6. dagur:

Kirkjuból – Hólmavík – Steingrímsfjarðarheiði – Reykjanes: 102 km

 

Eftir góða gistingu á Kirkjubóli á Ströndum hélt ég af stað yfir Steingrímsfjarðarheiði (439 mys) með viðkomu á Hólmavík. Lítið skyggni var á heiðinni vegna þokusúldar og norðanskíts og ég var hundblautur og kaldur er yfir í Djúpið kom. Gott lens var inn hinn langa Ísafjörð (innst í Ísafjarðardjúpi) en hann reyndist ennþá lengri í mótvindinum á leiðinni út. Það tók töluvert á taugarnar að tutla á móti vindinum á rúmlega gönguhraða. Það var mjög gott að komast í Reykjanes í sund og svefnpokapláss. Í matnum hittum við franska hjólreiðakonu sem var að koma út Djúpið, með allt á hjólinu!  Gps tækið bilaði á miðri leið en ég áætla 102 km dag.

7. dagur:

Reykjanes – Djúpið – Súðavík: 110 km

Hélt af stað eftir fína dvöl í Reykjanesi. Nú var ég alveg að fá mig fullsaddan af þessu roki! Þó stóðst ég ekki freystinguna og gerði smá útúrdúr á slóðum Hávarðar sögu Ísfirðings. Fór afleggjarann inn Laugardal til móts við Blámýri hvar Hávarður Ísfirðingur og kona hans Bjargey bjuggu. Þar fór nú einn þrjóskur - sem ekki beygði sig fyrir ofríki ofstopamanna. Ég mæli eindregið með þessari lítt kunnu íslendingasögu. www.sagadb.org/havardar_saga_isfirdings. En þrjóska þarf ekki endilega að vera löstur, a.m.k. kom hún mér til Súðavíkur í rokinu. Á leiðinni staldraði ég við í Litlabæ yst í Skötufirði, huggulegu kaffihúsi í nýlega uppgerðum gömlum bæ. Þar skammt frá var fullt af selum að leik í sjónum.  

8. dagur:

Súðavík – Ísafjörður – Bolungavík – Ísafjörður: 43,5 km

Þá var komið að lokadeginum í þessum frábæra hring. Lagði af stað frá Súðavík og hélt sem leið lá í gegnum Ísafjörð og fór inn á Óshlíðarveginn sem nú er aflagður. Þetta er ofsalega falleg leið en um leið hrikaleg og maður skilur vel að fólkið á svæðinu sé fegið að hafa fengið göng. Þarna varð fyrsta bilunin í ferðinni, þegar keðjan slitnaði. Það var lítið mál að redda því með nýjum keðjulás, sem var með í viðgerðarsettinu. Þegar ég kom til Bolungarvíkur fór að birta til og brast á með sólskini og blíðu sem var mjög kærkomið. Fór í Einarshús til Rögnu og Jóns Bjarna og fékk þar súpu dagsins og kaffi í boði hússins. Frábært að sjá hvað þau hjón hafa gert þetta sögufræga hús smekklega upp og gert það að staðarprýði og vinsælum viðkomustað (bar, veitingastaður og gistiheimili). Þá var komið að því að taka lokasprettinn í þessari ferð, til baka á Ísafjörð. RÚV var mætt á staðinn og fylgdi mér Óshlíðina. Á fullri ferð í meðbyr í fylgd myndatökumanna átti ég mitt eigið „Tour de France“ moment :) . Að lokum renndi ég inn á Silfurtorg þar sem ferðin hófst. Þar tók á móti mér mín trausta trússfjölskylda (Þórunn María, Hildur og Tryggvi) ásamt nokkrum vinum og RÚV mönnum sem tóku stutt viðtal. Síðan var farið í Gamla Bakaríið og sund og loks í grill til vinafólks í Tungudal.
Það er svo sannarlega hægt að mæla með Vestfjörðunum fyrir hjólreiðafólk. Náttúrufegurðin er stórkostleg, vegirnir ágætir og fjölbreyttir, frekar lítil umferð og fullt af góðum brekkum í bónus. Veðrið á Íslandi er eins og það er og verður bara að klæða það af sér. Að mínu mati eru miklir framtíðarmöguleikar fyrir hjólreiðaferðamennsku á Vestfjörðum og gaman ef settar væru á fót fleiri hjólreiðakeppnir á svæðinu, t.d. Vestfirski – hringurinn eða „Tour des Fjords“
Ég vil nota tækifærið og þakka öllum sem studdu við ferðina og þeim sem hafa lagt inn á söfnunina. Þó Vestfjarðahringnum sé lokið, heldur söfnunin áfram. Vil ég því minna á reikningsnúmer söfnunarinnar Á Rás fyrir Grensás: 311-26-3110 kt. 670406-1210.

 

Myndir úr ferðinni:

Myndagallerý

 

 

Stuðningsaðilar ferðarinnar voru:

Örninn hjólreiðaverslun

Flugfélag Íslands

Sæferðir

Háskólaprent

Rögg


Tjaldstæðin:

Þingeyri

Bíldudal

Flókalundi


Gistiheimilin:

Kirkjuból (við Hólmavík)

Reykjanes

Bjarnabúð (orlofshús FÍH á Súðavík)


Hjólhesturinn, mars 2012